4.10.1. Ábyrgð og verksvið iðnmeistara

Leiðbeiningar

1 Almennt

Eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 13. gr. laga um mannvirki er að byggingarstjóri hafi afhent leyfisveitanda undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu þeirra húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara sem ábyrgð munu bera á einstökum verkþáttum hinnar byggingarleyfisskyldu framkvæmdar. Þá er einnig skilyrði að skráð hafi verið í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að iðnmeistarar framkvæmdarinnar hafi gæðastjórnunarkerfi.

2 Hvaða iðnmeistarar þurfa að koma að verki?

Skilgreint er í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð hvaða iðnmeistara getur þurft að tilkynna um til leyfisveitanda. Þetta eru:

  • húsasmíðameistarar
  • múrarameistarar
  • pípulagningameistarar
  • rafvirkjameistarar
  • blikksmíðameistarar
  • stálvirkjameistarar
  • málarameistarar
  • veggfóðrarameistarar

Einungis þarf að tilkynna um þá sem nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki. Ekki þarf þó að tilkynna um blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara eða veggfóðrarameistara vegna byggingar íbúðarhúss, frístundahúss, bílskúrs eða viðhalds og viðbyggingar slíkra mannvirkja til eigin nota eiganda. Samkvæmt lögum um mannvirki skal byggingarstjóri tilgreina verksvið iðnmeistara í samningi sínum við iðnmeistara. Honum er því ætlað að leggja mat á það hvaða iðnmeistara þarf til verksins og skilgreina ábyrgðarsvið þeirra. Leyfisveitandi tekur síðan við útgáfu byggingarleyfis afstöðu til þess hvort nægjanlegum ábyrgðaryfirlýsingum iðnmeistara hafi verið skilað. Í lögunum er heimilað að fleiri en einn iðnmeistari á hverju fagsviði beri ábyrgð og undirriti ábyrgðaryfirlýsingu enda beri hver iðnmeistari ábyrgð á skýrt afmörkuðum verkþætti. Ábyrgðaryfirlýsing skal afmarka skýrt til hvaða verkþátta ábyrgð hvers iðnmeistara tekur og vera undirritað af byggingarstjóra, viðkomandi iðnmeistara og öðrum iðnmeisturum sem að fagsviðinu koma.

3 Lögbundin ábyrgð iðnmeistara

Í lögum um mannvirki segir að iðnmeistari beri ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga um mannvirki, laga um byggingarvörur og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Ábyrgð á faglegri framkvæmd einstakra verkþátta er þannig í höndum viðkomandi iðnmeistara og þurfa störf hans og innra eftirlit að miðast við það.

Krafa er um að iðnmeistari hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar. Í leiðbeiningum HMS nr. 4.10.2. Gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara, er lýst nánar hverjar þær kröfur eru. Meðal þess sem iðnmeistari þarf að skrá er lýsing á því hvernig innra eftirliti hans með einstökum verkþáttum er sinnt, skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra, skrá yfir athugasemdir og samskipti við byggingarstjóra vegna framkvæmdar, niðurstöður innra eftirlits ásamt þeim úrbótum sem ráðist var í vegna athugasemda og frábrigða og svo framvegis. Í ljósi ábyrgðar iðnmeistara er afar mikilvægt að þessu sé fylgt.

4 Hvað telst á verksviði hvers iðnmeistara?

Löggilding iðngreina og einkaréttur á starfsemi og notkun starfsheitis í viðkomandi iðngrein byggir á ákvæðum iðnaðarlaga nr. 42/1978 og reglugerðar nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar. Í þeim lögum eða reglugerð er hins vegar ekki skilgreint hvað heyrir til hvers starfssviðs. Í byggingarreglugerð segir að ábyrgðarsvið iðnmeistara vegna mannvirkjagerðar skuli vera í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Í aðalatriðum liggur nokkuð ljóst fyrir hvað er á verksviði til dæmis húsasmíðameistara, pípulagningarmeistara, rafvirkjameistara og svo framvegis. Þó geta í einhverjum tilvikum komið upp vafamál varðandi skil á milli iðngreina, til dæmis milli húsasmíðameistara og múrarameistara við niðurlagningu steypu eða milli húsasmíðameistara og stálvirkjameistara við byggingu stálgrindarhúsa og svo framvegis. Lengi var skilgreint í byggingarreglugerð hvað tilheyrði verksviði hvers iðnmeistara en þau ákvæði voru felld niður með reglugerð nr. 360/2016. Tilgangur niðurfellingarinnar var að auka sveigjanleika reglnanna og gefa byggingarstjóra meira svigrúm til að ákveða verksviðið, að sjálfsögðu innan ramma iðnlöggjafar. Vilji byggingarstjóri áfram byggja á afmörkun hinnar brottföllnu reglugerðar getur hann tekið þær upp í samningi sínum við iðnmeistara. Skilgreiningarnar er að finna í viðauka við leiðbeiningar þessar.

