Spurt og svarað
Hér eru algengar spurningar og svör um byggingarreglugerð. Ef svarið er ekki að finna á þessari síðu, þá er hægt að senda okkur fyrirspurn um byggingarreglugerð hér að neðan eða á netfangið byggingarreglugerd@hms.is
Spurning mánaðarins
Reglulega berast fyrirspurnir um mannvirkjagerð til sérfræðinga HMS. Í spurningu mánaðarins er algengum spurningum svarað.
Munurinn liggur í flokkun mannvirkja sbr. kafla 1.3. í byggingarreglugerð. Í töflu 1 eru meginreglur og viðmiðunarreglur vegna flokkunar mannvirkja í umfangsflokka settar fram þannig að auðvelt er að lesa úr því í hvaða flokk mannvirki falla eftir eðli þeirra, stærð og fjölda hæða.

Í töflu 2 má finna heildaryfirlit yfir þau gögn sem skila skal til leyfisveitanda vegna mannvirkjagerðar í hverjum umfangsflokki fyrir sig og hvaða skilyrði og einstakir þættir eftirlits eiga við hvern og einn flokk.

Hugtakið mannvirki er skilgreint í 51. tölulið 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar á eftirfarandi hátt:
„Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt reglugerð þessari.“
Almenna reglan er að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum t.d. á útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2.3.5. gr. reglugerðarinnar eru þó undanþegnar byggingarleyfi. Sækja þarf um leyfi til að rífa og flytja mannvirki.
Mannvirki undanþegin byggingarleyfi eru, sbr. grein 2.3.1., fráveitumannvirki utan lóðar og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum.
Athuga skal að sækja þarf um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.
Ítarlegri upplýsingar:
Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, t.d. ef atvinnuhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, íbúðarhúsnæði í gististað þar sem gestafjöldi er yfir 10 manns, verslunar- og skrifstofuhúsnæði í veitingastað o.s.frv. Oftast kallar slík breytt notkun á breytingar á húsnæðinu, t.d. varðandi eldvarnir. Þó einungis sé um breytta notkun að ræða en ekki breytingar á húsnæðinu sjálfu þarf eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi. Byggingaryfirvöld fara þá yfir hvort hin breytta notkun samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu og meta hvort húsnæðið uppfyllir ákvæði gildandi byggingarreglugerðar vegna hinnar breyttu notkunar.
Eftirfarandi framkvæmdir eru skv. 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar undanþegnar byggingarleyfi, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag :
a. Framkvæmdir innanhúss í íbúðarhúsnæði
Allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsum, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h.
Breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum íbúðar, að undanskildum burðarveggjum og eldvarnarveggjum. Ekki má þó flytja til votrými eða eldhús innan íbúðar, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.
b. Framkvæmdir innanhúss í atvinnuhúsnæði
Allt minniháttar viðhald innanhúss í atvinnuhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innanhúss o.þ.h.
Endurnýjun léttra innveggja, þó ekki burðarveggja og eldvarnarveggja. Tilkynna þarf leyfisveitanda um framkvæmdir áður en þær hefjast með því að leggja fram breyttar teikningar. Ekki má flytja til votrými eða eldhús, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.
c. Framkvæmdir utanhúss
Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga þegar notað er eins eða sambærilegt efni og frágangur er þannig að útlit byggingar sé ekki breytt.
Klæðning þegar byggðra bygginga í dreifbýli. Tilkynna þarf leyfisveitanda um framkvæmdir áður en þær hefjast með því að leggja fram viðeigandi gögn.
Sækja ber um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar eða þegar endurbyggja þarf burðarvirki að hluta eða öllu leyti.
d. Móttökuloftnet
Uppsetning móttökudisks, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets, að því tilskildu að slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt skilmálum skipulags.
e. Framkvæmdir á lóð
Allt eðlilegt viðhald lóðar, girðinga, bílastæða og innkeyrslu.
Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, enda rísi pallur ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir var. Pallur úr brennanlegu efni má þó ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m.
Ekki er heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá er ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni nágranna, t.d. vegna útsýnis.
f. Skjólveggir og girðingar á lóð
Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.
Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.
Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.
g. Smáhýsi á lóð
Smáhýsi til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar eftirfarandi kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi:
Flatarmál smáhýsis er að hámarki 15 m².
Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis og frá glugga eða hurð húss, svo og frá útvegg timburhúss er a.m.k. 3,0 m.
Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 m er glugga- og hurðalaus.
Mesta hæð útveggja eða þaks á smáhýsi er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
Smáhýsi er án allra vatnslagna, raflagna og hitunar.
Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 m skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.
Sjá nánar leiðbeiningar HMS nr. 2.3.5. (linkur)
Ertu að spá í að fá þér smáhýsi? | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hms.is)

Ferill byggingarleyfis er m.a. útskýrður í eftirfarandi köflum byggingarreglugerðarinnar:
Byggingarleyfi fellur úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd telst vera hafin við fyrstu áfangaúttekt.
Leyfisveitandi getur fellt byggingarleyfi úr gildi stöðvist framkvæmdir í eitt ár eða lengur.
Ítarlegri upplýsingar:
Samkvæmt 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar þarf að sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda ef ákveðnir lausafjármunir eiga að standa lengur en tvo mánuði utan sérstakra geymslusvæða.
- Stöðuleyfi gildir einungis fyrir eftirfarandi:
- Hjólhýsi á tímabilinu 1. október – 1. maí.
- Gáma.
- Báta.
- Torgsöluhús.
- Frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings.
- Stór samkomutjöld.
.
Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.
Nánari upplýsingar má finna í leiðbeiningu HMS nr. 2.6.1.
Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur og öryggisúttekt hafi farið fram. Unnt er að beita þvingunarúrræðum (t.d. stöðvun framkvæmda eða notkunar, lokun eða álagningu dagsekta) ef vanrækt er að láta öryggisúttekt fara fram.
Í 3.8. kafla byggingarreglugerðar eru ítarleg ákvæði um hvaða gögnum þarf að skila vegna öryggisúttektar. Nánari ákvæði um framkvæmd hennar eru í skoðunarhandbók sem er í II viðauka byggingarreglugerðar.
Fjallað er um lokaúttekt í 3.9. kafla byggingarreglugerðar. Lokaúttekt fer fram þegar mannvirki er að fullu lokið. Þáttum sem ekki varða öryggi eða hollustu getur verið ólokið við framkvæmd öryggisúttektar. Einnig getur verið óskað eftir öryggisúttekt þegar hluti mannvirkis er tekinn í notkun og öðrum er ólokið. Ítarleg ákvæði eru í byggingarreglugerð um gögn sem þarf að skila vegna lokaúttektar og nánari útfærsla verður í skoðunarhandbók Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem liggja mun fyrir eigi síðar en í árslok 2014. Heimilt er að framkvæma öryggis- og lokaúttekt samtímis. Annars skal lokaúttekt í síðasta lagi fara fram þremur árum eftir að öryggisúttekt er framkvæmd.
