9.6.26. Gluggar í útveggjum

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1. gr. byggingarreglugerðar gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur að uppfylli meginreglur 9.6.26. gr. reglugerðarinnar. Notkun leiðbeininganna er ávallt á ábyrgð húseiganda eða, eftir því sem við á, viðkomandi hönnuðar. Leiðbeiningarnar koma ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti.

2 Almennt

Eitt af meginmarkmiðum við brunavarnir bygginga sbr. 9.1.1. gr. er að takmarka hættu á útbreiðslu elds innan þeirra og á milli eignarhluta, brunahólfa og bygginga. Jafnframt skulu útveggir bygginga vera þannig uppbyggðir og frágengnir að þeir auki ekki líkur á útbreiðslu elds á milli brunahólfa, sbr. meginreglur 9.7.2. gr. byggingarreglugerðar.

Hættan á útbreiðslu elds ræðst af mörgum þáttum bygginganna sjálfra en einnig af fjarlægð milli glugga í útveggjum, stærð og brunaþoli glugga/glerja og brunaálagi í byggingu. Til þess að takmarka hættuna á útbreiðslu elds má beita ýmsum aðgerðum:

a) Algengast er að hafa bil á milli glugga í útveggjum það mikið að möguleg hitageislun, að teknu tilliti til viðkomandi þátta sem geta haft áhrif á útbreiðslu eldsins, sé það lítil að hún nái ekki að sprengja og brjóta gler í nálægum gluggum og þannig kveikja í aðliggjandi eða nálægum eignarhluta, brunahólfi eða byggingu.

b) Náist ekki nægjanlegt bil á milli glugga í útveggjum bygginga til að hindra þetta þarf að gera sértækar ráðstafanir vegna aðliggjandi eða nálægra glugga. Þær geta verið ýmis konar, s.s.:

 • Aukin brunamótstaða glugga/glerja í útveggjum.
 • Úðakerfi í eða utan á byggingu.
 • Brunafrágangur úr óbrennanlegu/illbrennanlegu efni við eða kringum glugga, sem skal varna því að eldurinn breiðist út til nærliggjandi glugga, t.d. steyptur útskagandi brunakantur eða svalir af ákveðinni stærð, inndregnir útveggjafletir, o.fl. Stærð/breidd valdra hönnunarlausna skal ákvarða sérstaklega með útreikningi í brunahönnun eða greinargerð hönnuða (eftir því sem við á m.v. umfang og áhættu).

3 Takmörkun á geislun


Yfirborðsfletir útveggja skulu, skv. meginreglum 9.7.3. gr. byggingarreglugerðar, vera þannig uppbyggðir og frágengnir að þeir valdi ekki sérstakri hættu á útbreiðslu elds milli brunahólfa eða auki verulega hættu á útbreiðslu elds milli bygginga.

Hættan sem skapast af geislun sem gluggar eða bygging verður fyrir stafar af því að geislunin:

 • sprengir/brýtur gler í gluggum,
 • kveikir í brennanlegum efnum (t.d. utanhússklæðningum, gluggatjöldum o.þ.h.) og eykur þar með hættuna á að eldurinn breiðist út á milli brunahólfa og bygginga.

3.1 Hitageislun á útveggi

Hámarksgildi hitageislunar á milli bygginga er 13 kW/m2 skv. 9.7.1. gr. byggingarreglugerðar. Sú takmörkun miðast við eiginleika efna, s.s. timburs, sem verða fyrir hitageislun í nokkurn tíma með þeim afleiðingum að það kviknar í efninu en margir þættir hafa áhrif á þetta gildi s.s. rakainnihald og olíuinnihald (timbursins), rúmþyngd, þykkt, yfirborðsmeðhöndlun o.fl.

Með útreikningum í brunahönnun er hönnuðum þó heimilt að sýna fram á að meiri geislun sé ásættanleg í einstaka tilfellum, sbr. 3.mgr. 9.7.1. gr. og ákvæði um greinargerð hönnuða og sannprófun lausna í 9.2.3. gr. byggingarreglugerðar.

3.2 Hitageislun á gler í útveggjum

Reikna má með því að gler í hefðbundnum gluggum í útveggjum bygginga fari að brotna við hitageislun sem nemur um 10 kW/m2. Taka þarf tillit til þess að slíkir gluggar geti verið opnir og því þurfi einnig að meta brunaeiginleika gluggatjalda. Þegar notað er viðurkennt eldþolið gler í gluggum útveggja þá skal slíkur gluggi vera án opnanlegra faga til loftræsingar og eldþolna glerið ísett og frágengið á viðurkenndan hátt skv. leiðbeiningum framleiðanda. Upplýsingar um eld- og geislunarþol fyrirskrifaðrar tegundar eldþolins glers má finna í
gögnum á heimasíðu viðkomandi framleiðanda.

4 Gluggar í útveggjum bygginga

4.1 Almennt

Skv. meginreglum 9.6.26. gr. byggingarreglugerðar skulu gluggar í útveggjum bygginga
vera þannig gerðir að ekki sé hætta á að eldur eða reykur geti breiðst út milli
brunahólfa hvorki lóðrétt né lárétt.
Jafnframt mega gluggar sem eru með eldþolnu gleri vegna brunahólfunar ekki vera
með opnanlegum fögum til loftræsingar og þá má einungis vera hægt að opna með
sérstökum verkfærum.
Ætíð skal nota viðurkennda byggingarvöru í samræmi við gildandi lög, reglur og staðla.

4.2 Brunahólfun EI60 og brunaálag < 780 MJ/m2

Í viðmiðunarreglum 9.6.26. gr. og töflu 9.08 eru gefin upp ákveðin tölugildi um fjarlægð milli glugga í útveggjum (og brunakröfu á gluggum) sem miða skal við fyrir EI60 brunahólfun og brunaálag < 780 MJ/m2.