Auk meistarabréfs sem gefið er út á grundvelli iðnaðarlaga þurfa iðnmeistarar sem vilja skrifa upp á verk (bera ábyrgð á einstökum verkþáttum) löggildingu HMS samkvæmt lögum um mannvirki. Þeir sem fengið höfðu hliðstæð réttindi, það er löggildingu umhverfisráðherra eða staðbundna viðurkenningu byggingarnefndar, í gildistíð eldri laga halda þeim réttindum.

HMS heldur skrá yfir löggilta iðnmeistara og er hún birt á vefsíðu stofnunarinnar hms.is. Þar er einnig að finna yfirlit yfir marga þá iðnmeistara sem hafa staðbundna viðurkenningu byggingarnefnda.

5 Lögbundið hlutverk og ábyrgð byggingarstjóra

Mikilvægt er að iðnmeistarar geri sér grein fyrir samspili ábyrgðar iðnmeistara og byggingarstjóra. Byggingarstjórinn er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans. Byggingarstjóra er ætlað að gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma.

Byggingarstjóri skal hafa virkt eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Verði byggingarstjóri við eftirlit var við ágalla á verki iðnmeistara eða hönnuðar skal hann gera viðkomandi aðvart og krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs tíma. Athugasemdir byggingarstjóra skulu skráðar á viðeigandi hátt í gæðastjórnunarkerfi hans og annarra hlutaðeigandi. Sé athugasemdum byggingarstjóra ekki sinnt eða um ítrekaða vanrækslu að ræða skal hann tilkynna það eiganda. Komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja má til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, ber byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit hans. Þannig ber iðnmeistari ávallt faglegu ábyrgðina og breytir þá engu þó að byggingarstjóri kunni í einhverjum tilvikum að vera ábyrgur fyrir ágöllum ásamt iðnmeistaranum.

Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Samsvarandi gildir um uppsögn iðnmeistara. Byggingarstjóri skal gera skriflegan samning við iðnmeistara sem hann fær til verksins í umboði eiganda. Í samningi skal eins og áður segir koma fram á hvaða verkþáttum iðnmeistari ber ábyrgð. Með hliðsjón af ríkri ábyrgð byggingarstjóra hefur verið talið eðlilegt að hann hafi um það að segja hvaða iðnmeistarar séu ráðnir til verksins. Þannig getur hann gætt hagsmuna eigandans með því að samþykkja aðeins þá iðnmeistara sem hann treystir til að inna verkið faglega af hendi og í samræmi við lög. Tiltekið er sérstaklega í lögunum að samningar byggingarstjóra við iðnmeistara skuli gerðir skriflega og að þeir séu gerðir í umboði eiganda.

Nánar er fjallað um ábyrgð byggingarstjóra í leiðbeiningum HMS nr. 4.9.1. Kröfur, samningur byggingarstjóra og eiganda.

6 Iðnmeistaraskipti

Hætti iðnmeistari umsjón með verki áður en hans þætti við mannvirki er lokið skal byggingarstjóri sjá um og bera ábyrgð á að nýr iðnmeistari taki við störfum án tafar og skrá það í gagnasafn HMS. Byggingarstjóri skal sjá til þess að framkvæmdir við þá verkþætti sem fráfarandi iðnmeistari bar ábyrgð á og hafði umsjón með séu stöðvaðar þar til nýr iðnmeistari hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu og hún hefur verið skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra gagnasafn HMS. Jafnframt skal ábyrgðaryfirlýsingin send leyfisveitanda.

Byggingarstjóri skal gera stöðuúttekt á þeim verkþáttum sem fráfarandi iðnmeistari hafði umsjón með og skulu bæði fráfarandi iðnmeistari, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina ásamt byggingarstjóra. Stöðuúttekt skal skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra og gagnasafn HMS. Nýr iðnmeistari ber ábyrgð á þeim verkþáttum sem unnir eru eftir að hann tekur við starfinu.

Tilvísanir

Viðauki

Unnt er að nota eftirfarandi verkaskiptingu til viðmiðunar við tilgreiningu byggingarstjóra á verksviði einstakra iðnmeistara.

I. Ábyrgðarsvið húsasmíðameistara

Húsasmíðameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber meðal annars ábyrgð á að öll trésmíðavinna sé framkvæmd í samræmi við hönnunargögn og góða starfshætti, þar með talið:

a. Steypumót og allir stokkar og göt sem í þau koma, m.a. vegna lagna,
b. uppsetning og frágangur eininga úr timbri, uppsetning, afrétting og uppsláttur vegna eininga úr steinsteypu svo og samsvarandi frágangur eininga úr öðrum efnum sem geta talist sambærilegar,
c. veggklæðningar með raka-, hljóð- og eldvörn ásamt einangrun og loftun eftir því sem við á ásamt tilheyrandi hurðum og dyrabúnaði,
d. frágangur og ísetning glugga, sem og gerð glugga þegar hann annast hana,
e. þak-, loft- og gólfklæðningar með raka-, hljóð- og eldvörn ásamt einangrun og loftun eftir því sem við á,
f. að lóð sé jöfnuð í rétta hæð og
g. frágangur einangrunar hvort sem hún er lögð laus á plötu, í grind eða sett í steypumót
h. frágangur annarra eldvarna er varða þætti sem hann ber ábyrgð á

Húsasmíðameistara er heimilt að annast og bera ábyrgð á grunngreftri, sprengingum og fyllingu í og við grunn og þjöppun.