Upplýsingar um gögn vegna öryggisúttektar er að finna í grein 3.8.2.
Upplýsingar um gögn vegna lokaúttektar er að finna í grein 3.9.2.
Eigandi ber ábyrgð á að hönnun, bygging og rekstur mannvirkis uppfylli kröfur laga um mannvirki og byggingarreglugerðar.
Eigandi ber ábyrgð á að fram fari lögboðið eftirlit með byggingu mannvirkisins.
Eigandi skal hafa virkt innra eftirlit með því að þeir sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari að lögum og byggingarreglugerð.
- Hönnunarstjóri annast innra eftirlit eiganda við hönnun.
- Byggingarstjóri annast innra eftirlit eiganda frá útgáfu byggingaleyfis til lokaúttektar.
- Hönnunarstjóri og byggingarstjóri skulu gera eiganda grein fyrir framkvæmd innra eftirlits samkvæmt 4. hluta byggingarreglugerðar.
Eftirtaldir aðilar teljast eigendur samkvæmt 2.7.1. gr. byggingarreglugerðar:
- Lóðarhafi óbyggðrar lóðar.
- Umsækjandi um byggingarleyfi.
- Byggingarleyfishafi.
- Eigandi mannvirkis í byggingu. Sé mannvirki selt í heild eða að hluta áður en lokaúttekt fer fram ber fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. 2.7.1. gr. ásamt nýjum eiganda nema um annað sé samið í skriflegum samningi milli þeirra. Skal þá koma skýrt fram að nýr eigandi gangi inn í samning fyrri eiganda við byggingarstjóra mannvirkisins eða nýr byggingarstjóri sé ráðinn fyrir mannvirkið í heild.
- Eigandi mannvirkis eftir að lokaúttekt hefur farið fram.
Hönnuðir sem hafa fengið löggildingu, sbr. 25. og 26. gr. laga um mannvirki, skulu gera aðal- og séruppdrætti hver á sínu sviði og tilheyrandi hluta- og deiliuppdrætti.
Hönnuðir bera ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim enda hafi verið fylgt að fullu uppdráttum hönnuðar, verklýsingu, skriflegum fyrirmælum og viðurkenndum starfsvenjum. Hönnuðir skulu árita uppdrætti sína eigin hendi og þannig staðfesta ábyrgð sína.
Hönnuður skal, áður en hann leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda, framvísa staðfestingu þess er tryggingu veitir að hann hafi fullnægjandi tryggingu.
Hafi hönnuður ekki lengur fullnægjandi ábyrgðartryggingu er honum ekki heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfisveitanda.
Sá sem gerir aðaluppdrætti og skilar þeim inn til byggingarfulltrúa
Hönnuður, einstaklingur eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar sem leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu, sbr. ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra.
Aðaluppdráttur er heildaruppdráttur að mannvirki, ásamt afstöðumynd þess, þar sem gerð er grein fyrir formi, aðgengi, útliti, stærð og staðsetningu mannvirkis, skiptingu þess í eignarhluta, byggingarefnum, byggingaraðferðum, innra skipulagi og notkun, brunavörnum, orkunotkun, meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og skipulagsmálum.
Umsókn um byggingarleyfi skal m.a. fylgja aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu. Leyfisveitandi ákveður hvort og að hvaða leyti leggja þurfi fram aðaluppdrætti vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum.
Nánari upplýsingar um aðaluppdrætti eru að finna í 4.3.1. gr. byggingarreglugerðar.
Séruppdráttur er uppdráttur sem sýnir m.a. útfærslu einstakra byggingar- og mannvirkjahluta og tæknibúnaðar og skipulag lóða, ásamt tilvísunum í staðla um efniskröfur og annað sem þarf til að fullgera mannvirki að utan og innan. Séruppdrættir eru eftir eðli máls m.a. lóðaruppdrættir, burðarvirkisuppdrættir og lagnakerfauppdrættir. Séruppdrættir skulu vera með tilheyrandi deiliuppdráttum.
Séruppdrættir og aðrir uppdrættir eru nánar tilgreindir í kafla 4.4. byggingarreglugerðar.
Hönnunarstjóri er hönnuður aðaluppdrátta eða sá sem eigandi mannvirkis tilnefnir til að bera ábyrgð á samræmingu hönnunargagna, sbr. 45. tl. 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar.
Hönnunarstjóri skal vera löggiltur hönnuður, sbr. 25. og 26. gr. laga um mannvirki, eða hafa réttindi til að leggja fram uppdrætti til samþykktar vegna byggingarleyfisumsóknar, sbr. 4.1.2. gr.
Helstu verkefni hönnunarstjóra:
- Samræming aðaluppdrátta, séruppdrátta og annarra hönnunargagna.
- Áritun séruppdrátta til staðfestingar á að samræming hafi farið fram áður en leyfisveitandi samþykkir þá.
- Innra eftirlit eiganda við hönnun mannvirkis og framlagning yfirlita um innra eftirlit við upphaf og lok hönnunar.
- Framlagning yfirlits um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða áður en yfirferð hönnunargagna hefst og áður en byggingarleyfi er gefið út.
.
Hönnunarstjóri ber ekki ábyrgð á yfirferð hönnunargagna annarra hönnuða, en ber ábyrgð á að samræming hönnunargagna fari fram.
Komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja má til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, ber byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit.
Byggingarstjóri skal gera eftirlitsaðila viðvart um lok allra úttektarskyldra verkþátta með skráningu í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Byggingarstjóri annast sjálfur framkvæmd áfangaúttekta nema leyfisveitandi ákveði að annast áfangaúttekt sjálfur eða tilkynni um úrtaksskoðun og skal byggingarstjóri þá vera viðstaddur úttektina. Hann skal jafnframt tilkynna viðeigandi iðnmeisturum og hönnuðum með sannanlegum hætti um úttektir nema samningur þeirra á milli kveði á um annað.
Hljóti eigandi eða annar þriðji maður tjón af völdum gáleysis byggingarstjóra í starfi ber hann skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennum reglum.
Byggingarstjóri ber ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta á ábyrgð einstakra iðnmeistara eða hönnuða né því að iðnmeistarar og aðrir sem að verkinu koma uppfylli skyldur sínar samkvæmt verk- eða kaupsamningi.
Byggingarstjóri skal hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi hans, sbr. ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra.
Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma.
Byggingarstjóri skal í gæðastjórnunarkerfi sínu halda skrá yfir alla iðnmeistara sem koma að verkum sem hann stýrir og varðveita afrit af undirrituðum ábyrgðaryfirlýsingum þeirra.
Já, svo framarlega sem einstaklingur með starfsleyfi byggingarstjóra starfi innan fyrirtækisins. Byggingarstjórnin þarf að vera í höndum einstaklingsins / starfsmannsins sem hefur starfsleyfi sem byggingarstjóri en ábyrgðin færist yfir á fyrirtækið.
