2.9.3. Áminning og missir löggildingar eða starfsleyfis

Leiðbeiningar

1 Almennt

Í 2.9.3. gr. byggingarreglugerðar eru ákvæði um úrræði Húsnæðis- og mannvirkja-stofnunar (HMS) ef hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar brjóta af sér í starfi. Annars vegar er heimilt að veita þessum aðilum áminningu og í alvarlegri tilvikum getur komið til þess að þeir séu sviptir löggildingu eða starfsleyfi.

Til áminningar eða sviptingar getur komið ef hönnuður, byggingarstjóri eða iðnmeistari:

  • Brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulags- og byggingarmálefni.
  • Vanrækir hlutverk sitt og skyldur.
  • Sýnir af sér ítrekaða eða alvarlega óvarkárni í starfi.

2 Áminning

Brjóti hönnuður, byggingarstjóri eða iðnmeistari af sér í starfi leiðir meðalhófsreglan það af sér að almennt er byrjað á því að veita honum áminningu. Almennt verður því sá sem sviptur er starfsleyfi eða löggildingu að hafa fengið áður áminningu. Til að brot geti leitt af sér sviptingu án undangenginnar áminningar þarf brotið að vera alvarlegt eða að viðkomandi hafi ítrekað brotið af sér.

Áminning hefur þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa viðkomandi fagmanni færi á að bæta ráð sitt. Áhrif áminningar eru annars vegar þau að minna þarf til þess að réttlæta sviptingu löggildingar eða starfsleyfis en ella væri (brot þarf ekki að vera jafn alvarlegt) og hins vegar að afmarka samhengi milli tveggja eða fleiri brota. Síðarnefnda atriðið birtist í því að áminning ætti að öllu jöfnu að vera tímabundin auk þess sem krafa er gerð um að brotin varði hliðstæðar starfsskyldur. Þannig yrði hönnuður til dæmis ekki sviptur löggildingu, þótt hann gegni jafnframt starfi byggingarstjóra og verði uppvís að broti á þeim starfsskyldum sem tengjast því starfi.

Um áminningar gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem um andmælarétt. Einkum er mikilvægt að fullnægjandi gögn liggi fyrir og að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin samanber 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarreglan).

3 Svipting löggildingar eða starfsleyfis

Aðal- og séruppdrættir sem afhentir eru byggingaryfirvöldum vegna byggingarleyfis-umsóknar skulu vera gerðir af hönnuðum sem fengið hafa löggildingu HMS. Á sama hátt geta þeir iðnmeistarar einir borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa löggildingu HMS. Löggilding hefur ekki afmarkaðan gildistíma og hana þarf ekki að endurnýja. Brjóti hönnuður eða iðnmeistari hins vegar af sér í starfi getur HMS að tilteknum skilyrðum uppfylltum svipt þá löggildingunni.

Þeir sem taka að sér starf byggingarstjóra þurfa starfsleyfi HMS. Bæði hönnuðir og iðnmeistarar geta orðið byggingarstjórar. Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur 2.-4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki (menntun og starfsreynsla), hafi sótt sérstakt námskeið sem HMS stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi. Starfsleyfi byggingarstjóra er gefið út til tiltekins tíma, almennt til fimm ára í fyrsta sinn en til allt að tíu ára við endurnýjun.

HMS getur svipt byggingarstjóra starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef byggingarstjóri brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulags- og byggingarmálefni, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða eða alvarlega óvarkárni í starfi.

Um sviptingar löggildingar og starfsleyfa gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem um andmælarétt. Mikilvægt er að fullnægjandi gögn liggi fyrir og að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin samanber 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarreglan). Ákvörðun þarf að rökstyðja og veita viðtakanda ákvörðunar leiðbeiningar um kæruheimild.

