9.5.3. Aðgengi að flóttaleiðum

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1. gr. byggingarreglugerðar gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.

2 Almennt

Í e. lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að eitt af markmiðum laganna sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Það þýðir m.a. að við hönnun bygginga þurfa hönnuðir að velja gerð og skipulag flóttaleiða með það í huga að allir í viðkomandi rými geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma.

Mynd 1. Flóttaleiðir þurfa að vera greiðfærar fyrir alla.

a Tryggt skal að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður. Taka þarf tillit til fólks sem gætu þurft að yfirgefa viðkomandi rými/byggingu í skyndi og gera skal því ráð fyrir fullnægjandi flóttaleiðum. Gæta þarf þess að björgunarop eða fellistigar nýtast ekki fólki með fötlun sem flóttaleið. Um örugg svæði fyrir fólk með hreyfihömlun er fjallað í leiðbeiningum 9.5.10. - Öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða.

Til að útskýra orðið notkunareining er vísað í skilgreiningu á orðinu notaeining en það er skilgreint í staðlinum ÍST 51:2001 (gr. 2.10) sem:

b „Eitt eða fleiri herbergi sem mynda samstæða heild í byggingu og standa sjálfstætt, samanber ákvæði byggingarreglugerðar. Notaeining afmarkast af útlínum útveggja og miðlínum milliveggja sem aðskilja hana frá öðrum notaeiningum. Dæmi um notaeiningu eru íbúð og verslunar- eða skrifstofueining.“

c Í 9.5.6. gr. - Göngulengd flóttaleiða er tafla 9.04 þar sem fram koma hámarksgöngulengdir flóttaleiða til stigahúss, annars brunahólfs eða útgangs. Þegar hún er notuð er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir í hvaða notkunarflokk mannvirkið fellur. Sem dæmi má nefna að 45 m hámarksgöngulengd er í lagi fyrir skrifstofuhúsnæði (notkunarflokkur 1) á meðan hún er ekki í lagi fyrir verslunarhúsnæði (notkunarflokkur 2).

d Við hönnun flóttaleiða skal tryggt að hægt sé að rýma til baka frá flóttaleið og að annarri, reynist sú fyrri ekki greiðfær samanber 9.5.9. gr. - Dyr í flóttaleið. Það þýðir að dyr í flóttaleið mega ekki læsast og verða aðgangsstýringar að taka mið af þessari kröfu. Dæmi um þetta getur verið hurð í stigagangi sem er ekki greiðfær og viðkomandi þarf að fara í gegnum dyr á næstu hæð enda sé um að ræða sama rekstraraðila til dæmis hótel.

e Svalir eða þök bygginga sem eru sérútbúin til rýmingar skulu brunahönnuð þannig að sýnt sé fram á að hægt sé að nota þau sem örugga flóttaleið vegna bruna miðað við versta tilfelli gagnvart eldi, hitageislun og reyk á meðan beðið er björgunar. Svalir skal ekki nota í flóttaleið fyrir fleiri en 20 manns nema sýnt sé fram á fullnægjandi öryggi fólks með brunahönnun. Ef svalir eru með svalaskýli/svalalokanir, sjá 90. tölulið 1.2.1. gr., þá skulu þær vera með opnanlega glugga sem ekki eru lykillæstir og opna má á fljótvirkan hátt. Nota má hespur, rennilokur eða sambærilegar lokanir. Handföng skulu vera af sömu stærð og venjuleg handföng þannig að gott tak náist. Sérstaklega er mikilvægt að vera ekki með lítil handföng sem beita þarf afli til að opna svalalokunina í íbúðum aldraðra eða annarra sem gætu átt í erfiðleikum með það. Opnunarbúnaður skal vera samþykktur af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sbr. 9.6.17. gr. – Kröfur vegna svalaskýla og tilheyrandi leiðbeiningar HMS.

f Flóttaleiðir úr íbúð eða rekstrareiningu skulu vera á ábyrgð þeirra sem þar dvelja eða eiganda/rekstraraðila og skulu ekki liggja í gegnum aðra íbúð eða rekstrareiningu sem aðrir bera ábyrgð á. Ástæðurnar fyrir þessu eru meðal annars að ekki er tryggt að aðilar í aðlægri íbúð/rekstrareiningu geri ráð fyrir rýmingu úr öðrum rýmum en sínum eigin.

