6.2.2. Aðkomuleiðir og umferðasvæði innan lóðar
Leiðbeiningar1 Leiðbeiningar þessar gilda um aðkomuleiðir að byggingum og umferðarsvæðum innan lóðar. Almenn ákvæði um algilda hönnun aðkomu að byggingum er að finna í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) við 6.2.3 gr. 2 Í 3. mgr. 6.2.2 gr. segir: „Almennt skal gæta þess að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga. Hæðarmun skal jafna þannig að allir þeir sem ætla má að fari að inngangi byggingar komist auðveldlega um.“ Hæðarmismun er best að leysa með skábrautum og hallandi aðkomuleiðum án þrepa. Kantur frá til dæmis bílastæði að fláa á gangstétt má að hámarki vera 25 mm hár til að fólk í hjólastól geti farið um hann. Kanturinn er nauðsynlegur fyrir sjónskerta og blinda til að þeir geti farið eftir gangstéttinni með Hvíta stafinn (þreifi staf). Æskilegt er að flái sé í öðrum lit en gangstétt og gata, þannig að sjónskertir sem ekki nota Hvíta stafinn geti betur greint hæðamismun og halla. Hámarks halli á fláa er 1:10 (10 %). Ef hallinn er meiri er hætta á að hjólastóll velti. ![]()
3 Í 4. mgr. 6.2.2 gr. segir: „Huga skal að merkingum fyrir blinda og sjónskerta við afmörkun gönguleiða, til dæmis með litbrigðum eða með breytingu á gerð yfirboðsefnis og fullnægjandi frágangi vegna umferðar hjólastóla. Hæðarbreytingar gönguleiða að byggingum skal merkja greinilega og í samræmi við þá umferð sem ætla má að fari þar um.“ Þegar gönguleið fer ekki um afmarkaðan stíg heldur til dæmis um torg eða opið svæði skal hún vera sýnileg og það á að vera hægt að merkja hana fyrir Hvíta stafinn (þreifi staf). Það er æskilegt að leggja leiðarlínu í yfirborðsefnið til að merkja áttir. Leiðarlínur eiga að vera þannig gerðar að sjónskertir og blindir með Hvíta stafinn (þreifi staf) geti notað þær til að rata. Leiðarlínur er hægt að setja til dæmis á aðkomutorg, torg, strætisvagnastoppistöðvar og til að vísa á inngang mannvirkja og svo framvegis. Leiðarlínur ættu, þar sem því verður við komið, að vera eðlilegur hluti umhverfisins. Með því er átt við að oft er hægt að nota til dæmis kanta, brúnir, grindverk, blómabeð og þess háttar sem leiðarlista. ![]()
Æskilegt er að setja annað yfirborðsefni fyrir framan inngangsdyr til að auðvelda sjónskertum að finna þær. Yfirborðsefni þarf að vera þannig að sjónskertir sjái það auðveldlega og blindir sem nota Hvíta stafinn (þreifi staf) finni auðveldlega fyrir því. Þetta er hægt að gera til dæmis með því að setja niðurfellda rist í sömu hæð og gólfefnið. Hámarksstærð ristargata er 9 mm til að hvíti stafurinn fari ekki í gegnum ristina og að leiðsögu- og hjálparhundar geti gengið yfir þær. Einnig er hægt gera þetta með til dæmis stálplötum, flísum eða hellum sem eru með að hámarki 5 mm háum upphleyptum hnöppum/ munstri. ![]() ![]()
Litamismunur á yfirborðsefnunum skal vera að minnsta kosti 60 mælt í LRV kerfinu (LRV = lysrefleksionsværdi) eða 0,75 á NCS skalanum (hlutfall endurkastshæfni ljóss. NCS = Natural Color System ). Hlutfall endurkasthæfni ljóss fyrir einstaka liti er hægt að nálgast til dæmis í atlas fyrir NCS litakerfið. Hlutfall endurkasthæfni ljóss fyrir einstaka liti dregst hvert frá öðru. Notið til dæmis ljóst upphleypt yfirborðsefni ef aðliggjandi yfirborðsefni er dökkt eða öfugt. Mikill mismunur skal vera á litunum þar sem hann minnkar með tímanum vegna þess að yfirborðsefnin óhreinkast og upplitast. Forðast ber mjög dökka liti á ljósum yfirborðsefnum þar sem þeir geta virkað sem gat (hola) eða hæðarmunur fyrir til dæmis sjónskert fólk og fólk með heilabilun. ![]()
![]() ![]()
Tröppunef er best að merkja lárétt og lóðrétt að hámarki 40 mm á kant með efni sem inniheldur hálkuvörn og í miklum litamismun við tröppurnar. Það auðveldar sjónskertum að sjá þrepbrúnirnar og blindum að finna kantinn með hvítum staf. ![]()
4 Í 5. mgr. 6.2.2 gr. segir: „Lýsing og merkingar við alla gangstíga, hjólastíga, akbrautir og bílastæði skulu henta þeirri umferð sem gert er ráð fyrir á svæðinu. Auk skilta skulu vera yfirborðsmerkingar á gangbrautum yfir akbrautir.“ Lýsing bílastæða og gönguleiða þarf að vera góð og glýjufrí. Huga þarf vel að litavali ljósastæða svo sjónskertir sjái þau betur. Hæð ljósapolla eða umferðarpolla skal vera að lágmarki í mjaðmarhæð svo sjónskertum og blindum stafi ekki hætta af þeim. Best er að vera með ljósastæði með stuttu millibili, að hámarki 10 m. Þannig vísa þau leiðina að inngangi bygginga sem hentar sérstaklega vel fyrir sjónskerta og aldraða. Það kemur sjónskertum og öldruðum einnig vel ef tröppur og skábrautir eru með sterkari lýsingu en almennar gönguleiðir og að inngangar séu með sterkustu lýsingunni. ![]() ![]() Allar merkingar skulu vera skýrar, greinilegar og auðlesnar. Merkja skal eða afmarka alla stóra glerfleti sem eru í gönguleiðum á skýran og greinilegan hátt. Merking skal vera í 0,90 m hæð og í 1,40-1,60 m hæð með áberandi hætti. Á lóðum skulu allar merkingar, upplýsinga- og ratskilti þeirra vera skýrar, greinilegar, auðlesnar, auðskildar og glampafríar. ![]() ![]() Æskilegt er að mikill litamismunur sé á milli bakgrunns og skiltis. Þá er auðveldara að sjá skiltið úr fjarlægð og texti auðlesnari. ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() Hjólabrautir og bílastæði bæði almenn og fyrir hreyfihamlaða skulu vera með yfirborðsmerkingu auk skilta. ![]() ![]()
5 Í 6. mgr. 6.2.2 gr. segir: „Frágangur gangstíga, akbrauta, hjólastíga og bílastæða skal vera þannig að þar verði ekki uppsöfnun vatns og yfirborð skal henta fyrirhugaðri umferð.“ Aðkoma að byggingum og útivistarsvæðum þeirra, frá götu og bílastæðum skulu vera með bundnu og sléttu yfirborðsefni með hálkuvörn og gott er að hún sé upphituð í fullri breidd þar sem þess er kostur. Aðkomuleiðir skulu hafa hliðarhalla 1:40 (2,5 %) að hámarki til að forðast uppsöfnun vatns og þar af leiðandi ísingu. Fúgur flísa og hellna eiga almennt að vera að hámarki 5 mm breiðar. Ef þær eru breiðari er best að fylla þær alveg upp með endingargóðu föstu efni. Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:
|