9.6.4. Olíugeymar og olíuskiljur

Leiðbeiningar

1 Olíugeymar

Algengt er að settir séu upp olíugeymar ofanjarðar fyrir eldfima vökva í flokki III.1 (díselolíu) upp að 4.000 lítrum. Þessir geymar geta til dæmis verið staðsettir hjá bensínstöðvum, þá aðallega neðanjarðar, verktökum eða bændum. Þetta á þó ekki við um tanka við birgðarstöðvar samanber reglugerð 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi og ekki um tanka sem notaðir eru til að safna afgangsolíu. Olíugeymar sem eru sambyggðir vélum/ raftækjum eru flokkaðir sem dagtankar sem innihalda olíu fyrir notkun í einn sólarhring, og er leyfilegt að hafa þá inni í þeim rýmum sem vélin er í. Þetta rými þarf að vera sérstakt brunahólf, samkvæmt gr. 9.6.11 og með ráðstafanir til að olían geti ekki runnið fram úr herberginu það er með þröskuldi og niðurfalli tengdu olíuskilju.

Mynd 1. Olíugeymir frá Borgarplasti

1.1 Leyfi fyrir olíugeymum

Sækja skal um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir staðsetningu sérhvers olíugeymis áður en honum er komið fyrir. Hámarksstærð geymis er 4.000 lítrar. Ef um er að ræða fleiri en einn geymi innan sömu lóðar skal miða við að samanlögð stærð þeirra sé 4.000 lítrar. Eingöngu má nota geymana undir olíur í flokki III.1 með blossamark yfir 55°C. Einnig þarf að sækja um leyfi fyrir olíugeyma hjá viðkomandi heilbrigðisnefnd samanber 80 gr. reglugerðar nr. 884/2017.

1.2 Gerð olíugeyma

Olíugeymar eru ýmist gerðir úr stáli eða plasti og þá einkum polyethylen HDPE. Olíugeymar skulu hannaðir og byggðir í samræmi við leiðbeiningar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) samþykkir og gildandi staðal EN 13341. Geymar úr plasti ásamt búnaði á þeim skulu vera CE-vottaðir og tankar úr stáli skulu þéttiprófaðir á viðurkenndan hátt til að staðfesta að suður séu fullnægjandi. Með hverjum geymi skulu fylgja leiðbeiningar um uppsetningu og framleiðsluvottorð frá framleiðanda og er óheimilt að breyta geyminum eða búnaði hans á nokkurn hátt. Öll op og tengingar inn á geyminn, þar með taldar dælur, skulu gerð ofan við hæsta vökvayfirborð þannig að ekki geti orðið sjálfrennsli úr tankinum.

Leiðbeiningar um notkun geymisins, staðsetningu, framleiðsluár og annað sem máli skiptir skulu vera ritaðar á áberandi hátt á hvern tank, á íslensku.

1.3 Staðsetning olíugeyma

Olíugeyma skal staðsetja utandyra stakstæða eða saman upp að samtals 4.000 lítra magni og skulu þeir vera varðir fyrir ákeyrslu. Geymana skal setja á fast undirlag. Þegar geymarnir eru nálægt húsi skal planinu hallað frá húsinu.

Geymana skal staðsetja þannig að ekki sé hætta á að eldur geti borist í þá frá húsi eða frá þeim í hús. Aldrei skal vera minni fjarlægð en 2,5 m frá húsi nema húsveggurinn sé með brunamótstöðu minnst EI60, án glugga og annarra opa. Klæðningar á útvegg skulu vera í flokki 1. Geymana skal festa tryggilega þannig að ekki sé hætta á að þeir fjúki. Fjarlægð frá lóðarmörkum skal vera minnst 3.0 m.

2 Olíuskiljur

2.1 Almennt

Umhverfisstofnun hefur umsjón með málefnum olíuskilja vegna mengunarvarna en aðrir þættir heyra undir HMS.

Eitt af markmiðum byggingarreglugerðar er að stuðla að vernd umhverfisins. Í samræmi við það skal allsstaðar setja upp olíuskilju þar sem notkun, meðferð eða geymsla olíuefna fer fram og ekki hafa verið gerðar aðrar ráðstafanir til að tryggja að olíubrák sé ekki í frárennsli sem berst út í náttúruna.

Þegar olíuskilja er sett upp þarf að gæta að því að ekki verði uppgufun af olíunni út í umhverfið og að olíuskiljan standist þá áraun sem hún verður fyrir frá umhverfi sínu.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má sjá eftirfarandi leiðbeiningar fyrir olíuskiljur: "Olíuskilja er mengunarvarnabúnaður fyrir fráveitur sem skilur að olíuefni og vatn til þess að frárennslið valdi ekki skaða í náttúrunni. Tryggja þarf að hvergi sé hætta á að olía eða olíumengað vatn berist út í umhverfið. Gerð er krafa um olíuskiljur eða annan fyrirbyggjandi búnað við alla starfsemi þar sem meðhöndluð eru olíuefni eða kolvetnissambönd.

Virkni olíuskilju byggist á því að olíur eða önnur kolvetni hafa tilhneigingu til þess að skiljast frá vatninu og vegna minni eðlismassa fljóta olíuefnin upp á yfirborð vatnslausnar.

Sandur og önnur föst efni skulu ekki berast í olíuskilju þar sem olíudropar geta loðað við föstu efnin og borist þannig í gegnum olíuskiljuna. Nota skal sandfang sem tekur við sandi, leðju og öðrum föstum efnum úr frárennsli áður en það berst í olíuskilju.

Hafa þarf reglulegt eftirlit með olíuskiljum þannig að tryggt sé að virknin sé eins og til er ætlast. Viðvörunarbúnaður sem varar við yfirfyllingu olíuskiljunnar þarf ætíð að vera í lagi.

Mynd 2. Virkni olíuskilju, fengin úr bæklingi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um olíuskiljur, en hönnun og virkni olíuskilja skal einnig fylgja stöðlunum: ÍST EN 858-1:2002 og ÍST EN 858-2:2003. Fjallar sá fyrri um hönnunarforsendur og prófanir á skiljum (gerðarprófun) en sá síðari um val á skiljum og stærðarútreikninga með tilliti til aðstæðna og vökva sem er til meðhöndlunar. Leiðbeiningar um olíuskiljur duga flestum sem þurfa að kaupa eða vinna með olíuskiljur. Staðlarnir nýtast fyrst og fremst þeim sem þurfa að hanna olíuskiljur eða ráðleggja um hönnun og virkni. Staðlana má fá hjá Staðlaráði Íslands.

Auk framangreindra staðla hefur verið gefinn út staðall ÍST EN 858-1:2002/A1:2004 sem fjallar um skiljukerfi fyrir létta vökva, grunnhönnun, skilvirkni og prófanir, merkingu og gæðaeftirlit. Einnig má sjá sérrit á heimasíðu Umhverfisstofnunar en slóð á hann má finna í heimildarskrá.

3.1 Fjarlægð og staðsetning

Meginatriði við staðsetningu á olíuskiljum varða útloftun og burðarþol. HMS gerir almennt ekki greinarmun á staðsetningu olíu-/ bensíntanka og olíuskilja svo framarlega sem útloftunarrör sé staðsett 6 metra frá bílastæðum og 12 metra frá byggingum og nái minnst 3,5 m yfir jörðu og 0,5 m yfir hæsta punkt tankbíls. Nánari upplýsingar um brunavarnir er meðal annars að finna í reglum HMS um brunavarnir á bensínstöðvum útg. af Brunamálastofnun í október 1993.

Burðarþol olíuskilja getur verið afar mismunandi, en þær skulu ætíð staðsettar undir yfirborði jarðar. Velja þarf olíuskilju þannig að hún þoli þá jarðvegsdýpt og umferðarálag sem er á staðnum. Olíuskiljur þurfa að uppfylla kröfur um burðarþol í samræmi við ÍST EN 858-1:2002 sem miðast við:

a. álag frá jarðvegi

b. álag frá grunnvatni

c. álag frá umferð

Tilvísanir

Heimildir

 • Lög nr. 75/2000 um brunavarnir
 • Lög um mannvirki nr. 160/2010
 • Byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
 • Reglugerð nr. 188/1990 um eldfima vökva.
 • Reglur um brunavarnir á bensínstöðvun. Október 1993. Brunamálastofnun
 • Reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.
 • EN 13341 :2005 Hitadeigir fastir tankar til ofanjarðargeymslu á húshitunarolíu, steinolíu og dísilolíu - Tankar úr blástursmótuðu pólýetýleni, snúningsmótuðu pólýetýleni og pólýamíð 6 sem framleitt er með anjónískri fjölliðun - Kröfur og prófunaraðferðir.
 • Nýsköpunarmiðstöð Íslands – Eyðublað EB-022 „Byggingarvörur: Vottun – Umsögn – Umsókn“
 • ÍST EN 858-1:2002. Olíuskiljur, hönnunarforsendur og prófanir
 • ÍST EN 858-1:2002/A1:2004. Olíuskiljur, grunnhönnun og skilvirkni
 • ÍST EN 858-2:2003. Olíuskiljur, val og stærðarútreikningar

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við29.8.2012
2.0Tilvísanir settar inn30.8.2013
2.1Letur stækkað18.7.2018
2.2MVS breytt í HMS. Tilvísanir fjarlægðar10.2.2020
2.3Yfirlit yfir breytingar11.1.2021