Iðnmeistari ber meðal annars ábyrgð á:
- Að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og lög og reglugerðir um mannvirki.
- Að verkþættir séu í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námsskrá til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma.
- Að ábyrgðaryfirlýsing sé skýr um hvaða verkþætti hún nær til og undirrituð af byggingarstjóra og viðkomandi iðnmeisturum.
- Að eingöngu löggiltir iðnmeistarar, skráðir hjá HMS, beri ábyrgð á einstökum verkþáttum.
Leyfisveitandi getur heimilað að fleiri en einn iðnmeistari á hverju fagssviði beri ábyrgð, ef verkþættir þeirra eru skýrt afmarkaðir.
Iðnmeistari sem ekki hefur lokið meistaraskóla en hefur leyst út meistarabréf getur fengið staðbundna viðurkenningu leyfisveitanda til að bera ábyrgð á verkþáttum, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Hefur lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989.
- Hefur áður fengið viðurkenningu í öðru byggingarfulltrúaumdæmi.
- Við nýja staðbundna viðurkenningu: Lögð skal fram verkefnaskrá, staðfesta af byggingarfulltrúa, sem sýnir að viðkomandi hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. 3 ár eftir fyrrnefnda viðurkenningu.
Nánari upplýsingar um ábyrgð og verksvið iðnmeistara er að finna í 4.10.1. gr. byggingarreglugerðar.
Þegar húsi er skeytt við lóð, þá gilda um þau lög um mannvirki og byggingarreglugerð. Gildir þá einu hvort hús sé byggt á staðnum eða flutt tilbúið á staðinn.
Samkvæmt 5.1.2. gr. byggingarreglugerðar skal frístundahúsi eða sambærilegu húsi sem byggt er utan lóðar, sér framleitt í einstökum tilvikum eða sérsniðið að tilteknum þörfum, fylgja vottorð með umsókn um byggingarheimild frá faggiltri skoðunarstofu eða byggingarfulltrúa um yfirferð uppdrátta og framkvæmd úttekta á burðargrind, festingum, einangrun og rakavarnarlagi. Hús þannig byggt skal einkenna með brennimarki eða á annan hátt sem byggingarfulltrúi viðurkennir.
Ákvæði 5.1.2. gr. gilda þó ekki ef viðkomandi mannvirki er CE-merkt eða það fellur undir III. kafla laga um byggingarvörur. Í slíkum tilvikum skal yfirlýsing um nothæfi fylgja með byggingarleyfisumsókn í stað vottorðs skv. 1. mgr. gr. 5.1.2 í byggingarreglugerð.
Glerjaðir gluggar skulu slagregnsprófaðir samkvæmt ÍST EN 1027. Gluggi skal standast prófunarálag sem er að lágmarki 1100 Pa. (gr. 8.2.6).
Hámarksformbreytingar gluggapósta / karma eru settar fram í töflu 8.01 (gr. 8.2.4). Hámarkssvignun miðast við að formbreyting hvers kants á rúðu verði aldrei meiri en L/300 og aldrei meiri en 8 mm. Gagnvart glerveggjum gildir einnig ákvæðið um formbreytingar veggja. Gagnvart glerþökum gildir einnig ákvæðið um formbreytingar þaka.
Aðgerð 4.3. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 snýr að kynningarátaki um nýjar flokkunarkröfur á bygginar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum. Markmið aðgerðarinnar er að styðja við árangursríka innleiðingu á nýjum flokkunarkröfum byggingar- og niðurrifsúrgangs, ásamt því að stuðla að betri flokkun og öflugra hringrásarhagkerfi.
Aðgerð 4.3. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 snýr að kynningarátaki um nýjar flokkunarkröfur á bygginar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum. Markmið aðgerðarinnar er að styðja við árangursríka innleiðingu á nýjum flokkunarkröfum byggingar- og niðurrifsúrgangs, ásamt því að stuðla að betri flokkun og öflugra hringrásarhagkerfi.
Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs ber að flokka byggingar – og niðurrifsúrgang í amk. 7 flokka, þ.e. spilliefni, timbur, steinefni, málma, gler, plast, pappa og gifs.
Til að kortleggja stöðu flokkunar á byggingar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum sendi Umhverfis- og orkustofnun út könnun þess efnis á yfir 40 rekstraraðila í þessum geira. Spurt var um gæði flokkunar, helstu hindranir og tækifæri auk þess hvort þörf væri á frekari leiðbeiningum fyrir flokkun á verkstað.
Niðurstöður spurningakönnunarinnar voru skýrar, meirihlutinn kallaði eftir frekari leiðbeiningum. Þar kom sérstaklega fram að mikilvægt væri að hafa leiðbeiningarnar á allavega þremur tungumálum og helst myndrænar.
Í kjölfarið voru útbúnar myndrænar leiðbeiningar fyrir flokkun á verkstað, á þremur tungumálum (íslensku, ensku og pólsku) og innihalda helstu leiðbeiningar fyrir hvern úrgangsflokk. Notast er við samræmdu flokkunarmerkingarnar ásamt myndum og textalýsingum. Leiðbeiningarnar hafa verið rýndar og samþykktar af nokkrum stærstu úrgangsmeðhöndlunaraðilum á Íslandi.
Leiðbeiningarnar eru sérstaklega hannaðar fyrir byggingarsvæði og mælt er með að staðsetja þær við gáma og á kaffistofum til að tryggja betri flokkun.
Hér má nálgast prentvænar leiðbeiningar fyrir flokkun á bygginga- og niðurrifsúrgangi.
Byggjum grænni framtíð, 29. janúar 2025.
- Hvaða reglur gilda varðandi hljóðvist í íbúðarhúsnæði?
- Á það sama við í gömlum jafnt sem nýjum húsum?
- Hvar er hægt að sjá kröfur sem hönnuður gerir til íbúðanna?
- Þarf að sækja um leyfi til byggingarfulltrúa þegar gerð er breyting á gólfefnum?
- Getur breyting úr ofnakerfi í gólfhita í fjölbýlishúsum haft áhrif á hljóðvist?
- Hver getur ráðlagt um val á efni?
- Hver getur gert hljóðmælingar?
- Lög, reglugerðir og leiðbeiningar varðandi hljóðvist og íbúðir
- Staðlar
- Rb-blöð
- Dæmi um úrskurði og dóma sem hafa fallið vegna hljóðvistar í íbúðarhúsnæði
Áður en farið er í að svara spurningunum þá er rétt að skoða hvað er átt við með „hljóðmengun“.
Hugtakið „hljóðmengun“ kemur fram í leiðbeiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) við grein 11.1.2 í byggingarreglugerð sem „óæskileg hljóðáhrif“ sem geta haft áhrif á fólk og umhverfi. Þessi áhrif geta stafað frá mannvirkjum, umferð, vélarhljóðum eða öðrum hljóðgjöfum og geta valdið óþægindum, heilsufarslegum áhrifum eða öðrum truflunum á lífsgæðum. Reglugerðin setur kröfur um að draga úr slíkri mengun með hljóðeinangrun og öðrum aðgerðum, sérstaklega við hönnun og byggingu mannvirkja.
