9.7.4. Eldvarnarveggir

Leiðbeiningar

1. Inngangur

Samkvæmt 9.2.1 gr. byggingarreglugerðar eru meginreglur ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur að uppfylli ofangreindar meginreglur. Notkun þeirra í hverju tilfelli er á ábyrgð húseiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Leiðbeiningarnar koma ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti.

2. Almennt um markmið eldvarnarveggja

Eldvarnarveggir eru notaðir í þeim tilgangi að stöðva útbreiðslu elds í stærri byggingum og koma í veg fyrir að eldur fari á milli bygginga sem standa þétt saman. Eldvarnarveggir koma því til viðbótar við brunahólfun en geta verið hluti af meginbrunahólfun stærri byggingar.

Eldvarnarveggir þurfa að vera minnst REI 120–M skv. ÍST EN 1992-1-2 [1] og A2-s1,d0 skv. ÍST EN 13501-1 [2] en meginbrunahólfun getur verið flokki neðar ef brunaálag er undir 800 MJ/m². láréttan brunatæknilegan aðskilnað.

Markmiðið er að þeir standi án inngrips slökkviliðs og því útfærðir miðað við hámarks brunaálag. Eldvarnarveggir þurfa jafnframt að standa þó að bygging sem áföst er við hann brenni til grunna eða falli saman. gera verður ráð fyrir að byggingin geti hrunið þegar líður á brunann án þess að eldvarnarveggurinn hrynji.

Þegar eldavarnarveggur er hluti af steyptu burðarvirki er talið ólíklegt að aðliggjandi burðarvirki hrynji þó brunamótstaða burðarvirkja fari undir R120.

Til dæmis er venja að skilgreina hæðarskil sem REI90 sem geta svo tengst eldvarnarvegg.

Í þeim tilfellum þarf að vera ljóst að mögulegt hrun eftir 90 mínútna staðlað brunaferli [1] [2] má ekki hafa þau áhrif að eldvarnarveggur rofni.

Það sama gildir um undirstöður eldvarnarveggja, en í meginreglu stendur að eldvarnarveggur standi á sjálfstæðri undirstöðu. Mögulegt hrun á aðliggjandi burðarvirki má ekki undir neinum kringumstæðum eyðileggja undirstöður eldvarnarveggjar eða valda því að eldvarnarveggur rofni eða hrynji.

Mynd 1. Eldvarnarveggur, gjarnan notaður á lóðarmörkum þegar ekki er bil á milli húsa.

3. Uppbygging veggjar

Hefðbundin uppbygging eldvarnarveggja er steinsteypa, steinsteypa hefur mjög góða eiginleika þegar kemur að brunamótstöðu burðarvirkja. Steinsteyptir eldvarnarveggir eru einföld og góð lausn sem hefur reynst vel. Það er því mælt með að eldvarnarveggir séu steinsteyptir. Krafa er um að eldvarnarveggir séu byggðir úr óbrennanlegum efnum (A2-s1,d0) og taki því ekki þátt í brunanum. Þessi krafa er einföld þegar um er að ræða steyptan innvegg en steypa uppfyllir þessa kröfu og slíkir veggir eru óbrennanlegir í gegn. Það er ekki bannað að klæða utan á eldvarnarveggi með brennanlegum efnum, t.d. í rými sem snýr að eldvarnarvegg, svo lengi sem það hafi ekki áhrif á virkni veggjarins. Sýna þarf fram á í brunahönnun að veggurinn uppfylli kröfur til eldvarnarveggjar, REI 120-M (A2-s1,d0).

4. Burðarþol og álagsforsendur

Eldvarnarveggir þurfa að lágmarki að vera skilgreindir sem REI 120–M, A2-s1,d0 skv. meginreglu eins og áður hefur komið fram. Skilgreiningin tekur mið af stöðluðu brunaferli skv. ISO 834 [1] og Eurocode 1 [4] og miðar við tiltölulega lítið brunaálag eða undir 800 MJ/m2. Ekki er leyfilegt að skerða brunamótstöðu eldvarnarveggja með því að beita náttúrulegu brunaferli eða skilgreina brunaálag neðar en gert er í þessari grein, þar sem að um meginreglu er að ræða. Með öðrum orðum er ekki hægt að skilgreina eldvarnarvegg neðar en REI 120-M með brunahönnun, ef veggur uppfyllir ekki þá kröfu er hann ekki skilgreindur sem eldvarnarveggur og rökstyðja þarf að það sé ásættanlegt ef við á. Þegar brunaálag eykst umfram 800 MJ/m2 þarf að auka brunamótstöðu eldvarnarveggjar samhliða. Taka getur þurft tillit til brunaafls en ekki bara brunaálags þegar eldvarnarveggur er hannaður. REI 120-M krafan samanstendur af eftirtöldum kröfum;

