6.4.2. Inngangsdyr/Útidyr og svala-/garðdyr

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Í kafla 6.4 er fjallað um umferðarleiðir innan bygginga en markmið hans er m.a. að umferðarleiðir innan bygginga skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota og skal umfang þeirra vera nægjanlegt til að anna umferð fólks, sjúkraflutningum og öðrum flutningum, s.s. á innanstokksmunum, aðföngum, úrgangi o.þ.h. sem gert er ráð fyrir að verði innan hennar. Fyrstu fjórar málsgreinar 6.4.2 gr. fjalla um eiginleika sem á við um inngangsdyr/útidyr og svala-/garðdyr í öllum húsum. Þau viðbótarskilyrði sem fram koma í 1. mgr. ákvæðisins eiga við um öll hús sem hönnuð eru samkvæmt algildri hönnun.
Athugið að kröfur byggingarreglugerðar eru lágmarkskröfur.

2 2. mgr.

Hindrunarlaus umferðarbreidd (umferðarmál) mælist með hurðarblað 90° opið frá mótlægum karmi að hurðarblaði. Þar sem ekki er unnt að opna hurð meira en 90° og handföng eru sett á hurðarblað nálægt lömum þarf að breikka umferðarmálið sem því nemur.

Mynd 1. Dæmi um hurð á lömum
Mynd 2. Dæmi um rennihurð

Snúningshurðir, hvort heldur sem eru rafknúnar eða ekki, henta afar illa mörgum hópum fatlaðra og sjúkrabörur komast ekki um þær. Þar sem valið er að hafa snúningshurðir skal ávallt vera við hliðina á þeim hurð á lömum eða rennihurð. Gott er að láta leiðarlínu vísa á þá hurð eða hafa áherslumerkingarsvæði fyrir framan snúningshurð.
Til þess að fólk með takmarkaðan kraft í fingrum og höndum geti opnað hurðir, verða þær að vera með hámarks hurðarátaki 25 N (sem samsvarar þyngd um það bil 2,5 kg) og mesti þrýstingur eða tog ekki yfir 40 N.
Mælt er með sjálfvirkum hurðaropnunarbúnaði sérstaklega við inngangs-, neyðarútgangsdyr og dyr frá bílageymslum að lyftum.

3 5. mgr.

a Utan við aðalinngang skal vera láréttur flötur, sem hallar frá mannvirki að hámarki 1:40 (2,5 %), með bundnu og sléttu yfirborðsefni með hálkuvörn að minnsta kosti 1,50 m x 1,50 m að stærð utan opnunarsvæðis inngangsdyra og 1,80 m x 1,80 m þar sem umferð er mikil. Ef hurð opnast út þá skal breidd hurðarblaðs bætast við flatarbreiddina. Flötur utan aðalinngangs skal vera í sömu hæð og gólfið að innanverðu samanber d lið þessa töluliðar. Æskilegt er að þar sem því verður við komið sé flöturinn upphitaður.

Mynd 3. Dæmi um pall/flöt með hurð sem opnast út
Mynd 4. Dæmi um pall/flöt með hurð sem opnast inn

Með tilliti til sjónskertra og blindra er æskilegt að setja annað yfirborðsefni fyrir framan inngangsdyr til að auðvelda þeim að finna þær. Yfirborðsefnið skal vera þannig að fólk með sjónskerðingu sjái það auðveldlega og blindir einstaklingar sem nota Hvíta stafinn finni auðveldlega fyrir því. Sjá nánar leiðbeiningu nr. 6.2.2.