Í kafla 11 í byggingarreglugerðinni má finna almennt efni um hljóðvist og önnur skyld ákvæði. HMS hefur gert leiðbeiningar við greinar 11.1.2 og 11.1.3 í byggingarreglugerðinni.
Í kafla 11 um hljóðvist í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur m.a. fram:
- Markmið:
- Að tryggja hljóðvist sem stuðlar að heilbrigðum og þægilegum lífsskilyrðum.
- Að draga úr áhrifum hljóðmengunar innan og utan mannvirkja.
- Kröfur:
- Mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að þau uppfylli kröfur um hljóðvist.
- Hljóðeinangrun skal vera fullnægjandi á milli herbergja og íbúða, svo og milli mannvirkja.
- Áhersla er lögð á að draga úr umferðarhljóði, hávaða frá vélum og öðrum ytri áhrifum.
- Leiðbeiningar HMS við kafla 11:
- Notkun hljóðeinangrandi byggingarefna og hönnunarkerfa.
- Sérstök atriði, eins og staðsetning glugga og hurða, skulu taka mið af væntu hljóðáreiti.
- Skilyrði eru sett um hámarkshávaða í íbúðarhúsnæði og almennum byggingum.
Eftirfarandi eru svör HMS um hvaða reglur gilda varðandi hljóðvist í íbúðarhúsnæði:
- Hvaða reglur gilda varðandi hljóðvist í íbúðarhúsnæði?
Íbúðir í nýbyggingum skulu að lágmarki uppfylla kröfur samkvæmt 11. kafla í byggingarreglugerð nr.112/2012 og stöðlum sem þar er vísað í.
Í grein 11.1.2 segir meðal annars að byggingar skulu þannig hannaðar að óþægindi vegna hávaða innan rýma, frá aðliggjandi rýmum, lögnum, tæknibúnaði og umferð séu takmörkuð. Þessar kröfur skulu uppfylltar í samræmi við fyrirhugaða notkun.
Við kafla 11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru einnig leiðbeiningar HMS við grein 11.1.2 kröfur til hljóðvistar og grein 11.1.3 um staðfestingu hljóðvistar vegna breytinga þegar byggðra mannvirkja.
Til viðbótar segir að allar íbúðir skulu að lágmarki uppfylla kröfur til hljóðvistarflokks C samkvæmt staðlinum ÍST 45. Þó er heimilt að fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða varðandi viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða fyrir íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum.
Ákvæði byggingarreglugerðar eru lágmarkskröfur svo það er alltaf leyfilegt að gera betur. Þar eru þó einnig tilmæli þess efnis að þegar hljóðvist er bætt umfram lágmarkskröfur sem segja að þá sé æskilegt að uppfylla kröfur staðalsins ÍST 45 til hljóðvistarflokks B eða eftir atvikum hljóðvistarflokks A.
Staðlar eru ekki aðgengilegir frítt á netinu heldur þarf að kaupa þá í gegnum vefverslun Staðlabúðarinnar á stadlar.is.
Leiðbeiningar varðandi hljóðvist er ekki aðeins að finna í byggingarreglugerð og stöðlum. Þær má t.d. einnig finna í Rb blöðum gegnum Rb-gátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
2. Á það sama við í gömlum húsum jafnt sem nýjum?
Kröfur til hljóðvistar geta verið mismunandi eftir því hvenær húsið var byggt. Þar af leiðandi getur verið að uppbygging upprunalegra byggingarhluta standist ekki núgildandi kröfur.
Í grein 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um breytingar á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun. Lögð er áhersla á að munur er á „breytingum á húsnæði“ eða „breyttri notkun á húsnæði.“ Munurinn felst fyrst og fremst í því að með „breytingu á húsnæði“ er til dæmis átt við að verið sé að breyta íbúð sem þó verður áfram íbúð eftir breytingu. Hins vegar getur „breytt notkun“ átt við þegar verið er að breyta skrifstofuhúsnæði í íbúðir. Samkvæmt grein 6.1.5. gr. skulu nýju íbúðirnar uppfylla allar gildandi kröfur byggingarreglugerðarinnar.
Þá má túlka ákvæði um breytingar á mannvirkjum, þar sem ekki er um notkunar breytingu að ræða og byggð eru í gildistíð eldri byggingarreglugerða. Að ávallt skal gera eins vel og hægt er til að uppfylla gildandi ákvæði byggingarreglugerðar.
Mikilvægt er að fylgja ákvæðum greinar 11.1.3. gr. um staðfestingu hljóðvistar vegna breytinga þegar byggðra mannvirkja. Þar segir m.a. „Við breytingu á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skal hönnuður aðaluppdráttar, eða annar hönnuður sem tekur að sér ábyrgð á hönnun hljóðvistar, staðfesta að hljóðvist uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.“
3. Hvar er hægt að sjá kröfur sem hönnuður gerir til mannvirkisins?
Hönnuður skal gera grein fyrir hljóðvistarkröfum og hvernig þær eru uppfylltar í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum sbr. m-lið í grein 4.3.9. og í greinargerð hönnuðar sbr. c-lið greinar 4.5.3 í byggingarreglugerð og leiðbeiningu HMS við grein 4.5.3.
4. Þarf að sækja um leyfi til byggingarfulltrúa þegar gerð er breyting á gólfefnum?
Það fer eftir því hversu umfangsmikil breytingin er.
- Nei, ef um er að ræða breytingu á yfirborðsefni, t.d. ef skipta á út gömlu parketi fyrir nýtt þarf ekki að sækja um leyfi enda er þá um að ræða eðlilegt viðhald sem fellur undir 1. mgr. greinar 2.3.5. um minniháttar mannvirkjagerð undanþegin byggingarheimild og -leyfi.
- Nei, ef verið er að breyta yfirborðsgólfefni innan séreignar, t.d. innan íbúðar. Þó er mikilvægt að hafa í huga að eigandi íbúðar er ábyrgur fyrir því að tryggt sé að breytingin rýri hvorki hljóðvist milli íbúða né milli íbúðar og sameignar. T.d. að rétt högghljóðs-undirlag sé notað milli hæða. Það er sem sagt á ábyrgð eiganda að eftir breytingu verði gólfið jafn hljóðbært og fyrir breytingu eða betra
- Já, ef það er verið að breyta þegar byggðu húsnæði eða breyta notkun rýma miðað við gildandi aðaluppdrætti, samanber grein 11.1.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og leiðbeiningu HMS. Ef svo er þarf að skila inn nýjum aðaluppdráttum til byggingarfulltrúa sem sýnir og gerir grein fyrir breytingunum. Einnig þarf að sýna fram á rökstuðning þess efnis að breytingarnar uppfylli sömu kröfur og fyrra gólfefni eða sé betra. Byggingarfulltrúi metur, á grundvelli flokkunar mannvirkja sbr. grein 1.3.2 um umfangsflokkun, hvort um er að ræða tilkynnta framkvæmd sbr. grein 2.3.6, byggingarheimild sbr. grein 2.3.7 eða byggingarleyfi sbr. grein 2.4.1.
