4.7.6. Heimild fyrirtækja og stofnana til að bera ábyrgð sem byggingarstjórar

Leiðbeiningar

1 Almennt

Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri, samanber 27. gr. laga um mannvirki. Byggingarstjóri er einstaklingur sem fengið hefur starfsleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Heimilt er að fela lögaðila (fyrirtæki eða stofnun) að bera ábyrgð sem byggingarstjóri. Það er háð því skilyrði að hjá lögaðilanum starfi einstaklingur sem er með starfsleyfi og vinni þau störf við mannvirkjagerðina sem byggingarstjóra er ætlað.

2 Heimild til að fela lögaðila að bera ábyrgð sem byggingarstjóri

Ákvæði 4.7.6. gr. byggingarreglugerðar, samanber 5.mgr. 28. gr. laga um mannvirki, um að fyrirtæki geti í eigin nafni borið ábyrgð sem byggingarstjóri er bundið því skilyrði að innan fyrirtækisins, eða stofnunarinnar, starfi einstaklingur við byggingarstjórn sem hefur starfsleyfi til að annast umsjón með þeirri gerð mannvirkis. Um heimild er að ræða. Sé hún ekki nýtt er ábyrgð byggingarstjórnar í höndum einstaklings sem sinnir starfinu í eigin nafni.

Störf byggingarstjóra við mannvirkjagerð verða að vera unnin af einstaklingi sem hefur starfsleyfi sem byggingarstjóri. Heimild til að færa ábyrgð yfir á fyrirtækið breytir engu þar
um. Um starfsleyfi byggingarstjóra er fjallað í 28. gr. laga um mannvirki og veiting starfsleyfis er bundin við persónur sem sækjast eftir slíku leyfi og fullnægja skilyrðum til að starfa sem slíkir. Með heimild fyrirtækja og stofnana til að bera ábyrgð er veittur möguleiki til að takmarka þá persónulegu ábyrgð sem einstaklingur, sem starfar hjá fyrirtæki eða stofnun, ber á verkinu.

Það er því ekki fyrirtæki eða stofnun sem er byggingarstjóri þó svo að það beri ábyrgð á störfum byggingarstjóra.

Við skráningu byggingarstjóra við mannvirkjagerð þarf að koma skýrt fram hvaða einstaklingur er skráður byggingarstjóri við þær framkvæmdir sem um ræðir.

HMS vill af gefnu tilefni árétta að heimildir byggingarstjóra takmarkast við gerð mannvirkja og umfang framkvæmda og starfsreynsla viðkomandi skiptir þar máli.

Tilvísanir

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við14.10.2020