9.5.10. Öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1. gr. byggingarreglugerðar eru meginreglur ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) telur að uppfylli ofangreindar meginreglur. Notkun leiðbeininganna í hverju tilfelli er á ábyrgð eiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Leiðbeiningarnar koma ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti.

Af hverju þarf örugg svæði fyrir fólk með skerta færni?

Aðstæður einstaklinga í samfélögum okkar er eru mismunandi og einstaklingarnir jafn mismunandi og þeir eru margir. Jafnframt er geta og færni fólks til að meta upplýsingar og / eða ferðast um rými mismunandi eftir til dæmis aldurskeiði eða hvort um er að ræða skerðingu vegna fötlunar. Einstaklingar með skerta heyrn þurfa að treysta á sýnilegar upplýsingar eins og til dæmis ljósmerki. Skert hreyfigeta er af mörgum orsökum og gæti verið m.a. vegna vöðvarýrnunar, stífleika, röskunar á jafnvægi, sársauka, sjúkdóma eða lömunar. Einstaklingar með skerta hreyfigetu þurfa því oft að nota hjálpartæki eins og stafi, hækjur, göngugrindur eða hjólastóla, einnig eru líkur á að þeir sem eiga við skerta hreyfigetu hafi takmarkað þol til að fara langar vegalengdir, þurfi að hvíla oftar en aðrir, geti ekki staðið í langan tíma í senn, hafi takmarkaða getu til að opna þungar hurðir og eigi erfitt með háa þröskulda.

Skert hreyfigetaSjónskerðingHeyrnarskerðing
ErfiðleikarEiga erfitt með að ferðast um rými og komast út.Erfiðleikar með áttun og rötun, t.d. finna leiðina út.Erfiðleikar með að nema hljóð viðvörunarkerfis.
HindranirHæðarmunur, sérstaklega í flóttaleið. Háir þröskuldar, hlutir eða fyrirstaða í flóttaleið. Þungar hurðir. Handföng eða
búnaður sem þarf tveggja handa grip. Hurðalæsingar sem erfitt er að ná gripi um, t.d. smáar sívalnigslaga læsingar. Hringstigar og stigar/tröppur án handlista.
Lítil skilti, hátt staðsett. Skarpan litamun
vantar (e. contrast), erfitt að greina t.d. þrep, búnað, letur, tákn o.þ.h. Hringstigar og stigar/ tröppur án handlista.
Viðvörunarhljóðkerfi sem hvorki hefur lága hljóðtíðni né ljósmerki (blikkljós).
Tafla 1 Dæmi um skerðingu og hindranir

2 Almennt

Flóttaleiðir fyrir fólk, með hreyfihömlun eða aðra skerta færni, skulu almennt liggja beint út úr mannvirki og skal einungis notast við örugg svæði þar sem ekki er möguleiki að flóttaleið liggi beint út.
Í grunninn skulu flóttaleiðir fyrir fólk með skerta færni uppfylla sömu kröfur og flóttaleiðir fyrir aðra, þ.e. uppfylla kafla 9.5 í byggingarreglugerð, þar með talið þurfa alltaf að vera:

 • a.m.k. tvær flóttaleiðir í boði, sem eru óháðar hvor annarri.
 • a.m.k. tvö örugg svæði til boða.

Í mannvirkjum í notkunarflokki 2 er gert ráð fyrir að 1% gesta þurfi að nýta öruggt svæði. Gott er að jafndreifa öruggum svæðunum um bygginguna með þetta í huga.

Fyrir örugg svæði í mannvirkjum í notkunarflokkum 5 og 6 þarf að hafa sérstaklega í huga hverjar þarfir fólks eru, sem mun nýta sér öruggu svæðin, t.d. aldraðir sem eru leiddir af starfsfólki eða ekið í hjólastól og þurfa að bíða meðan náð er í fleiri. Þar þarf örugga svæðið að vera stærra og gera þarf ráð fyrir fullnægjandi aðstöðu þar sem þeir geta verið eða setið eftir því sem við á.