- Já, ef breyta þarf uppbyggingu gólfs (burðarvirki) vegna breytinganna þarf að skila inn aðaluppdrætti og rökstuðningi til byggingarfulltrúa sambærilegt og í lið c) hér fyrir ofan.
-
5. Getur breyting úr ofnakerfi í gólfhita í fjölbýlishúsum haft áhrif á hljóðvist?
Í grein 2.3.1. um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, í byggingarreglugerð nr. 112/2012, segir orðrétt:
„Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda, sbr. þó 2.3.5 gr. og 2.3.6. gr.“
Í grein 2.3.5. er gerð grein fyrir því að hvorki þarf að sækja um byggingarheimild né -leyfi fyrir viðhaldi innanhúss og utan.
Í grein 2.3.6. segir hins vegar að nægilegt sé að tilkynna til byggingarfulltrúa þegar um er að ræða m.a.:
e. Lítilsháttar breyting á burðarvirki sem nemur minna en 5% af hjúpfleti burðarhluta, þó aldrei meira en 5 m2.
f. Lítilsháttar breyting á brunahólfun sem nemur minna en 5% af hjúpfleti brunahólfandi hluta, þó aldrei meira en 5 m2.
g. Breytingar á lögnum.
Enn fremur segir „Byggingarfulltrúi staðfestir móttöku tilkynningar, að mannvirkjagerð falli undir 1. mgr. og að hún samræmist skipulagi. Með tilkynningum skulu fylgja aðaluppdrættir og greinargerð löggilds hönnuðar. Sé tilkynnt um breytingar á þegar byggðu mannvirki, þar sem aðaluppdrættir eru til staðar, þarf ekki að skila aðaluppdráttum í heild heldur aðeins þeim hluta aðaluppdrátta sem sýna breytingarnar.
Ekki er heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar telst hún staðfest og er þá heimilt að hefja framkvæmdir.“
Breyting á uppbyggingu gólfa, þar með talið að setja gólfhita þar sem ekki hefur verið gólfhiti áður, hefur m.a. áhrif á hljóðvist og þarf því að tryggja að farið sé rétt með undirlag, ásteypulag og annan frágang. Heimilt er að breyta upphitun íbúða úr ofnakerfi í gólfhita ef eftirfarandi er tryggt:
- Byggingarfulltrúi metur, eftir því sem við á hverju sinni, á grundvelli flokkunar mannvirkja sbr. grein 1.3.2 um umfangsflokkun, hvort um er að ræða tilkynnta framkvæmd sbr. grein 2.3.6, byggingarheimild sbr. grein 2.3.7 eða byggingarleyfi sbr. grein 2.4.1.
- Aðaluppdrættir gera skýra grein fyrir breytingunum.
- Farið er eftir ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi lagnir og hljóðvist, sjá kafla 11 um hljóðvist, kafla 14 um lagnir og tæknibúnað og kafla 8 um burðarþol og stöðugleika í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
- Rökstuðningur frá hljóðvistarhönnuði, kann að vera skilyrtur af leyfisveitanda, sbr. grein 11.1.3.
- Rökstuðningur frá burðarvirkishönnuði, kann að vera skilyrtur af leyfisveitanda, sbr. grein 8.1.3. um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun.
- Þar sem verið er að gera breytingar á burðarvirki í fjölbýlishúsi, þ.m.t. uppbyggingu gólfs, þarf samþykki meðeiganda skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignahús.
-
6. Hver getur ráðlagt um val á efni?
Arkitektar, byggingafræðingar, innanhússarkitektar o.fl. geta aðstoðað við val á gólfefni, lagnahönnuðir geta aðstoðað við að hanna gólfhitakerfi o.þ.h. Þá eiga söluaðilar gólfefna að geta gefið fullnægjandi upplýsingar um eiginleika þeirra gólfefna sem þeir selja og hvort eða hvað þarf til svo fullnægjandi niðurstaða náist með nýjum efnum, t.d. undirlag fyrir parket. Mikilvægt er að hafa í huga að söluaðilar eiga að geta sýnt fram á eiginleika og nothæfi vörunnar með CE merkingu, yfirlýsing um nothæfi vörunnar í DoP skjölum (e. Declaration of Performance), tækniblöðum sem og leiðbeiningum um notkun.
Hægt er að lesa meira um markaðseftirlit HMS á eftirfarandi slóð á heimasíðu HMS.
7. Hver getur gert hljóðmælingar á hávaða?
Flestar stærri verkfræðistofurnar bjóða upp á hljóðmælingar sem og sérhæfðir aðilar í hljóðvist og hljóðvistarhönnun.
8. Lög, reglugerðir og leiðbeiningar varðandi hljóðvist og íbúðir
9. Staðlar
ÍST 45:2016 Hljóðvist - Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis
10. Rb-blöð
Hljóðeinangrun. Kröfur og staðlar | M2 / 015 | 1. apríl 2010 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun - Gluggar | M2 / 009 | 1. nóvember 1998 | Sækja pdf |
Hljóðtálmar innanhúss | M2 / 008 | 1. apríl 1989 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Hurðir | M2 / 007 | 1. nóvember 1994 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Einfaldir trégrindarveggir klæddir með plötum | M2 / 002 | 1. desember 1983 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Steyptir veggir | M2 / 006 | 1. janúar 1986 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Steypt hljóðdeifigólf | M2 / 005 | 1. janúar 1985 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Tvöfaldir trégrindarveggir klæddir með plötum | M2 / 003 | 1. júní 1984 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Tvöfaldir stálgrindarveggir klæddir með plötum | M2 / 004 | 1. júní 1984 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Einfaldir stálgrindarveggir klæddir með plötum | M2 / 001 | 1. júní 1983 | Sækja pdf |
Gólf í votrýmum | I2 / 003 | 1. júlí 2017 | Sækja pdf |
Útþornun steyptra gólfa | Eq4 / 024 | 1. júní 2007 | Sækja pdf |
Gólfeiningar | Gf2 / 012 | 1. apríl 1980 | Sækja pdf |
Gólfhitakerfi | 53 / 010 | 1. apríl 2008 | Sækja pdf |
Keramikflísar VI. Hálkuviðnám á flísalögðum gólfum | Sq3 / 010 | 1. janúar 1991 | Sækja pdf |
Gólfklæðningar - gólfteppi. Gerðir, eiginleikar og lagnir | 43 / 331 | 3. janúar 1978 | Sækja pdf |
Burðarplötur úr viði í gólfum | 42 / 002 | 6. janúar 1984 | Sækja pd |
Högghljóðeinangrun parketgólfa á steyptri plötu | 1996 | 3. mars 1996 | Sækja pdf |
Hljóðeinangrun. Kröfur og staðlar | M2 / 015 | 1. apríl 2010 | Sækja pdf |
Högghljóðeinangrun | 94 | 1. júní 2007 | Sækja pdf |
11. Dæmi um úrskurði og dóma sem hafa fallið vegna hljóðvistar í íbúðarhúsnæði
Mál frá kærunefnd húsamála varðandi hljóðeinangrun: Mál nr. 30/2017, nr. 32/2015 einnig nr. 49/2015 og 105/2023.
