9.2.4. Krafa um brunahönnun og áhættumat

Leiðbeiningar

1 Inngangur

Samkvæmt 9.2.1 gr. byggingarreglugerðar eru meginreglur ávallt ófrávíkjanlegar en
viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar með tækniskiptum eða brunahönnun enda sé sýnt fram
á að brunaöryggi sé ekki skert og uppfyllt séu meginmarkmið reglugerðarinnar og
meginreglur þeirra ákvæða sem vikið er frá.
Í þessum leiðbeiningum eru settar fram almennar viðmiðanir sem Húsnæðis- og
mannvirkjastofnun telur að uppfylli ofangreindar meginreglur. Notkun þeirra í hverju tilfelli
er á ábyrgð húseiganda eða viðkomandi hönnuðar eftir því sem við á. Leiðbeiningarnar koma
ekki í veg fyrir að aðrar lausnir séu valdar enda séu þær rökstuddar af viðkomandi hönnuðum
með fullnægjandi hætti.

2 Almennt

Markmiðið með þessari grein er að skilgreina kröfu um brunahönnun mannvirkja en einnig að
skilgreina kröfuna um áhættumat vegna bruna- eða sprengihættu. Greinin sjálf útskýrir vel í níu
liðum hvaða mannvirki skal brunahanna en fara þarf sérstaklega yfir hvaða mannvirki þarf að
vinna áhættumat fyrir og hvaða markmiðum slíkt mat á að ná. Áhættumat vegna bruna eða
sprengihættu felst í að metnum líkindum á íkviknun, sprengingum, virkni búnaðar sem snýr að
umræddum ógnum og mögulegum afleiðingum í kjölfar þessara atburða.
Fjallað er um að leyfisveitandi getur ávallt farið fram á að gerð sé brunahönnun og áhættumat
fyrir mannvirki og lóðir í tengslum við veitingu byggingarleyfis. Þetta getur bæði átt við þegar um
er að ræða mannvirki utan þeirra flokka sem taldir eru upp í greininni eða gagnvart
áhættugreiningum sem er algengara. Oft gleymist að skila inn áhættugreiningu með markvissum
hætti með mannvirkjum eða lóðum sem augljóslega kalla á slíka greiningu. Áhættugreiningin
getur að hluta verið innifalin í brunahönnuninni en í þeim tilfellum sem krafa er um
áhættugreiningu á að skila henni sérstaklega og gera grein fyrir þeim forsendum sem liggja að
baki. Algengt er að slökkviliðsstjóri, sem er umsagnaraðili, óski eftir við leyfisveitanda að farið sé
fram á áhættugreiningu og eins og segir í greininni skal slík krafa rökstudd af hálfu leyfisveitanda
sé þess óskað.
Þetta þýðir að slökkviliðsstjóri/leyfisveitandi þarf að skilgreina hvers vegna mannvirki eða lóð séu
varasöm m.t.t. eld- eða sprengihættu, eða mannvirki sé samfélagslega mikilvægt, eða hvernig
mannvirki eða starfsemi geti skapað almannahættu, haft áhrif á landnotkun eða valdið
alvarlegum umhverfisspjöllum. Hér er átt við stuttan rökstuðning sem byggir á staðreyndum sem
fram hafa komið í byggingarleyfisumsókn um mannvirkið, lóðina eða notkun, en einnig þegar um
skort á upplýsingum er að ræða. Jafnframt getur þetta átt við þegar leyfisveitandi telur að magn
hættulegra efna, brunaálag eða brunaáhætta gefi tilefni til frekari greininga.

3 Brunahönnun

Eins og fram hefur komið gerir greinin sjálf vel grein fyrir þeim mannvirkjum sem krefjast
brunahönnunar. Í greininni er farið yfir allar tegundir mannvirkja sem krefjast brunahönnunar og
tekið mið af fólksfjölda, mikilvægi og áhættu. Það er því almenn krafa um brunahönnun fyrir utan
minni mannvirki í notkunarflokki 1, 2 og 3. En þrátt fyrir það þarf að gera grein fyrir brunavörnum
í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar þó ekki sé krafa um brunahönnun allt eftir umfangi
hvers mannvirkis og hvaða flokki það tilheyrir.

a. Mannvirkja þar sem vænta má mikils mannsöfnuðar eða þar sem geymd eru mikil verðmæti.