  • R – burðarþolslegur stöðugleiki veggjarins við bruna.
  • E – heilleiki veggjar við bruna, hleypir ekki logum eða heitu gasi í gegn.
  • I – einangrandi eiginleikar veggjar við bruna.
  • 120 – mínútufjöldi sem REI krafan skal vera uppfyllt í.
  • M – mótstaða gegn láréttu punktálagi eftir 120 mínútna brunaferli.

Krafa um mótstöðu gegn láréttu punktálagi tekur tillit til þess að fallandi byggingarhlutar valdi álagi á vegginn, eftir 120 mínútna brunaáraun. Í ÍST EN 1992-1-2 [1] eru skilgreind viðmið sem veggur skal uppfylla varðandi þykkt og steypuhulu til að uppfylla M kröfuna, til viðbótar við REI kröfuna sem tekur tillit til álagsnýtingar og hvort brunaáraun er beggja vegna við vegginn eða öðru megin. Í tilfelli eldvarnarveggjar er brunaáraun ávallt aðeins öðru megin frá. Lárétt álag á vegginn er skilgreint í ÍST EN 1363-2. Þar er álagið skilgreint sem 200 kg í pendúl sem lyft er í 1,5 m lóðrétta hæð yfir árekstrarstað sem skapar 3000 Nm árekstrarorku.

Mynd 2. Eldvarnarveggur, hús brunnið til grunna öðru megin og hús hinu megin óskemmt.

Brunahönnuður mannvirkis þarf að skilgreina kröfur til eldvarnarveggjar í brunahönnun. Eiginleg hönnun veggjar er svo á höndum burðarþolshönnuðar. Þegar um flóknari mannvirki er að ræða er mikilvægt að tryggja samvinnu hönnuða og í einhverjum tilfellum þarf að liggja fyrir sérstök greining á álaginu M, t.d. álag frá fallandi byggingarhlutum, tengdu burðarvirki eða sprengingum í kjölfar bruna. Almennt er erfitt að átta sig á hverslags álag þetta getur verið en í sumum tilfellum er hætta vegna sprenginga þekkt og þá getur sú áraun verið ráðandi og meiri en sú sem skilgreind er skv. staðlinum.

Þegar eldvarnarveggur er steinsteyptur, lágmark 180 mm þykkur með tvöfaldri járnagrind og hula á járnin er a.m.k. 25mm þá þarf almennt ekki að skila útreikningum á láréttu punktálagi fyrir eldvarnarvegginn nema ef sérstakar aðstæður kalli á aukið álagsþol t.d. vegna sprenginga.

5. Brunaálag og eldvarnarveggir

Ef bygging er með brunaálag yfir 800 MJ/m² skal þó ávallt ákveða aukna brunamótstöðu og frágang veggjar með brunahönnun. Þetta er gert með því að styðjast við staðlað brunaferli eða náttúrulegt brunaferli með kólnun, hvorutveggja skv. þolhönnunarstöðlum (Eurocodes). En leggja þarf í nákvæma greiningu á brunaálaginu og einnig að taka tillit til mögulegs brunaafls í viðkomandi meginbrunahólfi sem snýr að veggnum.

Þegar brunaálag er komið yfir 1.600 MJ/m² og byggingin þrjár hæðir eða hærri má brunamótstaða eldvarnarveggjar ekki fara undir REI 180-M til að samræmast kröfum í viðmiðunarreglu um meginbrunahólf í byggingarreglugerð.

< 800 MJ/m2800 og < 1.600 MJ/m21.600 MJ/m2
BrunamótstaðaREI 120-MREI 180-MREI 240-M
Tafla 1. Brunamótstaða eldvarnarveggja til viðmiðunar.

Notkun vatnsúðakerfa kemur inn í matið eins og þegar verið er að meta kröfur til burðarvirkja í gr. 9.9.3. og því einungis hægt að ýta kröfu niður um einn flokk en þó aldrei niður fyrir REI 120-M sem er lágmarkskrafa skv. byggingarreglugerð.