Ef örugga svæðið er undir beru lofti þarf að tryggja skjól gagnvart veðri og vindum. Sérstaklega getur þurft að taka tillit til þess ef byggingar eru hannaðar fyrir blinda, sjónskerta eða aðra hópa sem gætu haft sérstakar þarfir þegar kemur að öruggum svæðum.

3 Staðsetning á öruggu svæði og umgjörð þess

Öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða skal vera staðsett í sér brunahólfi annað hvort í flóttaleiðinni sjálfri eða tengt henni. Öruggt svæði í flóttaleið getur t.a.m. verið í stigahúsi, sjá mynd 1, eða í lyftuanddyri, sjá mynd 2, enda trufli staðsetning þess ekki almenna rýmingu.

Mynd 1. Dæmi um öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða í stigahúsi
Mynd 2. Dæmi um öruggt öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða í lyftuanddyri

Í Evrópsku leiðbeiningunum CFPA-E-Guideline No 33:2015 F er gefin upp rýmingarstefna fyrir fólk sem ekki getur gengið stiga eða tröppur. Þessi stefna er í takt við og styður kröfur byggingarreglugerðar 112/2012. Gefnar eru upp fjórar megin leiðir til rýmingar og eru þær eftirfarandi:

 1. Óhindraður aðgangur að öruggu svæði, beint út af jarðhæð.
 2. Aðgangur að öruggu svæði þar sem hægt er að bíða eftir aðstoð.
 3. Brunavarnarlyftur og flóttalyftur.
 4. Skipta mannvirkinu upp í brunahólf, með samskiptabúnaði, sem hægt er að nota sem örugg biðsvæði þar til aðstoð berst.

Mynd 3. Dæmi um flóttaleiðir skv. CFPA E Guideline No 33:2015 F

Hafa ber í huga að þegar örugga svæðið er í sér brunahólfi án glugga/ rúðu frá stigagangi, eins og sýnt er á mynd 1 og 2, skal vera samskiptabúnaður. Þetta er gert til að fullvíst sé að þeir sem eru á svæðinu geti gert vart við sig.

Opnunarbúnaður hurða að öruggu svæði skulu vera með varaaflgjafa sem tryggir að hann sé virkur a.m.k. jafn lengi og brunahólfun viðkomandi brunahólfs eða stigahúss. Til þess að fólk með takmarkaðan kraft í fingrum og höndum geti opnað hurðir má hámarks opnunarkraftur (hurðarhúns, snerils /panikkslá o.þ.h.) ekki vera meiri en 25 N (sem samsvarar þyngd u.þ.b. 2,5 kg). Gott er að mesti þrýstingur eða tog fari ekki yfir 40 N (sem samsvarar u.þ.b. 4,0 kg).

Gott er að huga að því að hljóðvist á svæðinu sé nægjanlega góð þannig að samskiptabúnaður nýtist sem best.

Um skábrautir og hæðarmun vísast í leiðbeiningu HMS nr. 6.4.11 Skábrautir og hæðarmunur.

4 Samskiptabúnaður

Samskiptabúnaður þarf ekki að vera til staðar í mannvirkjum sem eru undanþegin frá kröfum um algilda hönnun. Almennt er ekki gert ráð fyrir að það þurfi samskiptabúnað á svölum fjölbýlishúsa.

Samskiptabúnaður er búnaður sem tengir saman aðkomusvæði slökkviliðs í byggingunni við öruggu svæðin í byggingunni. Í stærri byggingum geta verið fleiri en ein stjórnstöð enda geta aðkomusvæði verið fleiri en eitt. En þannig getur slökkviliðið verið í beinum samskiptum við fólk á öruggum svæðum sem er ekki fært um að koma sér út án aðstoðar. Samskiptabúnaður og slík kerfi eiga að vera sett upp til að styðja við brunahönnun byggingarinnar. Markmiðið er að slökkviliðið geti gengið beint til verks og bjargað þeim sem þurfa aðstoð en þurfi ekki að leita á mörgum svæðum. Það er ekki markmið að hægt sé að hafa samband út fyrir bygginguna. Eðli samskiptabúnaðar og þessara kerfa er að þau henta betur í stærri byggingum þar sem mörg örugg svæði eru til staðar og erfitt er fyrir slökkviliðið að finna þá sem þurfa á hjálp að halda við að yfirgefa bygginguna.

