6.1.3. Kröfur um algilda hönnun

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Eitt af markmiðum laga um mannvirki er að tryggja aðgengi fyrir alla. Með aðgengi er átt við að fólk sem á við fötlun, veikindi eða skerðingu að stríða, geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum jafnvel við óvenjulegar aðstæður, til dæmis eldsvoða. Jafnframt að við hönnun og útfærslu mannvirkja séu hafðar í huga mismunandi þarfir og geta fólks með tilliti til sjónar og heyrnar, til dæmis við efnisval og útfærslur einnig sé gætt að hljóðvist og birtuskilyrðum innan og utan húss.

2 Aðgengi fyrir alla

Eftirfarandi skilgreining er í 2. tölulið 1.2.1 gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012: „Aðgengi fyrir alla: Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.“

Aðgengi fjallar um kröfur til mannvirkja vegna notkunar þeirra en algild hönnun er hugmyndafræði hönnunar. Aðgengi fyrir alla tekur tillit til fatlaðra en algild hönnun tekur tillit til allra notenda, þar með talið fatlaðra. Aðgengi er almennt skilgreint sem lágmarkskrafa, til dæmis sem lágmarksmál í byggingarreglugerð sem dæmi halli skábrauta, hurða- og gangabreiddir.

3 Algild hönnun

Eftirfarandi skilgreining er í 3. tölulið 1.2.1 gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012: „Algild hönnun: Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf.“ Algild hönnun er hugmyndafræði við hönnun eins og fyrr segir. Algild hönnun skiptir ekki hópum upp í fatlaða og ekki fatlaða, heldur skilgreinir alla sem einn hóp, notendur. Í 2. mgr. 6.1.2 gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 með síðari breytingum segir: „Með algildri hönnun skal meðal annars tekið tillit til eftirtalinna hópa einstaklinga:

a. hjólastólanotenda

b. göngu- og handaskertra

c. blindra og sjónskertra

d. heyrnarskertra

e. einstaklinga með astma og/eða ofnæmi, með því að huga að vali á byggingarefnum, gerð loftræsingar og viðhaldi loftræsikerfa

f. einstaklinga með þroskahömlun, með því að huga að lita og efnisvali, skiltum og merkingum

g. einstaklinga með lestrarörðugleika, með því að huga að skýrum merkingum, táknmyndum og hljóðmerkingum þar sem það á við“

Þessi upptalning gefur leiðsögn um þá hópa sem hafa ber í huga við hönnun bygginga, en hún er hins vegar ekki tæmandi. Það skiptir einnig máli að greina á milli lágmarksviðmiða og krafna í byggingarreglugerðinni sem byggð eru á aðgengissjónarmiðum og hins vegar þeirri hugmyndafræði algildrar hönnunar sem hönnuðir tileinka sér og nýta í vinnulagi sínu og faglegum hugsunarhætti.

4 c liður 1. mgr.

c liður 1. mgr. 6.1.3 gr.: Meginregla er að hanna skal á grundvelli algildrar hönnunar allar byggingar undir atvinnustarfsemi. Með „innan þeirra marka sem eðli starfseminnar gefur tilefni til“ er átt við að hanna skuli og byggja það rými innan byggingarinnar á grundvelli algildrar hönnunar sem tiltekin starfsemi fer fram á og ætla má að fatlað fólk dveljist og fari um, með hliðsjón af eðli starfseminnar sem í henni er. Við hönnun atvinnuhúsnæðis þarf því að horfa til þess að fatlaðir geti bæði verið starfsmenn og gestir fyrirtækisins. Skila þarf greinargerð þar sem tilgreint er hvaða hlutar byggingar-innar eru undanþegnir algildri hönnun og rökstyðja hvers vegna.

5 h liður 1. mgr.

h liður 1. mgr. 6.1.3 gr.: Þegar stofa, eldhús, baðherbergi og að minnsta kosti eitt svefnherbergi eru á aðalinngangshæð byggingar skal hanna og byggja á grundvelli algildrar hönnunar.

6 2. málsgrein

2. mgr. 6.1.3 gr.: Mannvirki, aðgengi að þeim og umhverfi, sem hönnuð eru á grundvelli algildrar hönnunar til dæmis íbúðarhús, skulu þannig hönnuð að auðvelt og hagkvæmt verði að breyta þeim svo þau henti fötluðum einstaklingum til búsetu. Æskilegt er að hönnuðir aðaluppdrátta mannvirkja láti fylgja með aðaluppdráttum drög (teikningu) eða gera grein fyrir því hvernig breytingarnar eru framkvæmanlegar skv. lið 16 í 4.3.9 gr. Hönnuðir aðaluppdrátta skulu skila greinargerð um til dæmis umferðarleiðir og hvort einstök rými uppfylli stærðir svo hægt sé að breyta innréttingum þeirra til aðlögunar að rýmisþörfum fatlaðs einstaklings, svo sem eldhús-, bað- og þvottahúsinnréttingum.

7 3. málsgrein

3. mgr. 6.1.3 gr.: Frávik frá kröfu 1. mgr. hvað varðar c- og h- lið eiga við til dæmis þar sem meginrými eru á jarðhæð en landslag er þannig að aðkoma er ekki fær fyrir fatlaða til dæmis vegna mikils halla lóðar (aðalinngangur er á annarri hæð eða ofar, þar sem ekki eru meginrými). Einnig getur þetta átt við til dæmis vinnustað að hluta til þar sem hluti starfseminnar hentar ekki fötluðum einstaklingum en aðrir hlutar hennar eru hannaðir skv. algildri hönnun.

Tilvísanir

Samningur Sameinuðu þjóðanna um fólk með fötlun, undirritaður af hálfu íslenskra stjórnvalda, þann 30. mars 2007 og fullgildur 20. september 2016. 

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu: Dags.
1.0 Á ekki við19.1.2016
1.1 4. breyting byggingarreglugerðar12.2.2016
1.2 7. breyting byggingarreglugerðar12.6.2018
1.3 Leturstærð breytt9.9.2019
1.4 MVS breytt í HMS5.2.2020
1.5 9. breyting byggingarreglugerðar29.10.2020
1.6 9. breyting byggingarreglugerðar. Yfirlit yfir breytingar. Leiðbeining einfölduð16.11.2020