Spurning mánaðarins
September 2025
Með spurningu mánaðarins er leitast við að svara spurningum sem komið hafa ítrekað inn á borð sviðs starfsumhverfis mannvirkjagerðar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fjöldi fyrirspurna varðandi mannvirkjagerð berst til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á ársgrunni í gegnum síma eða netfangið byggingarreglugerd@hms.is. Oft er um tiltekin stef að ræða. Eitt þeirra varðar CE-merkingar byggingarvöru.
Eldri spurningar mánaðarins eru að finna neðst undir Spurt og svarað
Hvað er CE-merking byggingarvöru og af hverju er hún mikilvæg?
Spurningar varðandi CE-merkingu eru með þeim algengustu sem berast til HMS. Margir velta fyrir sér hvað merkingin þýði, hvaða vörur þurfa að bera hana og hver ber ábyrgð á að það sé gert rétt.
Hvað er CE-merking?
CE-merking er yfirlýsing framleiðanda eða ábyrgðaraðila um að byggingarvara uppfylli grunnkröfur Evróputilskipana sem um hana gilda og að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðferðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum. CE-merkingin er ekki gæðastimpill, þ.e. hún segir ekkert til um endingu vörunnar, heldur að hún hafi verið metin og prófuð samkvæmt samræmdum kröfum.
Þó vara sé CE-merkt þýðir þó ekki að hún uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.
Af hverju skiptir CE-merking máli?
CE-merking er forsenda þess að byggingarvara megi fara á Evrópskan markað og tryggir að hún hafi verið prófuð og metin samkvæmt samræmdum evrópskum reglum. Þetta auðveldar samanburð og val á vörum og gerir eftirlitsaðilum kleift að ganga úr skugga um að vörur uppfylli lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd. CE-merking tryggir þannig að:
- Ábyrgðaraðili taki formlega ábyrgð á að varan uppfylli lágmarkskröfur.
- Notendur, hönnuðir og byggingarstjórar geti treyst því að varan hafi farið í gegnum viðeigandi samræmismat.
- Hægt sé að bera saman eiginleika byggingarvara á sameiginlegum grunni.
- Vörur sem ekki uppfylla reglur séu stöðvaðar áður en þær fara á markað.
Með þessu stuðlar CE-merking að auknu öryggi, neytendavernd og virkni innri markaðar ESB. Þetta gerir aðilum í mannvirkjagerð kleift að velja vörur á traustum og gagnsæjum forsendum.
Hvaða vörur þarf að CE-merkja?
Þegar til er samhæfður evrópskur staðall fyrir byggingarvöru er gerð krafa um að CE-merkja vöruna áður en hún er sett á markað. Þá eru mikilvægir eiginleikar vörunnar metnir og settir fram á samræmdan hátt í yfirlýsingu um nothæfi (DoP).
Samhæfða staðla um byggingarvöru má finna hér. Þar má finna opinbera birtingu á listum yfir samhæfða evrópska staðla um byggingarvörur, sem Staðlaráð hefur staðfest sem íslenska staðla, skv. 8. gr. laga um byggingarvörur, nr. 114/2014.
Yfirlýsing um nothæfi er yfirlit yfir mikilvæga eiginleika og áformuð not vöru. Skjalið er gefið út af framleiðanda vörunnar og skal aðgengilegt hjá söluaðila á íslensku. Sjá nánar um yfirlýsingu um nothæfi og hvaða upplýsingar eigi að fylgja í 13. gr. laga um byggingarvörur, nr. 114/2014.
Ef ekki er til samhæfður staðall um byggingarvöru er óheimilt að CE-merkja vöruna, nema ef til er evrópskt tæknimat um vöruna. Í þeim tilvikum þarf með byggingarleyfinu að fylgja vottorð frá faggiltri skoðunarstofu eða byggingarfulltrúa um yfirferð uppdrátta og framkvæmd úttekta t.d. á burðargrind, festingum, einangrun og rakavarnarlagi, sbr. 5.1.2. gr. byggingarreglugerðar. Gerð er þá sú krafa um að mikilvægir eiginleikar vörunnar séu metnir og settir fram í yfirlýsingu um nothæfi.
Sumar byggingarvörur þurfa að vera CE-merktar og sumar ekki. Dæmi um byggingarvörur sem þurfa að vera CE-merktar eru gluggar, hurðir og sement. Í III. hluta laga um byggingarvörur er svo að finna upplýsingar um byggingarvöru sem fellur ekki undir kröfu um CE-merkingu.

Hver ber ábyrgð?
Ákvæði um ábyrgð og skyldur þeirra sem velja byggingarvörur til mannvirkjagerðar, s.s. eigenda, hönnuða, iðnmeistara og byggingarstjóra, koma fram í lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þessum aðilum ber ávallt að tryggja að valdar vörur uppfylli skilyrði laga um byggingarvörur nr. 114/2014 og byggingarreglugerðar.
- Hönnuðir setja fram áformuð not mannvirkis í hönnunargögn og verklýsingu sem lýsa eiginleikum byggingarvara, á þann hátt sem lög um byggingarvörur, staðlar og önnur tæknigögn gera ráð fyrir. Áformuð not mannvirkis eru skilgreind af hönnuði og mynda þær skilgreiningar grunn að hönnunarkröfum þess.
- Eigandi mannvirkis, iðnmeistari og byggingarstjóri þurfa að geta sýnt fram á að þær byggingarvörur sem notaðar eru í mannvirkið uppfylli kröfur hönnunargagna og séu CE-merktar eða eiginleiki þeirra staðfestur á annan hátt þegar við á.
- Þeir verða að geta lagt fram viðeigandi gögn, svo sem yfirlýsingu framleiðanda um nothæfi vegna CE-merktrar vöru eða samsvarandi yfirlýsingu, sbr. 13. gr. laga um byggingarvörur, ef um er að ræða vöru sem fellur undir III. hluta laganna.