4 Tilkynningar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Leyfisveitandi sem verður áskynja um brot hönnuðar, byggingarstjóra eða iðnmeistara skal tilkynna um það til HMS, sbr. 3. mgr. 2.9.3. gr. Nánar er fjallað um tilkynningaskyldu leyfisveitanda í 3.6.3. gr. og 3.7.5. gr. byggingarreglugerðar. Þar segir:

3.6.3. gr. Ófullnægjandi eða röng hönnunargögn

Verði leyfisveitandi var við að hönnuður skilar ítrekað ófullnægjandi eða röngum hönnunar­gögnum ber honum að skrá málsatvik og feril málsins í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Leyfisveit­anda ber að tilkynna Húsnæðis- og mannvirkjastofnun formlega um slík brot með gögnum málsins að veittum andmælarétti hönnuðar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal tilkynna viðkomandi hönnuði um skráninguna og gefa honum færi á að gera athugasemdir. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur einnig að eigin frumkvæði tekið til athugunar, t.d. á grundvelli skráninga í gagnasafn stofnunarinnar eða ytri kvartana, hvort hönnuður hafi vanrækt hlutverk sitt skv. reglugerð þessari.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal yfirfara öll málsatvik í kjölfar tilkynningar eða skráningar skv. 1. mgr. og getur eftir atvikum áminnt viðkomandi hönnuð eða svipt hann löggildingu í samræmi við ákvæði 57. gr. laga um mannvirki.

3.7.5. gr. Vanræksla og önnur sambærileg háttsemi

Komi við úttekt í ljós vanræksla byggingarstjóra og/eða iðnmeistara eða háttsemi af þeirra hálfu sem fer í bága við ákvæði laga um mannvirki og reglugerð þessarar ber leyfisveitanda að skrá málsatvik og feril málsins í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Leyfisveitanda ber að tilkynna Húsnæðis- og mannvirkjastofnun formlega um slík brot. Áður en tilkynning er send Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ásamt gögnum málsins skal byggingarfulltrúi gefa viðkomandi byggingarstjóra eða iðnmeistara kost á að koma að sínum sjónarmiðum og athugasemdum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur einnig að eigin frumkvæði tekið til athugunar, t.d. á grundvelli skráninga í gagnasafn stofnunarinnar eða ytri kvartana, hvort byggingarstjóri og/eða iðnmeistari hafi vanrækt hlutverk sitt skv. reglugerð þessari.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber í kjölfar tilkynninga eða skráninga skv. 1. mgr. að yfirfara öll málsatvik og getur eftir atvikum áminnt viðkomandi aðila eða svipt hann starfsleyfi eða löggildingu eftir því sem við á í samræmi við ákvæði 57. gr. laga um mannvirki.

Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir að leyfisveitandi gefi hlutaðeigandi kost á að koma sínum sjónarmiðum og athugasemdum að áður en málið er sent HMS. HMS fer síðan sjálfstætt yfir málið, aflar eftir atvikum frekari gagna og gefur hlutaðeigandi hönnuði, byggingarstjóra eða iðnmeistara kost á að koma að sínum sjónarmiðum og athugasemdum áður en ákvörðun er tekin í málinu.
HMS lýkur máli, sem hefst með tilkynningu leyfisveitanda, með formlegum hætti. Sé niðurstaðan sú að ekki sé tilefni til viðbragða, m.a. þar sem ekki hafi verið um brot að ræða að mati stofnunarinnar, brot teljist ekki það alvarlegt að það varði áminningu eða sviptingu eða að meint brot teljist ekki nægjanlega leitt í ljós, skal viðkomandi byggingarfulltrúi upplýstur um þær málalyktir.
Áminning er færð í gagnasafn HMS ásamt ákvörðun um sviptingu löggildingar eða starfsleyfis

Tilvísanir

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við15.5.2014
1.1Letur stækkað4.6.2018
1.2MVS breytt í HMS og tilvísun fjarlægð4.2.2020
1.3Yfirlit yfir breytingar15.12.2020