8.3.6. Áreitisflokkar og útreikningur kolefnisspors

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Með ákvæðinu er lögð sú skylda á hönnuði að tryggja endingu steypunnar og að umhverfisáhrif hennar séu lágmörkuð. Í þeim tilgangi skal hönnuður reikna út og áætla kolefnisspor steypugerða sem hann skilgreinir í verklýsingu.

2 Uppruni kolefnisspors

Kolefnisspor steypu ræðst af gerð og magni sementsins að mestu leyti, en steinefni og aðrir þættir hafa einnig áhrif. Hlutdeild einstakra framleiðsluþátta er u.þ.b. eftirfarandi:

  • Sement1 => 80-90%
  • Steinefni1, íaukar1, aðrir flutningar2 og framleiðsla steinsteypu3 => 10-20%

Kolefnisspor sements, steinefna og íauka kemur vegna öflunar og flutninga á hráefnum og framleiðslu þeirra og aðrir flutningar tengjast flutningum frá birgjum til framleiðanda. Við framleiðslu steinsteypunnar er síðan kolefnisspor vegna orkunotkun tækja og búnaðar sem þarf til framleiðslunnar.

Nákvæmt kolefnisspor steypugerða er fundið með lífsferilsgreiningu (vistferilsgreining, LCA) viðeigandi þátta og upplýsingar vottaðar af þriðja aðila. Útkoman er vottað skjal sem heitir umhverfisyfirlýsing (EPD).

3 Kolefnisspor áætlað

Ef til er á markaði steypugerð með skilgreint kolefnisspor, sem byggir á vottaðri umhverfislýsingu, getur hönnuður vísað í þá umhverfislýsingu í útboðslýsingu.

Ef vottuð umhverfisyfirlýsing (EPD) liggur ekki fyrir getur hönnuður áætlað kolefnisspor skilgreindrar steypublöndu út frá eftirfarandi forsendum:

Kolefnisspor steypu ( kg CO2/ m3) = Kolefnisspor sements * Magn sements + Viðbót frá öðru en sementi

Ef ekki er fyrirfram ljóst hvaða sementsgerð verður notuð skal hönnuður afla sér upplýsinga um kolefnisspor þeirra sementstegunda sem eru á íslenskum markaði í gegnum birgja eða beint hjá framleiðanda. Viðbúið er að fyrir liggi vottuð umhverfisyfirlýsing á öllum þeim sementegundum.
Á árinu 2022 eru til á markaði tvær gerðir af hreinu óblönduðu sementi (CEM I). Sementsgerðirnar hafa aðeins misjafnt kolefnisspor, annað um 860 kg CO2/tn en hin 730 kg CO2/tn framleitt sement. Hugsanlegt er þó að það endurspegli ekki kolefnisspor þessara sementgerða í steypu því misjafnlega mikið gæti þurft af þeim í steypuna til að uppfylla kröfur. Til einföldunar skal miða við hærri töluna 860 kg CO2/tn. Blandaðar sementsgerðir með t.d. fluguösku eru einnig á markaðnum.
Þær geta haft verulega lægra kolefnisspor.

Reikna skal með að kolefnisspor annarra þátta en sements sé 40 kg CO2/ m3 steypu.

Dæmi um samband kolefnisspors og sementsmagns (CEM I meðaltal) í hverjum framleiddum rúmmetra af steypu (2022 tölur) ef vottuð umhverfisyfirlýsing liggur ekki fyrir væri eftirfarandi:

  • Steypa með 300 kg sement/m3 : 860 kg CO2/(tn framleitt)/m3*0,3 (tn framleitt sement)/m3 + 40 kg CO2/m3 = 298 kg CO2/ m3
  • Steypa með 350 kg/m3 - 341 kg CO2/m3
  • Steypa með 400 kg/m3 - 384 kg CO2/m3

Sementsmagn steypunnar. Beint samband er milli sementsmagns og þrýstistyrks, v/s tölu og loftinnihalds. Í Töflu (að neðan) um áreitisflokka og kröfur til steypu er gefið viðmiðunar sementsmagn og reiknað út kolefnisspor steypugerðar í hverjum áreitsflokki út frá forsendum sem fjallað er um hér að ofan.

Ef vikið er frá kröfum í töflunni þarf að reikna áhrif breytinganna á kolefnissporið.

Ef krafa til v/s tölu steypunnar er aukin úr 0,55 í 0,50 fyrir áreitisflokk XÚ1 þarf að hækka viðmiðunarsementsmagnið úr 320 í 370 kg/m3.

Ef krafa er gerð um loftinnihald 5% í áreitsflokkum XC1 og XC2 hækkar sementsmagnið sem miða skal við um 20 kg/m3.

Tafla miðar við hámarkssteinastærð 25 mm. Ef krafa er gerð um minni kornastærð 16 mm skal reikna með að sement aukist um 15 kg/m3.

Tafla 1. Áreitisflokkar og kröfur til steypu með viðmiðunar sementsmagni og reiknuðu kolefnisspori steypugerðar

4 Tryggja endingu og lágmarka umhverfisáhrif

Mikill munur er á lágmarksbindiefnamagni og viðmiðunarsementsmagni til útreikningar kolefnisspors. Hönnuðir, verktakar og steypuframleiðendur hafa því möguleika að nota umhverfisvænni steypublöndur. Alltaf skal velja steypugerð með það að markmiði að tryggja endingu steypunnar og að lágmarka umhverfisáhrif hennar á líftíma mannvirkisins.

Í töflu 2 er að finna yfirlit yfir viðmiðunarkolefnismagn (sjá einnig töflu að ofan) og mögulega umhverfisflokka sem steypuframleiðendur geta boðið upp á. Áður en þessir flokkar eru skilgreindir skal hafa í huga að þeir séu í boði á þvi markaðssvæði sem framkvæmdirnar eru. Gæta skal sérstaklega að þjálni steypu í lágkolefnisflokkum hæfi steypuframkvæmdinni.

Tafla 2. Viðmiðunarkolefnisspor og mögulegir lágkolefnisflokkar

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við5.12.2022