 • Fyrir önnur tilfelli (en EI60 brunahólfun og brunaálag < 780 MJ/m2) skal sýna með útreikningum að brunahólfun sé ekki skert, sjá :
  • ÍST EN 1991-1-2 - Eurocode 1: Hönnun brunahluta – Hluti 1-2: Almennt – Eldvarnarhönnun.
 • Um glugga í innhornum undir minna en 60° horni gilda sömu reglur og fyrir glugga sem eru á samsíða veggjum.
 • Fyrir glugga hvor fyrir ofan annan í hæð gildir að ef bil á milli þeirra er minna en 1,2 m þá skal annar glugginn vera E30 eða báðir gluggarnir vera E15, (Brandskyddshandboken, 2017).
 • Fyrir önnur gildi á innbyrðis afstöðu (en þau sem nefnd eru undir 4.2. gr. og þau sem sýnd eru í Töflu 9.08) skal miða við línulega breytingu.

Dæmi: Gluggar í 135° innhornum
Miðað við línulega breytingu á töflugildum fyrir „Gluggar í 90° innhornum“ og fyrir „Gluggar í veggjum undir minnst 180° horni“ fæst að ef fjarlægð milli gluggana er a.m.k. 1,30 m þá er engin brunakrafa á gluggana, sjá mynd 1 :

Mynd 1: Gluggar í 135° innhornum, sem dæmi um innbyrðis afstöðu m.v. línulega breytingu, þar sem brunahólfun á að vera EI60.

4.3 Brunahólfun meiri en EI60 og brunaálag > 780 MJ/m2

Þar sem krafist er meiri brunahólfunar en EI60 á milli rýma/eignarhluta (svo sem EI90/REI90 á milli íbúða eða bygginga/byggingahluta), og/eða brunaálag í byggingu er > 780 MJ/m2, skal hönnuður leggja fram fullgilda útreikninga varðandi brunaöryggi byggingarinnar í brunahönnun eða greinargerð hönnuða (eftir því sem við á m.v. umfang og áhættu).

Dæmi um innbyrðis afstöðu glugga einstakra íbúða í fjölbýlishúsi (m.v. eðlilegar stærðir):

Innbyrðis afstaðaBil á milli gluggaBrunakrafa
Gluggar í 90° innhornum< 2,0 m
> 2,0 m
Báðir gluggarnir E 30
Engin krafa
Gluggar hvor fyrir ofan annan í hæð< 1,2 m
> 1,2 m
Báðir gluggarnir E 30
Engin krafa
Gluggar í veggjum undir minnst 180°horni< 1,2 m
> 1,2 m
Báðir gluggarnir E 30
Engin krafa
Tafla 1. Fjarlægð milli glugga í útveggjum fjölbýlishúss þar sem brunahólfun er EI 90/REI90.

Sé hæð, breidd eða flatarmál glugga yfir 25% af veggfleti skal hönnuður sýna fram á með útreikningum að stærð, staðsetning og fyrirkomulag glugga sé með fullnægjandi hætti m.t.t. brunaöryggis.

Sjá einnig:
ÍST EN 1991-1-2 - Eurocode 1: Hönnun brunahluta – Hluti 1-2: Almennt – Eldvarnarhönnun.

Í g-lið 2. mgr. 9.2.4. gr. byggingarreglugerðar er jafnframt gerð krafa um brunahönnun fyrir mannvirki eða notkunarflokka innan þeirra sem eru með brunaálag hærra en 800 MJ/m².

Leiði útreikningar hönnuðar í ljós að geislun á ákveðinn hluta eða glugga byggingar m.v. ákveðna hönnun verði hærri en hámarksgildi geislunar sem tilgreint er í lið 3.2 hér að framan, þá ber að endurskoða og uppfæra/endurbæta þá hönnun m.t.t. þess, t.d. með því að:

 • velja meiri fjarlægð milli glugga/glerja í útveggjum,
 • velja hærra brunaþol glugga/glerja í útveggjum,
 • velja minni stærð á gluggum/glerjum í útveggjum,
 • verja gluggana/glerið/bygginguna með öðrum fullnægjandi hætti, t.d. með úðakerfi.

Brunaþol glugga/glerja í útveggjum svo og frágangur allur skal síðan vera í samræmi við útreikninga hönnuðarins og leiðbeiningar viðkomandi glerframleiðanda og þannig að fullnægjandi brunaöryggi sé náð.

Heimildir og tilvísanir

 • Lög um mannvirki nr. 160/2010 með síðari breytingum.
 • Lög um brunavarnir nr. 75/2000 með síðari breytingum.
 • Byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.
 • Leiðbeiningar MVS nr. 9.7.1 ‐ Varnir gegn útbreiðslu elds.
 • Leiðbeiningar MVS nr. 9.7.5 ‐ Bil á milli bygginga.
 • Leiðbeiningar MVS nr. 6.035 – Útveggjaklæðningar og ‐gluggakerfi. Áður leiðbeiningar nr. 135.7.BR1.
 • ÍST EN 1991-1-2 - Eurocode 1: Hönnun brunahluta – Hluti 1-2: Almennt – Eldvarnarhönnun.
 • NFPA® 80A. Recommended Practice for protection of Buildings from exterior Fire Exposures. 2017 Edition.
 • FM Global Property Loss Prevention Data Sheets 1-20. apríl 2014. PROTECTION AGAINST EXTERIOR FIRE EXPOSURE.
 • Brandskyddshandboken # 6, Brandskyddslaget 2017.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við15.5.2019
1.1Yfirlit yfir breytingar8.3.2021