6. Frágangur á eldvarnarveggjum

Það mikilvægasta við frágang á eldvarnarveggjum er frágangur við þak en þar er mesta hitaáraunin og mesta hættan á að brunamótstaðan skerðist. Sérstaklega þarf að greina þessa hættu þegar eldvarnarveggur nær ekki í gegnum þakið. Besta leiðin er að taka eldvarnarvegg í gegnum þakið eins og sjá má á mynd 4 hér fyrir neðan. Brunakambur skal minnst vera 0,3 m upp fyrir frágengið yfirborð þaks, mælt hornrétt á þakflötinn og út úr útvegg og rjúfi þakkant. Í byggingum þar sem brunaálag er yfir 1600 MJ/m2 er æskilegt að brunakambur nái a.m.k. 0,5 metra upp úr þaki.

Þegar eldvarnarveggur er í innhorni byggingar eða önnur bygging kemur 90° á byggingu á næstu lóð. Þá þarf eldvarnarveggur að ná 8 metra inn í aðra áttina eða 5 metra í báðar áttir. Ef aðrar lausnir eru notaðar þarf að sýna fram á að eldvarnarveggur haldi með útreikningum og áhættumati.

Þetta snýst ekki bara um frágang við þak heldur einnig um þakkant og veggi. Eldvarnarveggur þarf að koma í veg fyrir allan sambruna. Í þeim tilfellum sem t.d. götulínur eru sambyggðar þ.e. ein samfelld húsalengja og því ekkert bil á milli lóða er krafa um eldvarnarveggi. Í slíkum tilfellum þarf að skoða þakkanta, brunamótstöðu veggja, utanhúss klæðningar og mismunandi hæðir þaka þegar eldvarnarveggir eru skilgreindir. Almenna reglan er að taka brunavörn upp í eldvarnarvegg en ekki í þaki lægri byggingar.

Reykháfar, lagnir og raufar fyrir tæknibúnað og þess háttar mega ekki skerða brunamótstöðu eldvarnarveggjar. Almennt er mælt með að takmarka þær lagnir sem fara í gegnum eldvarnarveggi og ef lagnir þurfa nauðsynlega að fara í gegn þarf að tryggja að brunaþéttingin sé a.m.k. jöfn brunahólfi eldvarnarveggjar. Loftræstikerfi eiga almennt ekki að rjúfa eldvarnarveggi, það er bæði um að ræða stór gegnumtök og verið er að treysta á tæknibúnað til að loka á milli brunahólfa. Áreiðanleiki er eitt af aðalatriðum sem þarf að huga að við útfærslu og frágang á eldvarnarveggjum.

Mynd 3. Frágangur á eldvarnarvegg við þak. Brunakambur skal minnst vera 0,3m en 0,5m þegar brunaálag er yfir 1600 MJ/m2.

Eldvarnarveggur skal gerður með þeim hætti, eða merktur sérstaklega utan á húsi, að slökkvilið sjái hvar hann er staðsettur. Eldvarnarveggur með brunakamb er vel sýnilegur og eins þegar um gluggalausa steypta eldvarnarveggi er að ræða. Ef eldvarnarveggir eru faldir, þ.e. ekki hægt að koma auga á þá utan frá, skal annaðhvort merkja skilin utanhúss eða setja inn á brunavarnaruppdrátt/ heimaáætlun sem er aðgengileg slökkviliði við anddyri eða skilgreinda aðkomu slökkviliðs. Tilgangur þess að auðkenna eldvarnarveggi er að auðvelda slökkvistarf, sér í lagi ef brunahólfun heldur ekki og eldur fer að breiðast út um viðkomandi byggingu.

Mynd 4. Frágangur á eldvarnarvegg við þak og þakkant með brunakambi.

7. Viðmiðunarregla fyrir eldvarnarveggi

Viðmiðunarregla 1. Sambyggðar byggingar mega hafa sameiginlegan eldvarnarvegg á lóðarmörkum. Þegar tvær sambyggðar byggingar standa á sitt hvorri lóðinni er leyfisveitanda heimilt að samþykkja tímabundna opnun á eldvarnarvegg á lóðarmörkum enda séu brunavarnir tryggðar með fullnægjandi hætti, sbr. 9.2.5. gr.