Þetta gildir fyrir stórar hallir og íþróttamannvirki sem og fyrir samkomusali sem ætlaðir eru fyrir minni viðburði, t.d. tónleika, veislur eða trúarathafnir. Til viðmiðunar má horfa til viðmiðunarreglna 9.5.9 gr. brgl Dyr í flóttaleið. Í fjórðu viðmiðunarreglu kemur m.a um opnunarbúnað hurða vegna fólksfjölda en þegar salur eða rými er komið með 150 manns eða fleiri telst vera mannsöfnuður í viðkomandi rými. Einnig getur þetta átt við þegar mörg minni rými eru í sama húsinu og samanlagður fjöldi sem notar sömu flóttaleið fer yfir 150 manns. T.d. minni verslunarmiðstöðvar þó ekki
sé gert ráð fyrir 150 manns í hverri verslun.
Þegar talað er um mannvirki þar sem vænta má að mikil verðmæti verði geymd er átt við sérstök verðmæti sem ekki er auðvelt að bæta ef bruni verður í viðkomandi mannvirki.

b. Mannvirkja sem eru menningar- eða samfélagslega verðmæt eða þar sem geymd eru slík verðmæti.

Þegar talað er um mannvirki þar sem vænta má að menningar- eða samfélagsleg verðmæti verði geymd er átt við verðmæti sem ekki er auðvelt að bæta eða endurheimta ef bruni verður í viðkomandi mannvirki. Hér má nefna söfn eins og t.d. minjasöfn, listasöfn, náttúruminjasöfn eða önnur sambærileg söfn. En þetta getur einnig átt við skjalasöfn, bókasöfn eða gagnaver sem hýsa mikilvægar upplýsingar eða afrit.

c. Mannvirkja er varða almannahagsmuni sérstaklega, þ.e. geta haft áhrif á virkni samfélagsins, t.d. stærri flugstöðvar og meginsamgöngumiðstöðvar, mikilvæg mannvirki vegna orkuframleiðslu og dreifingar orku eða vatns, miðstöðvar löggæslu, almannavarna og slökkviliða, sjúkrahús og aðrar mikilvægar heilsustofnanir.

Ofangreindur liður krefst ekki frekari útskýringa.

d. Mannvirkja þar sem hættuleg starfsemi fer fram eða þar sem vænta má að stórbrunar eða sprengingar geti orðið vegna starfseminnar, s.s. birgðageymslur eða framleiðsla eld- og sprengifimra efna, eldnærandi efna, eiturefna og efna sem geta valdið mengun í umhverfinu. Staðsetja ber og hanna slík mannvirki þannig að hættan í nánasta umhverfi þeirra sé í lágmarki, t.d. vegna varmageislunar, reyks, eitrunar og þrýstings vegna sprengingar.

Ofangreindur liður krefst ekki frekari útskýringa.

e. Mannvirkja í notkunarflokkum 5 og 6.

Þar sem mannvirki í þessum notkunarflokkum eru krítískari m.t.t. öryggis fólks krefjast þær meiri ígrundunar, m.a. á flóttaleiðum, rýmingu og reykútbreiðslu innan byggingar, sem tekið skal á í brunahönnun. Þeir sem dvelja í þessum byggingum treysta almennt á aðstoð starfsfólks við rýmingu.

f. Mannvirkja með stærri samanlagðan gólfflöt en 2.000 m².

Þetta þýðir að allar stærri byggingar skal brunahanna og er litið til samanlagðrar stærðar mannvirkis. Eina undantekning á þessu er þegar eldvarnarveggur samanber 9.7.4 gr brgl skiptir byggingum upp jafngilt því að um tvær byggingar sé að ræða.

g. Mannvirkja eða notkunarflokka innan þeirra með brunaálag hærra en 800 MJ/m².

Þetta þýðir að til dæmis almennt geymsluhúsnæði þarf að brunahanna þar sem búast má við að brunaálag fari yfir 800 MJ/m². Þannig geta litlar byggingar (<2000 m²) í notkunarflokki 1 krafist brunahönnunar.

h. Mannvirkja sem eru þannig gerð, staðsett eða starfsemi innan þeirra þess eðlis að slökkvilið sé á einhvern hátt vanbúið til að ráða við eld í því.