Mál frá Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála
Breytt notkun húsnæðis: 52 og 87/2021 Bergstaðastræti - Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Í grein 6.2.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og leiðbeiningu HMS við hana eru ítarlegar upplýsingar um stærð og fjölda bílastæða hreyfihamlaðra. Um rýmisþörf almennra bílastæða er ekki fjallað sérstaklega í byggingarreglugerð en þá er hægt að leita í eldri heimildir sem vísað er í hér fyrir neðan. Í grein 6.11.5 í byggingarreglugerð og leiðbeiningum HMS við hana má finna ákvæði um bílgeymslur.
Til viðmiðunar við hönnun almennra bílastæða má nota tækni- og leiðbeiningablöð um mannvirkjagerð eða svokölluð Rb-blöð:
Rb-blöðunum til stuðnings eru heimildir sem ekki er hægt að finna á netinu. Þar má m.a. nefna Reglur um stærð bílastæða, dagsett 18. ágúst 1987, gefnar út af byggingarfulltrúa Reykjavíkur og voru samþykktar til eins árs til reynslu. Í því riti kemur fram að æskileg breidd stæða er 2,50 m og til viðbótar þeim breiddum skal bæta við 0,25 m við þau stæði sem liggja við lóðrétta hindrun. Mála skal tvöfaldar línur á milli stæða. Einnig segir að þar sem eru stoðir við akbraut, skulu lágmarksbreiddir stæða við stoðir aukast um 20 cm. Breiddarmál skal vera innanmál milli stoða.
Einnig má nefna „Reglur um rýmisþörf bílastæða á lóðum í Kópavogi“ sem gefnar voru út af byggingarfulltrúa Kópavogs október 2003. Reglur byggingarfulltrúa Kópavogs eru samhljóma reglum byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, en þar segir:
„Gildir fyrir einkabíla á lóðum, í bílskúrum og í bílageymsluhúsum.
Um gerð bílastæða fyrir aðra bíla þarf að meta sérstaklega.
Vísað er til leiðbeiningablaða Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins Rb(V).101 frá 1979 og Rb 05.001 frá 1994.“
„Almennt skal breidd stæða vera minnst 2,50 m og skal mála með tvöföldum línum milli stæða.“
„Aukin breidd bílastæða
Ef stoðir eru og veggir eru við bílastæði skulu breiddarmál vera innanmál milli stoða og að vegg.
Stoðir skulu ávallt vera minnst 1,00 m frá akbraut mælt að stoð, en þó er heimilt að hafa stoðir út við akbraut ef brýnanauðsyn ber til.
Þegar stæði liggja upp að lóðréttri hindrun skal bæta við breidd stæði sem hér segir:
0,50 m er æskileg þegar stæði liggja upp við lóðréttan vegg en þó aldrei minna en 0,25 m, 0,20m þegar stæði liggur upp að súlu sem er innan stæðis, 0,20 m þegar stoðir eru út við akbraut.“
„Dýpt bílastæða
Almennt skal dýpt bílastæða vera minnst 5,0 m.
Æskileg er að dýpt bílastæða sem standa upp að lóðréttri hindrun verði minnst 5,50 m, miðað við 90° stöðuhorn.
Framan innkeyrsluhurða skal dýpt bílastæða vera minnst 6,00 m.
Breidd akbrauta að bílastæðum
Breidd akbrauta milli eða meðfram bílastæðum skal vera minnst 7,00 m, miðað við 90° stöðuhorn.
Aðkoma og endastæði í bílageymsluhúsum
Æskilegt er að aka inn í bílageymsluhús frá hlið, miðað við 90° stöðuhorn við akbraut.
Þegar ekið er beint inn á akbraut í bílageymsluhús þarf að taka sérstakt tillit til útfærslu endabílastæða við innkeyrsludyr, miðað við 90° stöðuhorn, vegna möguleika á að leggja í þau og fara úr þeim.
Huga þarf að gönguleiðum.
Október 2003
Byggingarfulltrúi“
Aðrar heimildir til upplýsinga:
Stutta svarið er Nei!
Öll mannvirki þar sem fólk mun dvelja í, hvort sem er í lengri eða skemmri tíma, eru háð byggingarheimild eða byggingarleyfi samkvæmt umfangsflokkun mannvirkja.
Í byggingarreglugerð er mannvirkjum skipt upp í 3 umfangsflokka:
Umfangsflokkur 1:
Minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni.
Umfangsflokkur 2:
Meðalstór mannvirkjagerð þar sem ekki er mikil hætta á manntjóni.
Umfangsflokkur 3:
Umfangsmikil mannvirkjagerð þar sem hætta á manntjóni er mikil.
HMS hefur gert leiðbeiningar við umfangsflokka mannvirkja.
Flokkun mannvirkjagerðar skal koma fram í umsókn um byggingarheimild eða byggingarleyfi og skal hún staðfest af byggingarfulltrúa þess sveitarfélags sem mannvirkið á að rísa.
Gestahús til einkanota
Ef um er að ræða gestahús á sumarbústaðalandi sem er einungis til einkanota þá fellur mannvirkið undir umfangsflokk 1, sjá meginreglu í grein 1.3.2 í byggingarreglugerð, en þar segir um umfangsflokk 1:
"Umfangsflokkur 1.
Minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar mögulegs tjóns á mannvirki eru litlar og umhverfisáhrif eru takmörkuð."
Í viðmiðunarreglum greinar 1.3.2 segir um umfangsflokk 1:
"Í umfangsflokk 1 falla m.a. geymsluhúsnæði, landbúnaðarbyggingar, frístundahús, sæluhús, stakstæðir bílskúrar, gestahús, skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki. Niðurrif mannvirkja falla hér undir."
Sækja þarf um byggingarheimild fyrir mannvirki í umfangsflokki 1.
Skilyrði fyrir veitingu byggingarheimildar eru að finna í grein 2.3.8
ATH! Nauðsynlegt er að óska eftir lokaúttekt vegna byggingarheimildar. Við lokaúttekt þarf séruppdráttum að hafa verið skilað til leyfisveitanda af löggiltum hönnuðum með virkt gæðastjórnunarkerfi og byggingarstjóri þarf að geta sýnt fram á hvaða iðnmeistarar unnu að verkinu sbr. ákvæði 4.7.7 í byggingarreglugerð.
Gistihús til útleigu í atvinnuskyni
Ef um er að ræða allt að 15 m2 hús til útleigu í atvinnuskyni fellur það undir umfangsflokk 2, sjá meginreglu í grein 1.3.2 um umfangsflokka.