g Í mannvirkjum, þar sem fólk getur safnast saman, sem eru í notkunarflokki 2 og þeim sem eru í notkunarflokki 1, en hafa rými sem flokkast undir notkunarflokk 2, til dæmis móttökur eða rými sem eru opin almenningi, skal gera ráð fyrir að fólk þekki ekki til aðstæðna í húsinu og hanna flóttaleiðir í samræmi við það.

h Sé bygging með rými í notkunarflokki 2, til dæmis móttaka eða rými sem er opið almenningi, skal gera ráð fyrir að fólk þekki ekki til aðstæðna í byggingunni og hanna flóttaleiðir í samræmi við það.

i Þar sem notkunareining eða íbúð er á 2 hæðum skulu vera tvær óháðar flóttaleiðir á báðum hæðum úr sinn hvorum enda eða sem næst þeim til að tryggja öryggi þeirra sem þar eru.

j Við skipulag verslunarrýmis, uppröðun borða í fundarsölum og þess háttar þarf að hafa í huga aðgengi og umferðarleiðir fyrir aldraða og fatlaða, til dæmis þá sem eru í hjólastól, blinda og sjónskertra og heyrnarlausa.

k Taka þarf tillit til dýra sem gætu þurft að yfirgefa viðkomandi rými/byggingu í skyndi og gera ráð fyrir fullnægjandi flóttaleiðum.

3 "Aðgengi fyrir alla"

Um aðgengi fólks er fjallað um í 6. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012., Aðkoma, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja. Í leiðbeiningablöðum um þann hluta er að finna ýmis hagnýt atriði er varða aðgengi fyrir alla sem getur verið gott að skoða.

4 Óháðar flóttaleiðir

Með óháðum flóttaleiðum er átt við að flóttaleiðir í opnum rýmum geti ekki teppst samtímis af einum og sama eldinum þannig að viðkomandi skal eiga möguleika á að minnsta kosti einni öruggri flóttaleið.

a Almenn viðmiðunarregla er, þegar meta skal hvort tveir útgangar séu óháðir, að sjónarhornið milli þeirra, þegar horft er úr rýminu/ salnum, sé ekki minna en 45 gráður. Ef hornið er minna, eru útgangarnir of nálægt hvor öðrum til að teljast óháðir, sjá mynd 2.

Mynd 2. Útskýring á óháðum flóttaleiðum.

b Flóttaleiðir, sem liggja út í sama brunahólf, til dæmis gang, teljast einungis vera einflóttaleið. Þannig myndu útgangarnir á mynd 2 teljast ein og sama flóttaleiðin ef þeir tilheyrðu sama gangi/brunahólfi. Út úr sölum fyrir 150 manns eða fleiri skal þess gætt að hluti flóttaleiðanna liggi beint út úr húsinu en fari ekki í gegnum annað brunahólf.

5 Breytingar á þegar byggðu mannvirki og/ eða breytt notkun

Ef um er að ræða breytingar á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þá skal hönnuður, sem ber ábyrgð á brunavörnum þess, staðfesta að brunavarnir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð.

Ef ekki er hægt að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um brunavarnir nema með því að breyta verulega megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur byggingarfulltrúi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar hvað varðar brunavarnir og fylgt skal meðal annars leiðbeiningum HMS nr. 9.2.5. – Staðfesting brunavarna vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum. Skal hönnuður þá skila byggingarfulltrúa fullgildri brunahönnun um það hvernig öryggi gagnvart bruna og meginmarkmið 9.1.1. gr. séu tryggð.

Heimildir

  • Lög nr. 75/2000 um brunavarnir með síðari breytingum.
  • Lög nr. 160/2010 um mannvirki.
  • Byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.
  • Leiðbeiningarblöð 6. hluta við byggingarreglugerð 112/2012.
  • Aðgengi fyrir alla 2. Útgáfa 2002, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins/Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
  • ÍST 51:2001 – Byggingarstig húsa.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við5.5.2014
1.1Letur stækkað o.fl.3.7.2018
1.2MVS breytt í HMS og tilvísun fjarlægð10.2.2020
1.3Yfirlit yfir breytingar11.1.2020