9.6.14. Brunavarnir í loftræsikerfum

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1. gr. byggingarreglugerðar gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis‐ og mannvirkjastofnun telur að uppfylli ofangreindar meginreglur. Notkun þeirra í hverju tilfelli er á ábyrgð húseiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Leiðbeiningarnar koma ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum með fullnægjandi hætti.

2 Aðferðir við hönnun loftræsikerfa

Við bruna myndast yfirþrýstingur í viðkomandi rými. Loft þenst út þegar það hitnar og leitar þangað sem þrýstingurinn er lægri í gegnum óþéttleika á hjúpfleti viðkomandi rými s.s. í gegnum loftstokka eða meðfram þeim. Með heitum reyknum geta einnig fylgt eitraðar lofttegundir sem skapa hættu fyrir fólk og dýr. Yfirþrýstingur í rými heldur áfram að byggjast upp þangað til þrýstingsjöfnun verður t.d. með því að rúður í gluggum springa eða hurðir opnast eða með öðrum hætti. Þegar talað er um reykflæði í loftræsikerfi er átt við þetta aukna rúmmáli lofts, sem myndast vegna aukins hita í rýminu vegna brunans.

Hægt er að nota eftirfarandi aðferðir til að tryggja meginreglur varðandi brunavarnir loftræsikerfa, sem fram koma í 9.6.14 gr. sjá einnig 6.11.5 gr. um bílageymslur.

 1. Með sjálfstæðu loftræsikerfi fyrir hvert brunahólf.
 2. Með brunatæknilegri hönnun.
 3. Gera skal grein fyrir vali á aðferð í greinargerð hönnuða, Þegar kerfið þjónar fleiri en einu rými skal þó huga að hættu vegna elds‐ og reykútbreiðslu milli rýma, sem áhrif getur haft á öryggi fólks t.d. með reyk í flóttaleiðum. Um brunatæknilega hönnun loftræsikerfa samkvæmt aðferð 2 hér að ofan, skal gera grein fyrir með virkni kerfisins í greinargerðum hönnuða.

2.1 Greinargerð hönnuða

Vakin er athygli á að hönnuðir þurfa að skila inn greinargerð samanber 4.5.3 gr. Byggingarreglugerðar 112/2012. Greinargerðir hönnuða eru hluti af hönnunargögnum sem skila þarf til byggingarfulltrúa.
Leiðbeiningar við greinargerðir bruna‐ og loftræsihönnuðar er númer 4.5.3, stafaliður d. fyrir brunahönnun og stafaliður f. fyrir loftræsingu.

2.2 Brunahönnun

Ef brunahönnun liggur til grundvallar brunavörnum loftræsikerfis skulu eftirfarandi þættir koma fram í greinargerðum bruna‐ og loftræsihönnuðar:

 • Forsendur brunaþróunar, þróun brunaafls, stærð rýmis, op og þéttleiki o.s.frv.
 • Útreikningar varðandi reykflæði og niðurstöður.
 • Niðurstöður útreikninga fyrir viðkomandi loftræsikerfi: Reykflæði um kerfið og hitastig.
 • Kröfur til hitaþols blásara og annars búnaðar.
 • Virkni bruna/reyklokunar í kerfinu.
 • Lýsing á brunatæknilegri virkni loftræsibúnaðar, sem nauðsynlegur er fyrir brunavarnir.
 • Útfærsla brunavarna (brunahólfunar) vegna yfirtendraðs bruna. Hér er t.d. um að ræða útfærslu brunaeinangrunar.
 • Lýsing tenginga við önnur kerfi, s.s. brunaviðvörunarkerfi.
 • Staðfestingu á að reykdreifing eigi sér ekki stað eða hún sé innan viðmiðunarreglna byggingarreglugerðar.
 • Annað sem skiptir máli varðandi brunavarnir loftræsikerfisins.
 • Brunavarnir loftræsiklefa og samstæðu.
 • Tími sem brunavarnir loftræsikerfisins skulu virka.

2.3 Teikningar

Á loftræsiteikningum skal eftirfarandi koma fram varðandi brunavarnir:

 • Meginlausnir brunavarna eða vísun í brunatæknilegar útfærslur (t.d. í greinargerð brunahönnuðar).
 • Staðsetningu og gerð á lokum í samræmi við ÍST EN 13501‐3 (brunahólfandi kröfur). Brunahólfun skal koma fram á teikningum.
 • Staðsetning, þykkt og gerð brunaeinangrunar á loftræsistokkum. Tilgreina skal rúmþyngd eingrunar og hvernig hún skuli fest á stokka. Athuga að ekki er nóg að setja eingöngu fram orðið brunaeinangrun þar sem hún er mismunandi eftir kröfum á brunahólf.
 • Kröfur til brunaþols loftræsistokka, samsetning og efnisval.
 • Lýsing á upphengjum sem nauðsynlegar eru vegna burðarþols við bruna.
 • Kröfur til brunaþols blásara og annars rafmagnsbúnaðar sem gegna á hlutverki í brunavörnum. Einnig þarf að gera grein fyrir hvernig tryggja á öruggt rafmagn til viðkomandi búnaðar.
 • Kröfur til reyk og brunalokunar.
 • Kröfur til annars búnaðar, sem gegna á hlutverki við brunavarnir loftræsikerfis.
 • Kröfur til brunaþéttinga. Slíkt má setja fram í almennum texta varðandi kröfur til brunaþéttinga í brunahólfandi skilum auk merkingar á brunahólfum m.t.t. loftræsikerfis.

Tilvísanir

 • ÍST EN 13501‐3 (brunahólfandi kröfur)

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við13.09.2021