Spurning mánaðarins

Nóvember 2025

Með spurningu mánaðarins er leitast við að svara spurningum sem komið hafa ítrekað inn á borð sviðs starfsumhverfis mannvirkjagerðar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fjöldi fyrirspurna varðandi mannvirkjagerð berst til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á ársgrunni í gegnum síma eða netfangið byggingarreglugerd@hms.is. Oft er um tiltekin stef að ræða. Eitt þeirra varðar hljóðvistarkröfur í íbúðarhúsnæði.

Eldri spurningar mánaðarins eru að finna neðst undir Spurt og svarað

Hvaða reglur gilda um hljóðvist í íbúðarhúsnæði?

Hljóðvist í byggingum ræðst m.a. af hljóðeinangrun byggingarhluta, gerð og lögun rýma og efnisvali. Hljóðeinangrun er þó mikilvæg hvort sem um er að ræða hávaða sem berst utan frá inn í byggingar eða hávaða sem berst milli rýma innanhúss, t.d. á milli íbúða í fjölbýlishúsum og á milli kennslustofa í skólum. 

Markmið og meginreglur um hljóðvist

Samkvæmt 11.1.1. gr. byggingarreglugerðar skulu byggingar hannaðar og byggðar þannig að innra umhverfi spillist ekki af hávaða og að óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Hávaði skal vera viðunandi þannig að fólk geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði. 

Kröfur samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012

Í 11.1.2. gr. segir að byggingar skulu hannaðar þannig að óþægindi vegna hávaða innan rýma, frá aðliggjandi rýmum, lögnum, tæknibúnaði og umferð séu takmörkuð. Þessar kröfur skulu uppfylltar í samræmi við fyrirhugaða notkun

Ákvæði 11. kafla reglugerðarinnar gilda um íbúðir og atvinnuhúsnæði, þm.t. skóla, frístundaheimili, heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili. Slíkar byggingar skulu að lágmarki uppfylla kröfur til hljóðvistarflokks C samkvæmt staðlinum ÍST 45.  

Fyrir íbúðarhúsnæði á miðsvæðum, verslunarsvæðum og þjónustusvæðum má þó fylgja ákvæðum reglugerðar um hávaða, nr. 724/2008, varðandi viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða. 

Flokkun samkvæmt staðlinum ÍST 45

Staðallinn segir hljóðvistarflokk C tilgreina viðmiðunargildi fyrir byggingar og fyrir breytingar á byggingum þar sem gerðar eru sömu kröfur og í nýbyggingum. Búast má við því að allt að 20% íbúa verði fyrir truflunum. 

Fyrir flokk C gildir m.a.: 

53 dB - Hámark fyrir vegið högghljóðstig milli íbúðareininga. 
58 dB - Hámark fyrir vegið högghljóðstig í íbúðareiningu frá salerni, baði, geymslu o.þ.h. 

Í staðlinum ÍST 45 fyrir Flokk C er ekki tilgreint hvert hámarksgildi fyrir vegið högghljóðstig skuli vera innan íbúðareiningar. 

Þegar hljóðvist er bætt umfram lágmarkskröfur er æskilegt að kröfur til hljóðvistarflokks B eða eftir atvikum hljóðvistarflokks A séu uppfylltar, sbr. 11.1.2. gr.  

Bent er á að staðallinn er ekki aðgengilegur frír á netinu. Sjá nánar um Staðlaráð hér

Frekari upplýsingar um hljóðvist og högghljóð er að finna í leiðbeiningum við 11.1.2. gr. 

Hönnun

Samkvæmt 11.1.2. gr., sbr. 4.5.3. gr., skal hönnuður vinna greinargerð þar sem fram koma kröfur og forsendur um hljóðvist. Greinargerðin skal rökstyðja hvernig ákvæði byggingarreglugerðar og viðeigandi staðla séu uppfyllt. 

Í greinargerð skal m.a. fjalla um: 

⦁ Flokkun húsnæðis, sbr. lið 5 í leiðbeiningum 11.1.2 
⦁ Lofthljóðeinangrun, sbr. lið 1 í leiðbeiningum 11.1.2 
Högghljóðeinangrun, sbr. lið 2 í leiðbeiningum 11.1.2
⦁ Ómtíma, sbr. lið 3 í leiðbeiningum 11.1.2 
⦁ Umhverfishávaða, sbr. lið 4 í leiðbeiningum 11.1.2

Sjá nánari útlistun ofangreindra liða og frekari upplýsingar í leiðbeiningum við 4.5.3. gr. um greinargerðir hönnuða og leiðbeiningum við 11.1.2. gr. 

Hljóðvist í eldri húsum og við breytingar

Eldri hús þurfa ekki að uppfylla núgildandi byggingarreglugerð heldur þær kröfur og þá reglugerð sem var í gildi þegar þau voru byggð. 

Samkvæmt 11.1.3. gr. skal hönnuður staðfesta hljóðvist þegar: 

Notkun mannvirkis er breytt, og uppfylla þarf þá núgildandi kröfur. 

Minni háttar breytingar eða viðgerðir eiga sér stað, og þá skal hljóðvist haldast fullnægjandi miðað við þær kröfur sem giltu þegar mannvirkið var reist. 

Viðbygging eða endurnýjun er framkvæmd, og þá gilda núgildandi kröfur fyrir nýja hluta mannvirkisins. 

Sé breyting ekki byggingarleyfisskyld er almennt ekki gerð krafa um staðfestingu hönnuðar varðandi kröfur um hljóðvist, sbr. leiðbeiningar við 11.1.3. gr.  
Ef framkvæmd felur í sér miklar breytingar, eins og hitalagnir undir gólfi myndu falla undir, eða breytingar á burðarvirki, er almennt krafist að þær breytingar uppfylli gildandi byggingarreglugerð.
Við minni háttar viðhald, eins og að skipta út gólfefni án verulegra áhrifa á burðarvirki eða innra skipulag, kunna eldri kröfur að eiga við, en það fer eftir umfangi og eðli breytinga. 

Ef talið er að hljóðvist sé ekki viðunandi

Getur verið gagnlegt að hafa samband við: 

⦁ Sérfræðing í hljóðvist, t.d. hjá verkfræðistofu, til að meta hljóðvist íbúðarinnar. 

⦁ Heilbrigðisnefndir. Þær skulu framkvæma eða láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum, skv. 11. gr. reglugerðar um hávaða, nr. 724/2008

⦁ Byggingarstjóra viðkomandi framkvæmda. 

⦁ Húseigandafélagið (huso.is), sem býður upp á almenna ráðgjöf. 

⦁ Byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Hann fer með eftirlit með mannvirkjagerð og metur hvort mannvirki uppfylli ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar.