6.11.5. Bílgeymslur

Leiðbeiningar

1 Sjá kafla 14.9 Loftræstibúnaður.

2 5. mgr. 6.11.5 gr.:

 • Tryggja skal góðan hindrunarlausan aðgang að inngöngum bygginga frá bílastæðum hreyfihamlaðra í bílageymslum. Þess skal gætt að næg bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu við byggingar, sjá töflur 6.01. - 6.04. í 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar, Bílastæði hreyfihamlaðra.
 • Bílastæði fyrir hreyfihamlaða ættu að vera sem næst inngangi að byggingum úr bílgeymslum.
 • Mælt er með að bílastæði hreyfihamlaðra séu upphækkuð í gönguleiðarhæð ef þær eru í öðrum kóta en gólf bílgeymslunnar.
 • Við útfærslu á bílastæðum fyrir hreyfihamlaða skal taka tillit til rýmisþarfa hjólastólanotenda.
 • Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 5,0 m að stærð með þriggja metra löngu athafnasvæði fyrir enda þess eða alls 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla og aðra bíla fyrir hreyfihamlaða með lyftu að aftan). Þó skal aldrei vera færri en eitt slíkt stæði við hverja byggingu (ofast höfð utandyra).
 • Bílastæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 3,8 m að breidd og 5,0 m að lengd eða 2,8 m x 5,0 m með hindrunarlausu 1,0 m breiðu umferðarsvæði samsíða.
 • Bílastæði hreyfihamlaðra sem eru samsíða akbraut skulu vera 2,5 m x 8,0 m að stærð og þess gætt að hindrunarlaust svæði sé samsíða stæðunum gönguleiðarmegin 2,0 m x 8,0 m að stærð.
Mynd 1. Dæmi um bílastæði langs götu.
 • Krafan um 3,8 metra breidd bílastæða gerir það mögulegt að hjólastólanotandi geti flutt sig yfir í hjólastólinn eða notað hækjur/ stafi við hlið bílsins.
 • Bílastæði fyrir hreyfihamlaða þarf 2,6 m fría lofthæð, svo stærri bílar og ferðaþjónustubílar geti notað þau. Þetta á einnig við um til dæmis undir skyggnum, útskagandi skiltum, útskagandi byggingarhlutum og þess háttar.
 • Hámarks halli á bílastæðum hreyfihamlaðra er 1:40 (2,5 %). Meiri halli gerir hreyfihömluðum og hjálpatækjanotendum afar erfitt fyrir að athafna sig.
 • Nauðsynlegt er að að minnsta kosti 1,0 metra breið gönguleið sé á milli bílastæða með nokkurra stæða millibili svo tryggt sé að hjólastólanotendur og gangandi komist frá bílastæðum að gangstétt. Þessa gönguleið (1,0 m) er nauðsynlegt að merkja á yfirborði til dæmis með því að mála hana með röndum á ská (45°).
Mynd 2. Dæmi um bílastæði hreyfihamlaðra.
 • Nauðsynlegt er að merkja stæði fyrir hreyfihamlaða bæði í yfirborðsefni og með lóðréttum skiltum. Merking bílastæða fyrir hreyfihamlaða í yfirborðsefni skal vera hvítmálað merki hreyfihamlaðra á dökkbláum grunni. Forðast skal að heilmála bílastæði fyrir hreyfihamlaða því málningin fyllir upp í holur í malbiki og hellum og veldur því að yfirborðið verður of hált.
 • Lóðrétt skilti skulu vera merkt bókstafnum P og merki hreyfihamlaðra. Gæta þarf þess að lóðrétt skilti séu ekki staðsett í gönguleiðum og athafnarýmum. Æskilegt er að þau séu fest á veggi bygginga þar sem því verður við komið, annars við jaðar gönguleiða og athafnarýma fjær götu/ bílastæði.
Mynd 3. Dæmi um yfirborðsmerkingu.
Mynd 4. Dæmi um lóðrétt skilti.
Mynd 5. Nýtt merki.
 • Kantur frá til dæmis bílastæði að fláa á gönguleið má að hámarki vera 25 mm hár til að fólk í hjólastól geti farið um hann. Kanturinn er nauðsynlegur sjónskertu eða blindu fólki til að nema gönguleið frá annarri umferð. Æskilegt er að flái sé í öðrum lit en gönguleið og gata þannig að sjónskertir sem ekki nota hvítan staf geti betur greint hæðamismun og halla. Hámarks halli á fláanum er 1:10 (10 %). Ef hallinn er meiri er hætta á að hjólastóllinn velti.
Mynd 6. Dæmi um fláa í gangstétt.
 • Í 11. mgr. 6.7.1 gr. segir: „Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði.“
 • Í öllum nýbyggingum skal vera gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í bílageymslu og hvert bílastæði utanhúss. Við endurbyggingu skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í bílageymslu og hvert bílastæði utanhúss. Með orðinu endurbygging er átt við í þessu tilfelli, þegar um ræðir eitthvað af eftirfarandi.
  • Endurnýjun á rafmagni sameignar
  • Endurnýjun á rafmagni í bílgeymslu
  • Endurnýjun á aðalrafmagnstöflu
  • Endurnýjun á bílgeymslu
  • Endurnýjun á bílastæðum á lóð
  • Breytt notkun mannvirkis í íbúðarhúsnæði

Þegar hleðslustöðvar eru settar niður við bílastæði hreyfihamlaðra skal aðgengi að þeim vera gott og hindrunarlaust.

Mynd 7. Gott dæmi um hleðslustöð við bílastæði hreyfihamlaðra. Hleðslustæði hreyfihamlaðra þarf svo að merkja með tákni hreyfihamlaðra á bláum ferningi og öll hleðslustæðin með tákni hleðslustæða rafbíla á grænum ferningi. Öll mál í mm.

Sjá leiðbeiningar um útfærslu á hleðslu rafbíla hér.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við21.1.2016
1.13. breyting byggingarreglugerðar14.7.2017
1.26. breyting byggingarreglugerðar. Úreltar tilvísanir teknar og letur stækkað27.6.2018
1.3Bætt við myndum o.fl.15.5.2019
1.4Bætt við myndum og lagfært14.8.2019
1.5Fjarlægja tilvísanir13.11.2019
1.6MVS breytt í HMS6.2.2020
1.79. breyting byggingarreglugerðar. Yfirlit yfir breytingar16.11.2020
1.84. breyting byggingarreglugerðar12.1.2023