9.4.8. Sjálfvirk reyklosun

Leiðbeiningar

Samkvæmt 9.2.1 gr. byggingarreglugerðar gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

1 Hvenær getur þurft að setja upp sjálfvirka reyklosun?

Um reyklosun almennt er vísað í ákvæði 9.8.4 gr. byggingarreglugerðar og viðkomandi leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) en þar er farið yfir hvenær og hvers vegna þörf er á reyklosun.

Í húsnæði þar sem að öðru jöfnu er ekki gerð krafa um sérstaka reyklosun skulu ávallt vera nægilega góðir opnunarmöguleikar til að slökkvilið geti með góðu móti reykræst viðkomandi húsnæði sbr. 2. mgr. 9.8.4. gr. byggingarreglugerðar.


2 Almennt

Reyklúgur og öryggisbúnaður þeirra skal vera viðurkenndur og settur upp og frágenginn samkvæmt fyrirmælum/ leiðbeiningum framleiðanda. 

Reyklúgur og tilheyrandi stjórnbúnað skal merkja í samræmi við ákvæði 9.8.7. gr. byggingarreglugerðar og viðkomandi leiðbeiningar HMS.

3 Reyklosun með gegnumbruna:

Nota má hvort heldur sem er viðurkenndar léttbyggðar þakeiningar eða reyklúgur sem opnast við boð frá brunaviðvörunarkerfi eða með bræðivari á opnunarbúnaði lúgunnar.
Stærð og gerð reyklosunar má ákvarða með eftirfarandi hætti:

 • Reyklosun er ákvörðuð samkvæmt ÍST EN 12101 staðlinum.
 • Fyrir hús með lítið brunaálag (minna en 400 MJ/m2 gólfflatar) ætti reyklosun að vera að minnsta kosti 5% af gólfflatarmáli nema stærð reyklosunar sé sérstaklega rökstudd með öðrum hætti, samanber lið c. Í þeim tilfellum þar sem brunaálag er lítið þarf að hafa í huga að mögulega getur hitastig í reyklaginu ekki orðið það hátt að það brenni sig í gegnum þakeiningarnar eða virkjað bræðivörin. Brunahönnuður þarf þá að gera sérstaklega grein fyrir því hvernig brunavörnum skuli háttað.
 • Reyklosun er ákvörðuð með viðurkenndum hermilíkönum. Gera skal grein fyrir forsendum og niðurstöðum með skýrum hætti, samanber 9.2.2. og 9.2.3 gr. byggingarreglugerðar. Við mat á niðurstöðum er hægt að hafa staðalinn INSTA 950 til hliðsjónar þar sem hægt er að finna upplýsingar um viðmiðunarmörk fyrir brunahönnun.
 • Ávallt skal með brunahönnun gerð sérstök grein fyrir reyklosun úr húsi með háu brunaálagi, meira en 800 MJ/m2, samanber 9.2.4 gr. byggingarreglugerðar.

Framangreindar lausnir eiga betur við byggingar með lofthæð upp að 7 - 8 m og þarf að gera brunahönnun fyrir byggingar með hærri lofthæð.

Í breiðum byggingum skal ekki gera ráð fyrir að gluggar í veggjum eða þaki í 10 m fjarlægð frá eldsvoðanum nýtist að neinu marki við reyklosun byggingarinnar.

Reyklosun sem ætluð er til eignaverndar má vera úr auðbrennanlegum þakeiningum sem er jafndreift á þakið. Samanlagt flatarmál þakglugga úr brennanlegu efni ætti ekki að vera meira en 15% af þakfleti til að minnka líkur á að gluggarnir falli niður og valdi hættu fyrir þá sem eru að flýja úr byggingunni eða slökkviliðsmenn. Útreiknað reyklosunarflatarmál telst fullnægjandi gagnvart öryggi fólks ef útreiknað meðalhitastig reyklags miðað við hönnunarbruna er minna en 450°C og ef reyklag fer ekki neðar en í 1.6 m + 10% af lofthæð rýmisins miðað við jafnvægisástand. Þó skal sýnt fram á að hitinn sé nægilegur til að þakeiningin rofni þannig að hún nýtist til reyklosunar. Ekki þarf að reikna með meiri reykfrírri hæð en 3.0 m.

Léttbyggðum þakeiningum fyrir reyklosun skal komið fyrir í efsta hluta þaks eða dreift jafnt innan hvers brunahólfs. Sjá dæmi um mismunandi fyrirkomulag reyklosunar á mynd 1.