HMS mælir með því að samskiptabúnaður fyrir örugg svæði uppfylli ákvæði staðalsins BS 5839-9 en ef búnaðurinn er eftir öðrum staðli þá þarf að leita samþykkis HMS. Búnaðurinn skal vera þannig gerður að þeir sem eru á örugga svæðinu geti gert vart við sig niður á aðkomusvæði slökkviliðs á jarðhæð. Ef straumur fer af byggingunni skal búnaðurinn vera á varaafli og vera virkur jafn lengi og brunahólfun viðkomandi brunahólfs, a.m.k. í 60 mín. Hann skal settur upp samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda og við hann skulu vera leiðbeiningar á íslensku um notkun hans. Gera skal þjónustusamning við viðurkenndan þjónustuaðila um reglubundna prófun og viðhald búnaðarins, ekki sjaldnar en á 12 mánaða fresti.

Ef örugga svæðið er á stigagangi á 4. hæð í íbúðarhúsi, með aðgang að glugga sem auðvelt er að opna, þ.m.t. fyrir notendur hjólastóla, og hægt er að hafa samskipti út um við fólk fyrir neðan, þá þarf ekki samskiptabúnað. Glugginn skal snúa að aðkomusvæði slökkviliðs. Gera skal grein fyrir útfærslu í greinargerð hönnuða.

Mynd 4. Dæmi um brjósthæð glugga á öruggum svæðum

Örugg svæði og samskiptabúnaður skulu vera í kjöllurum fjölbýlishúsa þar sem ekki er bein samskiptaleið upp stigagang, sér í lagi ef það er bílageymsla eða sameiginlegt þvottahús/ -aðstaða í kjallaranum.

Ásættanlegt getur verið að vera með öruggt svæði án samskiptabúnaðar í lægri fjölbýlishúsum (≤ 4 hæðir) án glugga enda séu fá örugg svæði og þau vel skilgreind fyrir slökkvilið. Hér þarf að vera stigahús í flokki 1 svo auðvelt sé að kalla niður og svalir þurfa að vera á slíkum fjölbýlishúsum þar sem auðvelt er að gera vart við sig (flóttaleið tvö). Þessi lausn krefst alltaf rökstuðnings hönnuðar en hann þarf að sýna fram á, í greinargerð, að meginmarkmiði sé náð.

Ef örugga svæðið er á 5. hæð eða ofar, í öðrum mannvirkjum en íbúðarhúsum, skal vera til staðar samskiptabúnaður. Í fjölbýlishúsum þar sem örugga svæðið er á 5. hæð eða ofar skal vera neyðarsími nema hönnuður telji samskiptabúnað nauðsynlegan.

Í sjúkrahúsum í notkunarflokki 5 skal sérstaklega bruna hanna fyrirkomulag á öruggum svæðum, þar geta verið flókin rýmingarkerfi til staðar þar sem sjúklingar geta almennt ekki kallað á hjálp. Þó getur verið í sömu tilfellum þörf fyrir samskiptabúnað á sumum stöðum í byggingunni.

Taflan hér á eftir gefur yfirsýn yfir kröfur sem gerðar eru til samskiptabúnaðar í hverjum notkunarflokki fyrir sig. Hverjum notkunarflokki er síðan skipt í þrjá flokka:

 • örugg svæði með aðgengi, þ.m.t.fyrir notendur hjólastóla, að opnanlegum glugga í byggingum sem eru fjórar hæðir eða lægri,
 • örugg svæði í byggingum sem eru lægri en 8 hæðir eða undir 23 m að hæð mælt frá meðalhæð jarðvegs umhverfis húsið og
 • örugg svæði í háhýsum. Háhýsi eru mannvirki sem eru hærri en 8 hæðir eða hærri en 23 m. Fyrir neðan töflu eru útfærslur útskýrðar nánar.