"Umfangsflokkur 2.
Meðalstór mannvirkjagerð þar sem ekki er mikil hætta á manntjóni, efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar afleiðingar tjóns á mannvirki eru viðunandi."
Í viðmiðunarreglum greinar 1.3.2 segir um umfangsflokk 2:
"Í umfangsflokki 2 eru mannvirki þar sem er miðað við að fólk geti haft fasta búsetu, án þess endilega að þekkja flóttaleiðir en geti þó bjargað sér sjálft út úr mannvirkinu."
"Í umfangsflokk 2 falla m.a. íbúðarhúsnæði og gistiheimili, atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og bílastæðahús.“
Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir mannvirki í umfangsflokki 2.
Skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis eru að finna í grein 2.4.4.
ATH! Leyfisveitandi skal yfirfara og staðfesta séruppdrætti og tilheyrandi greinargerðir áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst. Nauðsynlegt er að óska eftir lokaúttekt þegar mannvirkjagerðinni er lokið, sjá kalfa 3.9 í byggingarreglugerð.
Hversu lengi gildir byggingarheimild og byggingarleyfi?
Byggingarheimild og byggingarleyfi fellur úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Framkvæmd telst vera hafin við fyrstu áfangaúttekt, sjá 1. mgr. greinar 2.4.5 í byggingarreglugerð.
Eftirfarandi er yfirlit um eftirlit á grundvelli flokkunar mannvirkja:

Framkvæmdir sem hvorki þarf að tilkynna inn né sækja um leyfi til byggingarfulltrúa
Í grein 2.3.5 um minniháttar mannvirkjagerð undanþegin byggingarheimild og -leyfi í byggingarreglugerð er fjallað um framkvæmdir sem má fara í ef þær eru í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar nr. 12/2012 sem við eiga hverju sinni.
Eftirfarandi listi er tæmandi og er í grein 2.3.5:
a. Allt viðhald innanhúss og utan, þ.m.t. endurnýjun léttra innveggja.
b. Uppsetning móttökudiska, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets.
c. Allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna.
d. Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð.
e. Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m. Ennfremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Einnig allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðamörkum.
f. Smáhýsi sem er að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þarf samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Slík smáhýsi eru ekki ætluð til gistingar eða búsetu.
Mikilvægt er að hafa skilgreiningu byggingarreglugerðar um smáhýsi í huga þegar áform eru um að setja slíkt upp á lóð. Smáhýsi sem tilgreind eru í f. lið greinar 2.3.5 eru einungis þau sem uppfylla skilgreiningu nr. 81. í grein 1.2.1 í byggingarreglugerð. Þar segir: „Smáhýsi: Skýli sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. og er ekki ætlað til íveru. Smáhýsi er ekki upphitað …]3)Hámarksstærð þess er [15]2) m².“
Sjá einnig leiðbeiningar HMS við grein 2.3.5
Framkvæmdir sem þarf að tilkynna inn til byggingarfulltrúa
Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda.
Í grein 2.3.6 um tilkynningarskylda mannvirkjagerð undanþegna byggingarheimild og -leyfi í byggingarreglugerð er fjallað um framkvæmdir sem má fara í ef þær eru ekki í ósamræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði byggingarreglugerðar eins og við á hverju sinni.
Eigandi þarf að fá löggiltan hönnuð til að gera aðaluppdrætti og tilheyrandi fylgiskjöl sem þarf að senda inn til byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi staðfestir móttöku tilkynningarinnar og sendir eiganda athugasemdir ef tilkynnt framkvæmd er ekki í samræmi við heimildir í grein 2.3.6.
Ekki er heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar telst hún staðfest og er þá heimilt að hefja framkvæmdir.
Eftirfarandi er tæmandi listi um framkvæmdir sem heimilaðar eru til tilkynningar að uppfylltum skilyrðum greinar 2.3.6:
a. Nýklæðning þegar byggðra mannvirkja.
b. Tjaldhýsi sem nota skal í atvinnustarfsemi.
c. Stöðuhýsi sem skulu standa lengur en 4 mánuði.
d. Heitir og kaldir pottar eða laugar í görðum við íbúðarhús og frístundahús.
e. Lítilsháttar breyting á burðarvirki sem nemur minna en 5% af hjúpfleti burðarhluta, þó aldrei meira en 5 m2.
f. Lítilsháttar breyting á brunahólfun sem nemur minna en 5% af hjúpfleti brunahólfandi hluta, þó aldrei meira en 5 m2.
g. Breytingar á lögnum.
h. Rannsóknarmastur ætlað til mælinga, sett upp tímabundið og ekki lengur en til tveggja ára.
i. Smádreifistöðvar fyrir raforkudreifingu, dæluhús hita-, vatns- og fráveitu og önnur lítil hús veitukerfa sem eru að hámarki 15 m² og mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
Sjá einnig leiðbeiningar HMS við grein 2.3.6
Byggingarheimildar og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir
Munurinn á hvort sækja þurfi um byggingarheimild eða byggingarleyfi liggur í flokkun mannvirkja sbr. kafla 1.3. í byggingarreglugerð. Sjá einnig leiðbeiningu HMS við grein 1.3.1
Flokkun mannvirkja nær til mannvirkjagerðar hvort sem um er að ræða nýbyggingu eða flutning mannvirkis, breytingu á mannvirki, breyttri notkun þess, viðbyggingu eða niðurrifs.
Flokkun mannvirkjagerðar byggir á meginreglu, sem ákvarðast af flækjustigi hönnunar, samfélagslegu mikilvægi, hættu á manntjóni og fyrirhugaðri notkun mannvirkis.
Til frekari skýringar eru settar viðmiðunarreglur sem eru frávíkjanlegar enda sé sýnt fram á að mannvirki eða framkvæmdir tilheyri samkvæmt almennu reglunni öðrum umfangsflokki en viðmiðunarreglan hefði annars gert ráð fyrir. HMS hefur gert leiðbeiningar við umfangsflokka mannvirkja.
Sækja þarf um byggingarheimild fyrir mannvirki í umfangsflokki 1.
Skilyrði fyrir veitingu byggingarheimildar eru að finna í grein 2.3.8
Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir mannvirki í umfangsflokki 2.
Skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis eru að finna í grein 2.4.4.
Í töflu 1 eru meginreglur og viðmiðunarreglur vegna flokkunar mannvirkja í umfangsflokka settar fram þannig að auðvelt er að lesa úr því í hvaða flokk mannvirki falla eftir eðli þeirra, stærð og fjölda hæða.
Tafla 1

Í töflu 2 má finna heildaryfirlit yfir þau gögn sem skila skal til leyfisveitanda vegna mannvirkjagerðar í hverjum umfangsflokki fyrir sig og hvaða skilyrði og einstakir þættir eftirlits eiga við hvern og einn flokk.