b Gera þarf ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir dyr í aðalumferðarleiðum þar með talið dyr að bílgeymslum. Snertirofa fyrir sjálfvirkan opnunarbúnað skal staðsetja í 0,90 m – 1,20 m hæð og um 1,00 m frá hurðaropi þar sem hurð opnast á móti umferðarleið (til að hurðin sé örugglega opin þegar blindur einstaklingur kemur að henni). Sé um að ræða hurð á lömum skal rofinn vera staðsettur skráarmegin við dyr og fjarlægð rofa frá næsta innhorni eða kverk skal vera að minnsta kosti 0,50 m þar sem hurð opnast frá umferðarleið eða er rennihurð, annars 1,00 m þar sem hurð opnast á móti umferðarleið. Mælt er með rofa/ skynjara sem ekki þarf að snerta og hægt er að stilla þannig að hurðin verði örugglega opin þegar til dæmis blindur/ sjónskertur einstaklingur kemur að henni. Gott er að hafa hljóðmerki við anddyri og lyftur til að auðvelda blindum og sjónskertum einstaklingum aðkomu að þeim.

Mynd 5. Opnunarbúnaður

Hurðarrofar skulu vera greinilegir í lit sem aðgreina sig vel frá vegg og merktir sérstaklega með texta og tákni.

Mynd 6. Dæmi um hurðarrofa

c Hliðarrými að minnsta kosti 0,5 m skal vera skrármegin við inngangsdyr. Þegar dyrnar opnast inn í byggingu er hliðarrýmið inni en ef dyrnar opnast út er það úti. Sjá nánar á mynd 7.

Mynd 7. Dæmi um hliðarrými við inngangshurðir

d Kvöð um hámarkshæð þröskulda, 25 mm er erfitt að uppfylla, sérstaklega við svala- og útgangsdyr út á palla þar sem dyrnar opnast út. Þetta er hægt að leysa til dæmis með því leggja einskonar rennu meðfram sökklinum og brúa yfir hana með hallandi riffluðum stálplötum, rist eða þess háttar (halli að hámarki 1:8 (12,5 %) að hámarki 300 mm langri. Rist er notuð meðal annars til að minnka vatnsaustur ef inngangsflötur er ekki yfirbyggður.
Æskilegt er að hönnuðir skili deililausnum á þröskuldi við svala- og útgangsdyr strax við framlagningu aðaluppdrátta áður en byggingaráform eru samþykkt, sérstaklega út á svalir, þar sem það getur haft grundvallar þýðingu við frekari hönnun til dæmis þolhönnun.
Best er að þröskuldar séu með öðrum lit og áferð en yfirborðsefnin sitt hvoru megin við hann til dæmis vegna fólks með sjónskerðingu og aldraðra.
Sjá nánar myndir nr. 8-11.

Mynd 8. Dæmi um rennu og rist við garðdyr
Mynd 9. Dæmi um rennu og rist við garðdyr

Svalagólf og pallar skulu halla frá veggjum til að forðast að uppsafnað vatn renni að veggjunum. Fyrir byggingar sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar er hámarkshalli 1:8 (12,5%), í að hámarki 300 mm lengd frá vegg og eftir það er hámarkshalli svalagólfa og palla 1:40 (2,5%) til að hjólastólar geti ferðast þar um.

Mynd 10. Dæmi um frágang við svaladyr, sneiðing
Mynd 11. Dæmi um halla palla og svalagólfa þar sem algildrar hönnunar er krafist

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við15.6.2012
2.02. breyting byggingarreglugerð5.7.2013
3.03. breyting byggingarreglugerð15.7.2014
3.14. breyting byggingarreglugerð16.3.2016
4.05. breyting byggingarreglugerð4.5.2016
4.17. breyting byggingarreglugerð14.6.2018
4.2Tekið út leiðbeiningar um gólefni og litamismun15.5.2019
4.3Stafsetninga leiðréttingar26.6.2019
4.4Tekið út úreltar tilvísanir og slóðir27.9.2019
4.5MVS breytt í HMS5.2.2020
4.69. breyting byggingarreglugerðar. Yfirlit yfir breytingar16.11.2020
4.7Inngangi bætt við og minniháttar leiðrétting2.2.2021