Mynd 1. Dæmi um mismunandi fyrirkomulag reyklosunar.

Dæmi um léttbyggðar þakeiningar geta verið:

 • Þakplata sem uppfyllir danskar reglur MK6.00/003 Tagelementer med kort kollapstid. Prófanir samkvæmt DS 1051.1 og ISO 5657.
 • Þakeining (lyspanel) búin til úr óhertu PVC (Polyvinylchlorid) með eiginþyngd upp að10 kg/m2.
 • Þakeining (lyspanel) búin til úr óhertu PC (polycarbonat) með eiginþyngd upp að 6 kg/m2. Hver reyklúga skal vera að lágmarki 1 m2 þar sem hver hlið er að minnsta kosti 0,5 m að lengd.

Við staðsetningu á reyklúgum skal haft í huga að reyk-/loftstreymi að og frá þeim sé ekki hindrað, til dæmis upp við bita eða aðrar hindranir í lofti og að gert sé ráð fyrir nægilega miklu innstreymislofti.

Gæta þarf þess að þakeiningar valdi sem minnstu tjóni ef þær falla niður. Sérstaklega skal hafa þetta í huga þar sem notaðar eru þakeiningar yfir svæðum þar sem almenningur gengur um, til dæmis göngugötur eða torg. Fara skal eftir ákvæðum 8.5.2 gr. byggingarreglugerðar þar sem það á við.

Mannvirki þar sem notuð er reyklosun sem byggir á gegnumbruna á léttbyggðum þakeiningum eða þakgluggum, skal þannig hannað að tryggt sé að hitastig reyksins verði nægilega hátt til að hann geti brennt sér leið í gegnum einingarnar eða gluggana. Á sama hátt mega einingarnar eða gluggarnir ekki vera það sterkbyggðir að reykurinn geti ekki brennt sig í gegnum einingarnar eða gluggana.

4 Sjálfvirk reyklosun:

Nota skal viðurkenndar reyklúgur eða vélræna útloftun sem opnast við boð frá sjálfvirku brunaviðvörunarkerfi.
Stærð og gerð sjálfvirkrar reyklosunar má ákvarða með eftirfarandi hætti:

 • Samkvæmt ÍST EN 12101 staðlinum.
 • Reyklosun er ákvörðuð með viðurkenndum hermilíkönum. Gera skal grein fyrir forsendum og niðurstöðum á skilmerkilegan hátt sbr. 9.2.2 – 9.2.4 gr. byggingarreglugerðar. Við mat á niðurstöðum er hægt að hafa staðalinn INSTA 950 til hliðsjónar þar sem hægt er að finna upplýsingar um viðmiðunarmörk fyrir brunahönnun.
 • c. Í rými sem er varið með sjálfvirku vatnsúðakerfi skal miða stærð reyklosunar við að minnst kosti 5 MW hönnunarbruna. Þetta á þó ekki við um lagerhúsnæði.

Mynd 2. Dæmi um hnapp til að virkja reyklosun

Rafmagnsleiðslur að búnaði fyrir sjálfvirka reyklosun skulu vera varðar gagnvart bruna þannig að reyklosunin sé virk meðan á bruna stendur. Einnig skal setja upp varaspennugjafa fyrir opnunarbúnaðinn ef ske kynni að rafmagnið færi af mannvirkinu.
Gæta þarf að frágangi stokka sem eru notaðir við sjálfvirka reyklosun til dæmis að samskeyti þeirra séu þétt. Þar sem stokkar koma út, hvort sem um er að ræða upp úr jörðu eða vegg, þarf að gæta þess að reykurinn geti ekki skapað hættu eða valdið erfiðleikum við slökkvistarf til dæmis ef reykur kemur út nálægt glugga, útgönguleiðum, dæluklefa vatnsúðakerfis eða aðkomuleið slökkviliða.

Huga þarf að vörnum gagnvart vindi og snjóálagi þar sem sjálfvirk reyklosun er sett upp. Sérstaklega þarf að hafa vindálag í huga því mörg dæmi eru um tjón á reyklosunarbúnaði vegna þess hér á landi. Styðjast skal við Eurocode EN 1991 og viðeigandi þjóðarviðauka.