Tafla 2

Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 gilda eftirfarandi atriði um frístundahús:
Frístundahús: Hús utan þéttbýlis sem er nýtt til tímabundinnar dvalar.
Mannvirki sem ætluð eru til dvalar fólks, til lengri eða skemmri tíma krefjast ávallt byggingarheimildar eða byggingarleyfis í samræmi við umfangslokka mannvirkja.
Almennar kröfur um hollustuhætti gilda fyrir frístundahús líkt og fyrir íbúðir. Hins vegar er ekki gerð krafa um að frístundahús uppfylli rýmiskröfur íbúða samkvæmt byggingarreglugerð.
Frekari upplýsingar um frístundahús má finna hér: 6.11.1. gr. og leiðbeiningar.
Frístundahús flokkast í viðeigandi umfangsflokk eftir fyrirhugaðri notkun þess og geta því fallið undir mismunandi flokka.
Frístundahús ætlað til einkanota flokkast í fumfangsflokk 1 sbr. ákvæði 1.3.2. gr., þ.e.
„Í umfangsflokki 1 eru mannvirki þar sem ekki safnast saman mikill fjöldi fólks og fólk hefur ekki fasta búsetu.“
„Í umfangsflokk 1 falla m.a. geymsluhúsnæði, landbúnaðarbyggingar, frístundahús, sæluhús, stakstæðir bílskúrar, gestahús, skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki.“
Frístundahús sem flokkast í umfangsflokk 1 er háð byggingarheimild sbr. ákvæði 2.3.1. gr. og leiðbeiningar
Frekari upplýsingar um byggingarheimild má finna hér: 2.3.7. gr. og 2.3.8. gr..
Frístundahús ætlað til útleigu eða fastrar búsetu flokkast í umfangsflokk 2 sbr. ákvæði 1.3.2. gr., þ.e.
„Í umfangsflokk 2 falla m.a. íbúðarhúsnæði og gistiheimili, atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og bílastæðahús. Sé mannvirki hærra en 8 hæðir og stærra en 10000 m2 flokkast það almennt í umfangsflokk 3“
„Í umfangsflokki 2 eru mannvirki þar sem er miðað við að fólk getu haft fasta búsetu, án þess endilega að þekkja flóttaleiðir en geti þó bjargað sér sjálft út úr mannvirkinu“
Frístundahús sem flokkast í umfangsflokk 2 er háð byggingarleyfi sbr. ákvæði 2.3.1. gr..
Frekari upplýsingar um byggingarleyfi má finna hér: 2.4.1. gr. og 2.4.4. gr..
Frístundahús sem ætlað er til útleigu í atvinnuskyni eða á vegum félagasamtaka, s.s. stéttarfélaga, skal a.m.k. eitt frístundahús af hverju [tíu] sem eru í eigu sama aðila, þó aldrei færri en eitt, vera hannað á grundvelli algildrar hönnunar sbr. 6.10.3. gr..
Frekari upplýsingar um algilda hönnun má finna hér: 6.1. gr.
Tafla 1 gefur upplýsingar um umfangsflokk 1 og 2

Tafla 2 veitir heildaryfirlit yfir þau gögn sem skila skal til leyfisveitanda eftir viðeigandi umfangsflokki

Í 5. tl. 1.2.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 má finna skilgreiningu á hugtakinu bílgeymsla:
Bílgeymsla: Hús eða húshluti til geymslu á bílum, ýmist opið eða lokað.
Samkvæmt 4. mgr. 6.11.5. gr. má ekki nota sameiginlega bílgeymslu til annars en geymslu á ökutækjum og því sem þeim fylgir.
Þetta vekur upp spurningar um hvað telst til ökutækja og því sem þeim fylgir. Má geyma hjólhýsi og húsgögn í bílgeymslu?
Skilgreiningu á hugtökunum ökutæki og eftirvagn er að finna í 48. og 11. tl. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019:
Ökutæki: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori.
Eftirvagn: Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru vélknúnu ökutæki, þ.m.t. :
a. eftirvagn sem aðallega er ætlaður til farþega- og vöruflutninga,
b. eftirvagn sem búinn er áfestum vélum og tækjum,
c. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn.
Ekki er til neinn tæmandi listi um hvað má og hvað má ekki geyma í bílgeymslu en í fyrrnefndri grein 6.11.5. er meðal annars átt við hluti eins og dekk og annað sem tengist ökutækjum beint. Þetta útilokar almenna notkun rýmisins sem geymslu fyrir búslóð, húsgögn, barnavagna, raftæki og aðra hluti sem teljast ekki tengdir ökutækjum.
Hvers vegna er þessi takmörkun?
Takmörkunin byggir fyrst og fremst á öryggissjónarmiðum, einkum brunavörnum. Samkvæmt leiðbeiningum HMS
nr. 6.084 „Bílgeymslur og sérrými í bílgeymslum“ er ekki gert ráð fyrir viðverum fólks í bílgeymslum, né heldur að þær séu notaðar sem hefðbundin geymslurými. Óviðeigandi notkun getur aukið brunaálag og haft áhrif á virkni öryggiskerfa eins og reyklosunar, vatnsúðakerfa og aðgengi slökkviliðs.
Samkvæmt 9.5.6. gr. skulu flóttaleiðir í byggingum gerðar á þann hátt að sem minnstar líkur séu á að fólk lokist inni við eldsvoða. Þetta er meginregla og eru þær ávallt ófrávíkjanlegar. Því skal tryggja að útgönguleiðir og brunahólfun raskist ekki, t.d. vegna hindrana.
Þetta getur verið breytilegt eftir hverju mannvirki fyrir sig og hönnun þess. Það getur legið að baki hönnun t.d. sérrýma í bílgeymslu eins og fjallað er um í fyrrnefndum leiðbeiningum.
Reglur húsfélags og frekari takmarkanir
Samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 er það í höndum húsfélags að taka ákvarðanir um nýtingu sameignar. Þetta felur í sér heimild til að setja reglur um hvað megi geyma í sameiginlegri bílgeymslu, þar með talið að kveða á um takmarkanir á geymslu tiltekinna hluta í bílgeymslu eða setja nánari skilyrði um geymslu. Slíkar reglur teljast ákvörðun um sameiginleg málefni og verða að vera samþykktar með lögmætum hætti, í samræmi við ákvæði laganna um atkvæðagreiðslu.
Að leita nánari uppýsinga
Ef vafi er um hvort geyma megi ákveðna hluti í bílgeymslu, t.d. vegna brunahættu, er mælt með því að leita til forvarnarsviðs Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins (SHS). Þar er hægt að fá ráðleggingar byggðar á brunavörnum og áhættumati fyrir tiltekið mannvirki.
Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða hönnuð mannvirkisins, sérstaklega ef um er að ræða álitamál um notkun sem ekki eru skýrlega afmörkuð í byggingarreglugerð eða ef vafi leikur á hvernig túlka beri ákvæði reglugerðarinnar í samhengi við tiltekið rými eða útfærslu.