2.2.2. Rannsóknir á slysum og tjónum

Leiðbeiningar

1 Slys og tjón sem krefjast rannsóknar:

Verði manntjón eða alvarleg hætta skapast vegna tjóns á mannvirki eða tjónið er til þess fallið að skapa hættu skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) rannsaka tjónið og orsakir þess. Þá skal HMS kanna tilhögun byggingareftirlits og það hvernig að hönnun mannvirkis og byggingarframkvæmdum var staðið. Einnig skal, ef við á, kanna hvernig staðið var að rekstri og viðhaldi.

Tilkynna skal tjón til HMS sem eigandi mannvirkis verður fyrir ef þau falla undir ákvæði 1. 2.2.2 gr. byggingarreglugerðar svo fljótt sem auðið. Ef slíkt er vanrækt getur HMS að eigin frumkvæði hafið rannsókn á tjónsatvikum.

Það er frumskilyrði fyrir rannsókn HMS að tjón hafi orðið á mannvirki. Til viðbótar þarf síðan eitt af eftirfarandi skilyrðum að vera uppfyllt:

a) að manntjón hafi orðið

b) alvarleg hætta hafi skapast

c) tjónið var til þess fallið að skapa hættu

Í 2. mgr. 2.2.2. gr. byggingarreglugerðar er upptalning á tjónsatburðum sem byggingar-fulltrúi skal tilkynna HMS um, enda hafi orðið tjón á mannvirki og eftirfarandi skilyrði séu að öðru leyti uppfyllt:

a) alvarlegar fokskemmdir á mannvirkjum og hrun

b) ef maður ferst eða slasast alvarlega og orsök slyssins má rekja til aðstæðna innan mannvirkis eða við það

c) sig á mannvirkjum og sigskemmdir

d) alvarleg brunaslys, s.s. vegna heitra byggingarhluta eða heits vatns

e) alvarleg mengunarslys innan mannvirkja eða frá þeim ef rekja má slysið til þeirra þátta sem falla undir 2. mgr. 1.1.2. gr.

Um rannsóknir á tjóni vegna eldsvoða gilda ákvæði VII. kafla laga um brunavarnir.

2 Tilkynning slysa og tjóna:

Eigandi mannvirkis sem verður fyrir tjóni er fellur undir 1. og 2. mgr. 2.2.2. gr. skal tilkynna það til HMS svo fljótt sem unnt er.

Ef leyfisveitandi fær upplýsingar um tjónsatburði sem falla undir ofangreindar skilgreiningar skal hann tilkynna HMS um þá svo og um úrbætur og önnur viðbrögð vegna þeirra ef við á. Með tilkynningu skulu fylgja öll gögn um tjónsstaðinn sem skipt geta máli til ákvörðunar um hvort rannsóknar sé þörf, svo sem uppdrættir, ljósmyndir, skýrslur ásamt grunnupplýsingum um tjónþola og eiganda mannvirkis.

3 Hafi láðst að tilkynna tjónsatburð til HMS, getur stofnunin hafið rannsókn að eigin frumkvæði. Framkvæmd rannsóknar:

HMS metur í hverju tilviki hvernig staðið skuli að rannsókn og hversu ítarleg hún skal vera. Stofnunin rannsakar vettvang þegar eftir að tjón hefur verið tilkynnt. Ef um er að ræða slys sem sætir lögreglurannsókn samkvæmt lögum um meðferð sakamála, fer lögregla með forræði málsins en HMS aðstoðar lögreglu sé þess óskað. HMS kveður til sérfróða menn vegna rannsóknarinnar eftir því sem þörf krefur.

Eftir atvikum er eftirfarandi verklag viðhaft við rannsókn HMS:

a) rannsókn undirbúin, gögn sem fylgja tilkynningu um tjónsatburð yfirfarin og frekari gagna aflað eftir atvikum

b) HMS metur, á grundvelli tilkynningar og gagna sem henni fylgja, hvort þörf er á frekari rannsókn á vettvangi

c) orsök tjóns er rannsökuð og gengið úr skugga um að málsatvik þess séu eins og greint var frá þegar tilkynnt var um tjónið. Mikilvægt er að safna saman við fyrsta tækifæri öllum gögnum frá vettvangi tjóns sem skipt geta máli við rannsóknina. Ef vitni voru á staðnum er brýnt að fá greinargóðar lýsingar frá þeim. Mikilvægt er að taka myndir á vettvangi, þær geta komið sér vel á seinni stigum rannsóknar. Skrá ber allar ytri að-stæður svo sem veðurfar, birtuskilyrði og aðra þætti sem máli skipta

d) gerð er nákvæm lýsing á umfangi tjóns

e) metin eru áhrif skemmda sem rekja má til aldurs einstakra byggingarhluta

f) afla skal upplýsinga um vottanir einstakra byggingarhluta þar sem það á við

g) framkvæmt er áhættumat á því hvort sambærilegt tjón geti endurtekið sig

h) gerð er úttekt á viðhaldi og eftirliti með mannvirki eftir að það var tekið í notkun

i) gerð er úttekt á hönnun, framkvæmdum og eftirliti við byggingu mannvirkis

j) varðveisla ummerkja og gagna: Ef einsýnt þykir að rannsókn verði umfangsmikil ber að tryggja varðveislu ummerkja á vettvangi. Eftir að rannsókn lýkur ber að varðveita öll gögn er málið varða í að minnsta kosti eitt ár

k) vísað er í aðrar úttektir og rannsóknir tengdar sama atviki. Vísað er í lög sem tjónið getur varðað (t.d. lög um mannvirki, lög er varða heilbrigðisvernd, hollustuhætti, mengunarvarnir, vinnuvernd, og svo framvegis). Jafnframt er eftir atvikum vísað í staðla og vottanir sem varða einstaka byggingarhluta

4 Niðurstaða rannsóknar:

Í niðurstöðu rannsóknar er gerð grein fyrir mögulegum orsökum tjóns og hvort úrbóta sé þörf. Einnig skal lagt mat á hvort endurskoða þurfi gildandi reglur um hönnun, fram-kvæmdir og eftirlit við mannvirkjagerð.

Tilvísanir

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við10.1.2014
1.1Letur stækkað o.fl.31.5.2018
1.2MVS breytt í HMS og úreltar tilvísanir fjarlægðar4.2.2020
1.3Yfirlit yfir breytingar. Breytingar á texta í kafla 115.12.2020