N.fl.Örugg svæði með aðgengi að opnanlegum glugga í byggingum ≤ 4 hæðir.Örugg svæði í byggingum undir 8 hæðir eða undir 23 mHáhýsi
1≤ 2 stigahús
Handboðakerfi eða neyðarsímar, nema rökstuðningur hönnuðar fylgi.
≤ 2 stigahús
Handboðakerfi eða neyðarsímar
Viðurkenndur samskiptabúnaður
12 stigahús
Viðurkenndur samskiptabúnaður eða handboðakerfi nema rökstuðningur hönnuðar fylgi.
2 stigahús
Viðurkenndur samskiptabúnaður eða handboðakerfi
Viðurkenndur samskiptabúnaður
2Viðurkenndur samskiptabúnaður, nema rökstuðningur hönnuðar fylgi.Viðurkenndur samskiptabúnaðurViðurkenndur samskiptabúnaður
3Ekki þörf á samskiptabúnaði* ** ***NeyðarsímarViðurkenndur samskiptabúnaður eða handboðakerfi ef bygging ≤ 12 hæðir
4Skal gert grein fyrir í brunahönnunViðurkenndur samskiptabúnaðurViðurkenndur samskiptabúnaður
5Skal gert grein fyrir í brunahönnunSkal gert grein fyrir í brunahönnunSkal gert grein fyrir í brunahönnun
6Skal gert grein fyrir í brunahönnunSkal gert grein fyrir í brunahönnunSkal gert grein fyrir í brunahönnun
Tafla 2. Notkunarflokkar m.t.t. öryggis og þörf á samskiptabúnaði

* Á ekki við um kjallara eða bílageymslur í kjallara, nema með rökstuðningi hönnuðar samanber staflið a) í greinargerð hönnuða.

** Taka skal tillit til umferðarhávaða og aðstæðna almennt, þ.m.t. staðsetning stigaganga, þegar hönnuður ákveður að leyfa örugg svæði í byggingum í notkunarflokki 3 og 4, allt að 4 hæðum án samskiptabúnaðar.

*** Lægri fjölbýlishús (≤ 4 hæðir) með stigahús í flokki 1 geta verið án glugga enda fá örugg svæði og augljóst hvar þau eru og boðleiðir án hindrana. Þessi lausn er háð því að hönnuður geti rökstutt hana og setji fram í a. lið greinargerða hönnuðar .

Neyðarsímakerfi

Lausnin byggir á samskiptabúnaði sem viðurkenndur er til uppsetningar í lyftum en hægt að setja upp á öruggum svæðum. Lausn skal útfærð af hönnuði eða í samræmi við staðla, t.d. ÍST EN 81-28.
Samskiptabúnaður getur t.d. samanstaðið af:

 • stöðluðu samskiptaboxi til uppsetningar innan öruggs svæðis,
 • boxi sem tengist GSM-sendi með CAT5 streng, sem skal brunavarinn í a.m.k. 30 mínútur eða jafnlengi og brunahólfun örugga svæðisins.

Mynd 5. Dæmi um neyðarsíma

Við virkjun er hringt í símanúmer sem skilgreint er við uppsetningu, venjulega skal hringt í stjórnstöð við aðkomu slökkviliðs á jarðhæð (innanhússkerfi) en möguleiki er að 24 tíma vaktstöð geti tekið við boðunum. Þetta skal hönnuður kerfisins skilgreina í samráði við brunahönnuð. Ljósdíóður gefa til kynna hvort hringing sé virk og hvenær samband hefur komist á við viðtakanda.

Hægt er að tengja fleiri en eitt samskiptabox við GSM-sendinn en þá þarf aukatengibox við sendinn.

GSM-sendirinn er tengdur 220v straum en er búinn neyðarrafhlöðu sem heldur sendinum í virkni í nokkra klukkutíma.