Þetta getur t.d. átt við þegar sami eigandi á húsin beggja vegna eldvarnarveggjar og ætlar að nýta húsin saman. Þegar talað er um að brunavarnir séu tryggðar er átt við að opnunin standist almennar kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir. Í slíkum tilfellum þarf að tryggja að eldvarnarveggurinn sé virkur þannig að hurðir veiki ekki vegginn á krítískan hátt. Hefð hefur skapast fyrir því að slíkar hurðir séu EI-60-CS (A2-s1-d0) ef þær tengjast tveimur hlutlausum svæðum eins og t.d. göngum sem eru hólfaðir frá öðrum rýmum. Sama getur átt við ef rýmin beggja vegna eru varin með vatnsúðakerfi sem er rétt hannað miðað við notkun. Ef ofangreind atriði eiga ekki við er ætlast til að brunastúka sé á milli bygginga og að samanlögð brunamótstaða hennar jafngildi kröfum sem eru á eldvarnarveggnum. Hægt er að fá brunahólfandi hurð sem er með EI 120-CS brunamótstöðu.

Annað sem þarf að skoða er stærð grunnflatar hvorrar byggingar og hvernig hún er hólfuð í meginbrunahólf. Í sumum tilfellum getur verið óæskilegt að rjúfa eldvarnarvegg út frá brunavörnum bygginga. Heildar brunavarnir byggingar skulu standast skoðun svo heimilt sé að samþykkja tímabundna opnun eldvarnarveggja Í sumum tilfellum er verið að tala um opnun á eldvarnarvegg, án þess að hurðir eða önnur lokun komi í gatið sem jafngildir brunamótstöðu veggjar. Í slíkum tilfellum er verið að rjúfa eldvarnarvegginn og þarf því að rökstyðja tímabundna opnum með þeim hætti að eldvarnarveggurinn sé óþarfur, með öðrum hætti er ekki hægt að opna vegginn án mótvægisaðgerða.

Viðmiðunarregla 2. Þak skal hafa brunamótstöðu EI 60 á a.m.k. 1,2 m svæði beggja vegna eldvarnarveggjarins. Þegar eldvarnarveggurinn er útveggur skal brunamótstaða þaksins vera REI 60 á a.m.k. 1,2 m svæði inn á þakið. Einnig er heimilt að eldvarnarveggurinn nái minnst 300 mm upp fyrir frágengið yfirborð þaks, mælt hornrétt á þakflötinn og út úr útvegg og rjúfi þakkant.

Þegar sú leið er farin að byggja REI 60 byggingarhluta 1,2m út frá eldvarnarvegg beggja vegna þarf að fara í sérstakar ráðstafanir ef þakvirkið er ekki skilgreint R60. Sú lausn að byggja EI 60 1,2 m út frá eldvarnarvegg án þess að tryggja að sú vörn haldist uppi er til lítils ef hrun verður í þakvirki innan 60 mínútna. Annað sem þarf að huga að eru hreyfingar á þakvirki til dæmis úr stáli við hita sem getur valdið rofi á eldvarnarvegg upp við þakið. Mörg dæmi eru um að frágangur brunahólfandi veggja við létt þakvirki hafi rofnað á fyrstu stigum bruna vegna hreyfinga í leiðurum og þaki í kjölfar hitaþenslu. Það getur því verið einfaldara að taka veggi upp úr þaki til að tryggja nægilega vörn eldvarnarveggja.

Heimildir

  • [1] Eurocode 2: Design of concrete structures - Part 1-2: General rules - Structural fire design. ÍST EN 1992-1-2:2004. (Ásamt leiðréttingum AC:2008 og þjóðarviðauka NA:2010).
  • [2] ÍST EN 13501-1:2007 + A1:2009 Fire classification of construction products and building elements – Part 1: Classification using test data from reaction to fire tests.
  • [3] ISO 834-1:1999. Fire-resistance tests — Elements of building construction — Part 1: General requirements
  • [4] Eurocode 1: Actions on structures – Part 1-2: General actions - Actions on structures exposed to fire. ÍST EN 1991-1-2:2002. (Ásamt leiðréttingum AC:2009 og þjóðarviðauka NA:2010).

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

Útgáfa Lýsing á breytingu: Dags
1.0 Á ekki við 28.06.2022