Í gluggalausum stigahúsum skal setja upp sjálfvirka reyklosun sem hægt er að virkja með viðurkenndum búnaði frá efsta og neðsta stigapalli.

5 Viðhald og prófun

Í 2. mg. 23. gr. laga um brunavarnir kemur fram að eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis beri ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim af aðilum með tilskilin réttindi og í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda að minnsta kosti einu sinni á ári. Mælt er með því að gerður sé þjónustusamningur við aðila sem viðurkenndur er af HMS til að sjá um viðhald og prófun á búnaðinum á viðurkenndan hátt. Þá eru í 9.1.1 grein byggingarreglugerðar ákvæði um að öryggi fólks, dýra, umhverfis, menningarverðmæta og eigna gagnvart bruna sé ávallt tryggt og að þessu öryggi sé viðhaldið allan þann tíma sem mannvirkið stendur.
Reyklosunarbúnaðurinn skal því hljóta reglulegt viðhald sem miðast að því að kerfið sé alltaf virkt og í samræmi við hönnun þess og mannvirkisins.

Heimildir

Yfirlit yfir EN 12101 staðalinn

 • ÍST EN 12101-1:2005. Reyk- og hitastýribúnaður - 1. hluti: Tæknilýsing fyrir reyktálma. Smoke and heat control systems - Part 1: Specification for smoke barriers
 • ÍST EN 12101-1:2005/A1:2006. Reyk- og hitastýribúnaður - 1. hluti: Tæknilýsing fyrir reyktálma. Smoke and heat control systems - Part 1: Specification for smoke barriers
 • ÍST EN 12101-2:2003. Reyk- og hitastýribúnaður - 2. hluti: Kröfur til náttúrulegra reyk- og hitaræsikerfa. Smoke and heat control systems - Part 2: Specification for natural smoke and heat exhaust ventilators
 • prEN 12101-2 rev. Reyk- og hitastýribúnaður - 2. hluti: Kröfur til náttúrulegra reyk- og hitaræsikerfa. Smoke and heat control systems - Part 2: Specification for Natural smoke and heat exhaust ventilators
 • ÍST EN 12101-3:2002. Reyk- og hitastýribúnaður - 3. hluti: Kröfur til vélknúinna reyk- og hitavifta. Smoke and heat control systems - Part 3: Specification for powered smoke and heat exhaust ventilators
 • ÍST EN 12101-3:2002/AC:2005. Reyk- og hitastýribúnaður - 3. hluti: Kröfur til vélknúinna reyk- og hitavifta. Smoke and heat control systems - Part 3: Specification for powered smoke and heat exhaust ventilators
 • CEN/TR 12101-4:2006. Smoke and heat control systems - Part 4: Installed SHEVS systems for smoke and heat ventilation
 • CEN/TR 12101-5:2005. Smoke and heat control systems - Part 5: Guidelines on functional recommendations and calculation methods for smoke and heat exhaust ventilation systems
 • CR 12101-5:2000. Smoke and heat control systems - Part 5: Guidelines on functional recommendations and calculation methods for smoke and heat exhaust ventilation systems
 • ÍST EN 12101-6:2005. Reyk- og hitastýribúnaður - 6. hluti: Kröfur til þrýstingsmunarkerfa - Ósamsett. Smoke and heat control systems - Part 6: Specification for pressure differential systems - Kits
 • ÍST EN 12101-6:2005/AC:2006. Reyk- og hitastýribúnaður - 6. hluti: Kröfur til þrýstingsmunarkerfa - Ósamsett. Smoke and heat control systems - Part 6: Specification for pressure differential systems - Kits
 • ÍST EN 12101-7:2011. Reyk- og hitastýribúnaður – hluti 7: Reykstýrirásir. Smoke and heat control systems - Part 7: Smoke control ducts
 • ÍST EN 12101-8:2011. Reyk- og hitastýribúnaður – Hluti 8: Reykstýrilokur. Smoke and heat control systems - Smoke control dampers
 • prEN 12101-9. Smoke and heat control systems - Part 9: Control panels
 • ÍST EN 12101-10:2005/AC:2007. Reyk- og hitastýribúnaður - Hluti 10: Aflgjafar. Smoke and heat control systems - Part 10: Power supplies

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við7.8.2014
1.1Lítilsháttar lagfæringar2.7.2018
1.2MVS breytt í HMS. Letur stækkað og tilvísanir teknar7.2.2020
1.3Yfirlit yfir breytingar11.1.2021