9.5.4. Ein flóttaleið frá notkunareiningu

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1. gr. byggingarreglugerðar gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) telur að uppfylli ofangreindar meginreglur. Notkun þeirra í hverju tilfelli er á ábyrgð húseiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Leiðbeiningarnar koma ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti. Þegar talað er um eina flóttaleið frá notkunareiningu er t.d. átt við íbúð, verslun eða sér rekstrareiningu í skrifstofuhúsnæði.

2 Erfiðleikar að koma fyrir tveimur flóttaleiðum

Almennt eiga að vera tvær flóttaleiðir úr öllum íbúðum og notkunareiningum skv. gr. 9.5.3. Í einhverjum tilfellum getur verið sérstaklega erfitt að útfæra þær kröfur t.d. þegar lítil notkunareining er umlukin öðrum notkunareiningum, er niðurgrafin eða þannig staðsett að ekki er hægt að koma við öðrum útgangi. Í þeim tilfellum er leyfilegt að samþykkja að hafa eina flóttaleið ef þessum leiðbeiningum er fylgt og rökstuðningur brunahönnuðar í greinargerð fylgir. Þegar tekin er ákvörðun um hvort það sé réttlætanlegt að hafa eina flóttaleið skal líta til öryggis fólks í þessu sambandi að teknu tilliti til þeirrar starfsemi sem fer fram í mannvirkinu.

3 Kröfur til notkunareiningar með eina flóttaleið

Þegar kannað er hvort heimila eigi að hafa eina flóttaleið frá notkunareiningu þarf einkum að meta það út frá öryggi fólks. Helstu áhrifavaldar á það, er eldhætta í rýminu og aðgengi að flóttaleiðinni. Notkunareining með eina flóttaleið ætti að uppfylla öll eftirtalin skilyrði:

a. Í greinargerð brunahönnuðar skal sýna fram á að flóttaleið frá rýminu liggi að öruggum stað og að meginmarkmiðum sé náð.

Dæmi um þetta er ef flóttaleið frá rými á annarri hæð opnast út undir bert loft út á stigapall (eða gang) yfir hurð frá rými á hæðinni fyrir neðan, þá þarf að gæta þess að það sé ekki hætta á því að eldur frá rýminu fyrir neðan geti teppt flótta frá hæðinni fyrir ofan. Í því tilfelli þyrfti stigapallur/gangur að vera steyptur og nægjanlega breiður.

Annað dæmi er ef hurð frá notkunareiningu opnast ekki beint út undir bert loft skal vera a.m.k. EI2 30-CS200 brunahólfandi hurð þegar flóttaleiðin liggur inn á EI 60 gang í flóttaleið samkvæmt 9.5.8. gr. Ef hurðin er í EI 90 brunaskilum (t.d. íbúð í notkunarflokki 3) og opnast inn í annað brunahólf (EI 60 gang) þá skal hurðin vera a.m.k. EI2 60-CS200.

b. Sjálfvirk brunaviðvörun skal vera til staðar samkvæmt 9.4.2. gr.

c. Rýmið skal vera sér brunahólf.

d. Hámarksgöngulengd skal mæld með veggjum og hornrétt á þá samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr. og gönguleiðir reiknast tvöfalt í samræmi við töflu 9.04. Með vatnsúðakerfi má lengja göngulengdir um 30% skv. 4. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr.

e. Innréttingar í rýminu skulu vera með þeim hætti að góð yfirsýn sé að útgangi og hindrunarlausri greiðfærri flóttaleið. Sé yfirsýn takmörkuð skal nota brunaviðvörun, neyðarlýsingu og merkingar sem mótvægi eins og þörf krefur.

f. Meta skal brunaálag og brunaáhættu í notkunareiningum. Sé það meira en almennt gerist skal nota vatnsúðakerfi sem mótvægi eins og þörf krefur. Gott er að miða við að mesti áætlaði brunahraði í rýminu sé meðalhraður (alpha=0.012 kW/s2) sbr. td. staðallinn NFPA 92. Sé brunahraði meiri er æskilegt að sýnt sé fram á í greinargerð brunahönnuðar að það sé í lagi.

Heimildir

  • Lög um mannvirki nr. 160/2010.
  • Lög um brunavarnir nr. 75/2000 með síðari breytingum.
  • Byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.
  • INSTA 950 Fire Safety Engineering – Verification of fire safety design in buildings using a comparative approach.
  • NFPA® 92 Standard for Smoke Control Systems Handbook 2012. Annotated by Tracy Vecchiarelli.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við28.7.2014
1.1Letur stækkað4.7.2018
1.2MVS breytt í HMS og uppsetning löguð7.7.2020
1.3Breyting á byggingarreglugerð. Hámarks stærð þessara rýma tekin út o.fl. Brunahönnun gerð krafa.11.1.2021
1.4Fært úr drögum í útg. 1.43.3.2021
1.5Breyting á upptalningu atriða22.3.2021
1.6Á ekki við23.4.2021