II. Ábyrgðarsvið múrarameistara

Múrarameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber meðal annars ábyrgð á að allt múrverk og steypuvinna sé framkvæmd í samræmi við hönnunargögn og góða starfshætti, þar með talið er:

a. Grunngröftur og sprengingar
b. niðurlögn steinsteypu og eftirmeðhöndlun hennar
c. öll hleðsla
d. múrhúðun, ílagnir og vélslípun
e. öll flísalögn
f. öll járnalögn
g. fylling í og við grunn og þjöppun hennar
h. frágangur á einangrun undir múrvinnu
i. frágangur eldvarna er varða þá þætti sem hann ber ábyrgð á

III. Ábyrgðarsvið pípulagningarmeistara

Pípulagningameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber ábyrgð á að pípulagnir séu framkvæmdar í samræmi við hönnunargögn og góða starfshætti, þar með talið er:

a. Allar frárennslis- og jarðvatnslagnir og efsta fylling að og undir slíkar lagnir ásamt útloftun þeirra og hæðarsetningu niðurfalla
b. lagnir varðandi vatnsúðakerfi og slöngukefli
c. lagnir varðandi hitakerfi, heitt og kalt vatn og einangrun slíkra lagna
d. gaslagnir og tilheyrandi öryggisbúnaður
e. uppsetning hreinlætistækja og tenging þeirra
f. tenging þak- og svalaniðurfalla við frárennslislögn
g. að rotþrær séu gerðar samkvæmt uppdráttum
h. uppsetning stýritækja að því er varðar starfssvið hans
i. frágangur eldvarna er varða þá þætti sem hann ber ábyrgð á

IV. Ábyrgðarsvið rafvirkjameistara

Rafvirkjameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber m.a. ábyrgð á að allar raflagnir séu framkvæmdar í samræmi við hönnunargögn og góða starfshætti, þar með talið er:

a. Pípur fyrir heimtaugar og sökkulskaut
b. allar pípur fyrir raflagnir í steinsteypu og létta veggi
c. staðsetning allra dósa og taflna í veggi, loft og gólf
d. allar tengingar og endafrágangur raflagna
e. uppsetning kynditækja að því er varðar starfssvið hans
f. uppsetning eldvarnarbúnaðar og annars öryggisbúnaðar að því er varðar starfssvið hans
g. uppsetning og tenging stýritækja að því er varðar starfssvið hans
h. uppsetning og tenging á rafbúnaði
i. frágangur eldvarna er varða þá þætti sem hann ber ábyrgð á

V. Ábyrgðarsvið blikksmíðameistara

Blikksmíðameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber ábyrgð á að öll blikksmíðavinna sé framkvæmd í samræmi við hönnunargögn og góða starfshætti þar með talið er:

a. Þakrennur og niðurföll bæði frá þökum og svölum
b. læstar eða lóðaðar þunnplötuklæðningar
c. allar stokkalagnir fyrir loftræsikerfi
d. allar stokkalagnir fyrir lofthita- eða loftkælikerfi
e. einangrun og allur búnaður stokkalagna
f. uppsetning stýritækja að því er varðar starfssvið hans
g. frágangur eldvarna er varða þá þætti sem hann ber ábyrgð á

VI. Ábyrgðarsvið málarameistara

Málarameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber ábyrgð á að öll málningar-vinna við mannvirkið, utan sem innan og öll undirbúningsvinna fyrir málun sé framkvæmd í samræmi við verklýsingar, önnur hönnunargögn og góða starfshætti. Ábyrgð hans tekur þó ekki til fullmálaðra, aðkeyptra byggingarhluta.

VII. Ábyrgðarsvið veggfóðrarameistara

Veggfóðrarameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber m.a. ábyrgð á að öll vinna við veggfóðrun sé framkvæmd í samræmi við verklýsingar, önnur hönnunargögn og góða starfshætti þar með talið er:

a. Frágangur gólfefna og undirbúningsvinna eftir því sem við á
b. frágangur gólflista eftir því sem við á
c. lagning veggfóðurs, strigaefna og dúka á loft og veggi

VIII. Ábyrgðarsvið stálvirkjameistara

Stálvirkjameistari, sem staðfest hefur ábyrgð sína á verki, ber ábyrgð á að öll vinna við stálvirki, svo sem uppsetning stálmannvirkja svo og öll vinna við samsuðu á stállögnum fyrir gas, gufu, loft, olíu og aðrar þrýstilagnir, sé framkvæmd í samræmi við verklýsingar, önnur hönnunargögn og góða starfshætti.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing a breytingu:Dags.
1.0 Á ekki við14.7.2017
1.1 Letur stækkað12.6.2018
1.2 8. breyting byggingarreglugerðar3.1.2019
1.3 MVS breytt í HMS og tilvísanir fjarlægðar4.2.2020
1.4 Yfirlit yfir breytingar15.12.2020