Allar merkingar á búnaði innan öruggra svæða skulu vera a.m.k. á íslensku. Tryggja þarf viðhald og eftirlit. Við hönnun kerfisins skal skilgreina hvernig viðhaldi og eftirliti er háttað meðan reglugerðir skilgreina ekki eftirlit með samskiptakerfum á öruggum svæðum, sjá nánar neðar varðandi reglubundið eftirlit. Mögulega má taka búnaðinn út samhliða úttekt á lyftum, þar sem það er í góðu ferli.

Handboðakerfi

Samskiptabúnaður sem samanstendur af:

 • Gulum handboða, tengdum brunaviðvörunarkerfi. Hengdur á vegg í 0,9-1,2 m hæð yfir gólfi.
 • Gaumljósi við handboða, sem gefur til kynna að viðbragðsaðilar eða vaktstöð hafi móttekið boðin.
Mynd 6. Dæmi um handboða

Kerfið skal vera hannað af þar til bærum hönnuði og í samráði við brunahönnuð viðkomandi byggingar. Hönnun kerfisins er líkt og um handboðakerfi er að ræða og því stuðst við viðmið í ÍST EN 54 hvað varðar búnað og allan frágang kerfisins. Kerfið skal yfirfarið samhliða brunaviðvörunarkerfi eða í samræmi við þær kröfur sem hönnuður skilgreinir, sjá klausu um reglubundið eftirlit hér að neðan.

Allir kaplar brunavarðir (30 min). Við virkjun berst hljóðmerki til sérstakrar stjórnstöðvar kerfisins auk þess sem upplýsingar um staðsetningu boðanna er sýnd á skjá stjórnstöðvarinnar. Auk þess skulu boð berast til viðurkenndrar vaktstöðvar og skulu þau að lágmarki gefa til kynna að óskað hafi verið eftir rýmingarhjálp í byggingunni.

Sérstök stjórnstöð er uppsett fyrir þetta kerfi, staðsett við hlið aðalstjórnstöðvar brunaviðvörunarkerfis eða á skilgreindu aðkomusvæði slökkviliðs. Þannig sé ljóst að boð sem berast þaðan til vaktstöðvar séu augljóslega ekki almenn boð frá brunaviðvörunarkerfi.

Séu stjórnstöðvar staðsettar í tæknirými skal við aðkomu slökkviliðs (í anddyri) sett upp útstöð sem sýnir staðsetningu boðanna, þ.e. hvaðan óskir um rýmingaraðstoð berast.

Allur búnaður tengdur samskiptabúnaði skal virka í a.m.k. 24 tíma í bið og 30 mínútur í rafmagnsleysi. Athugið að þetta leggur á kröfur um varaafl umfram kröfur gr. 3.2.15 í leiðbeiningum HMS um sjálfvirka brunaviðvörun nr. 6.038.

Mynd 7. Dæmi um merkingu við öruggt biðsvæði

Allar merkingar á búnaði innan öruggra svæða skulu vera a.m.k. á íslensku sbr. dæmi um merkingu á mynd 7 hér fyrir ofan.

Brunahönnun sérstaklega

Í einhverjum tilfellum, sjá töflu, er mælst til þess að samskiptabúnaður sé brunahannaður sérstaklega. Í brunahönnun þarf að sýna fram á með ljósum hætti að ásættanlegu brunaöryggi sé náð mv. ákvæði byggingarreglugerðar.

Reglubundið eftirlit

Gera skal skriflegan þjónustusamning um reglubundið eftirlit fyrir samskiptabúnað. Í þjónustusamningnum skal getið m.a. eftirfarandi atriða:

 • hver sé ábyrgðarmaður þjónustuaðilans
 • númer starfsleyfis HMS fyrir þjónustuaðilann
 • tíðni úttekta á kerfinu

Aðeins aðilar sem hafa starfsleyfi HMS geta gert slíkan þjónustusamning. Starfsleyfin eru gefin út samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1067/2011 um þjónustuaðila brunavarna.
Það er nauðsynlegt að kerfið sé háð reglubundinni skoðun og viðhaldi til að tryggja áreiðanleika kerfisins. Aðili með sérþekkingu á búnaðinum og starfsleyfi frá HMS þarf að fara reglulega yfir kerfið og þjónusta það.

 • Ársfjórðungslega þarf að skoða loftræst batterí og tengingar þeirra. Þetta þarf að vera framkvæmt af aðila með kunnáttu af uppsetningu rafhlaða. Sjá nánar staðal BS 5839.
 • Allur búnaður í heild sinni skal vera prófaður a.m.k. tvisvar á ári í notkunarflokkum 5 og 6 sem hýsa m.a. sjúkrahús, dvalarheimili og hliðstæða staði þar sem fólk er vanbúið til að bjarga sér, en önnur kerfi a.m.k. einu sinni á ári.

5 Merkingar og lýsing

Öruggt svæði skal vera sérmerkt á flóttaleiðateikningu og um þau fjallað í rýmingaráætlun.

Öruggt svæði skal alltaf vera sérmerkt í flóttaleiðinni sjálfri, sjá mynd 3. Einnig skal svæðið sjálft vera merkt sbr. merki á mynd 4. Mikilvægt er að auðkenna örugg svæði t.d. með númeri (eða t.d. 4. hæð suður) sérstaklega í þeim tilfellum sem ekki er hægt að sjá staðsetningu við stjórnstöð/aðkomu slökkviliðs.

Mynd 8. Dæmi um merkingu leiðar að öruggu svæði í flóttaleið
Mynd 9. Dæmi um merkingu öruggs svæðis

Tryggja skal að:

 • Almenn lýsing á svæðinu uppfylli gr. 9.4.11 í byggingarreglugerð.
 • Að neyðarlýsing á svæðinu sé virk við straumrof og uppfylli gr. 9.4.12 í byggingarreglugerð.
 • Að leiðamerkingar uppfylli gr. 9.5.11 og leiðbeiningar nr. 9.5.11.

Sérstaklega getur þurft að taka tillit til þess ef byggingar eru hannaðar fyrir blinda eða sjónskerta eða aðra hópa sem gætu haft sérstakar þarfir þegar kemur að öruggum svæðum.

6 Flóttastólar

Svokallaðir flóttastólar geta í rýmingu um stiga auðveldað öðrum að hjálpa fólki sem er hreyfihamlað, t.d. í hjólastól. Flóttastóllinn krefst þess að sá sem aðstoðar við notkun hans hafi einhverja kunnáttu á því hvernig hann virkar, því hentar notkun hans ekki í öllum tilfellum. Flóttastólar geta tekið lítið pláss þar sem hægt er að hengja þá upp á vegg. Æfa þarf reglulega notkun flóttastóla og gera þarf grein fyrir þeim í rýmingaráætlun og á flóttaleiðateikningum.

Mynd 10. Dæmi um flóttastól (evacuation chair)

Heimildir

 • Lög nr. 160/2010 um mannvirki, með síðari breytingum
 • Byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
 • Björn Karlsson, Staffan Bengtson & Elena Siré: Aðgengi og flóttaleiðir fyrir alla. Árbók VFÍ/TFÍ, 2008.
 • ISO EN 7010 Graphical symbols – Safety colours and safety signs – Registered safety signs
 • Brandskyddshandboken #6. Lunds tekniska högskolan
 • BS 5839-9: Fire detection and alarm systems. Code of practice for the design, installation, commissioning and maintenance of emergency voice communication systems.
 • Leiðbeiningar HMS nr. 9.5.11 við byggingarreglugerð nr. 112/2012
 • HMS leiðbeiningar - brunavarnir nr. 6.038
 • CFPA-E Guideline No 33:2015 F, Evacuation of people with disabilities, 2015.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við20.2.2020
1.1MVS breytt í HMS og tilvísun fjarlægð24.4.2020
1.2Viðbætur; Af hverju þarf öruggt biðsvæði, leiðbeiningar úr CFPA European Guideline No 33:2015 F um rýmingu mannvirkja m.t.t. fólks með fötlun. Breyting; Tafla 2. Notkunarflokkar m.t.t. öryggis og þörf á samskiptabúnaði. Nokkrar minniháttar breytingar25.5.2020