Þetta gildir almennt fyrir mannvirki sem eru utan þéttbýlis eða þar sem lengra er í slökkvilið en 15 mínútur. Þessi liður á einnig við sérhæfðan iðnað eða starfsemi sem getur verið umfram það viðbragð sem er í viðkomandi sveitarfélagi eða á viðkomandi svæði. Þannig er markmiðið að í brunahönnun verði lagt mat á hvaða viðbragð sé æskilegt og hvort fara þurfi í auknar varnir vegna slíks viðbragðs.

i. Háhýsa.

Allar byggingar yfir 23m, sem eru byggingar yfir 8 hæðum en geta líka verið 8 hæða byggingar í þeim tilfellum sem um er að ræða aukna salarhæð. Þegar bygging er skilgreind sem háhýsi þarf slökkvistarf að geta farið fram innan úr byggingunni þar sem ekki er hægt að treysta á slökkvistarf utan frá en slíkt hefur bæði áhrif á mögulega björgun fólks og hefur jafnframt áhrif á möguleika til slökkvistarfs. En með brunahönnun skal taka tillit til þessara þátta og gera grein fyrir þeim.

4 Áhættumat

Markmið, skilgreiningar og hugtök

Áhættumatið hefur það að markmiði að halda áhættu innan ásættanlegra marka. Áhættumatið getur einnig verið hluti heildar áhættustjórnunar, þar sem nauðsynlegt er að tryggja að áhættan verði ásættanleg til lengri tíma þrátt fyrir breytingar í umhverfi og aðstæðum. Ferli áhættumats skv. ISO 31000:2018 má sjá á mynd 1.

Mynd 1. Þættir í áhættumati samkvæmt ISO 31000:2018.

Áhættumat (e. Risk Assessment) felst í því að greina áhættu út frá líkindum á að þær eigi sér stað og hvaða afleiðingar þær geti haft, en þannig má leggja mat á mismunandi áhættur/atburði. Í þessu samhengi snýst þetta um brunaöryggi, sprengingar og áhrif þess á umhverfi. Hér er verið að tala um áhættumat vegna bruna eða sprengihættu og hvaða afleiðingar slíkt getur haft á viðkomandi mannvirki/lóð og/eða umhverfi. Hér þarf að byrja á því að finna og skilgreina atburðina, þ.e. þær áhættur sem geta átt við fyrir viðkomandi tilfelli. Því næst þarf að meta líkindin á atburðum (t.d. líkindi á íkviknun eða sprengingum). Taka þarf tillit til þess varnarbúnaðar sem settur er upp til að verjast atburðinum eða draga úr áhrifum og auðvitað meta líkur á virkni búnaðar sem snýr að umræddum ógnum. Því næst þarf að meta afleiðingar í kjölfar þessara atburða. Stundum er sett upp svo kallað áhættufylki til að bera saman líkindi og afleiðingar, en þannig getur þurft að endurskoða hönnun ef líkindi eru of mikil í samanburði við afleiðingar viðkomandi atburðar. Einnig þarf að bera saman mismunandi áhættur og jafnvel að setja í samhengi við aðrar þekktar áhættur.
Stundum er talað um áhættugreiningu í staðinn fyrir áhættumat en í reynd er áhættugreiningin hluti af áhættumatinu. Áhættugreining snýst um að kortleggja áhættur sem fylgja viðkomandi starfsemi, hér með hliðsjón af bruna og sprengihættu, sjá mynd 1. Áhættugreining felst svo í að leggja mat á þær áhættur sem búið er að greina með hliðsjón af líkindum og afleiðingum, meta hvort áhætta sé ásættanleg (e. acceptable) eða hvort endurskoða þurfi forsendur. Í báðum þessum tilfellum þarf að skilgreina allar forsendur og aðferðafræði sem stuðst er við í viðkomandi greiningu/mati.
Ef áhættan er ekki talin ásættanleg (þ.e. of mikil) skal auka varnir til að minnka áhættu. Slíkt ferli er nefnt áhættumeðferð.
Næsta skref á eftir er svo áhættustjórnun, þegar áhættugreiningu og áhættumati er lokið, en það snýst um að ákvarða nauðsynlegar aðgerðir til að fjarlægja, minnka eða stjórna áhættu.

Áhættumat leggur grunn að markvissum aðgerðum áhættustjórnunar, með því að reyna að minnka áhættu með sem minnstum tilkostnaði.
Áhættumat er hluti áhættustjórnunar. Í mörgum tilvikum er mikilvægt að huga að öllum þáttum áhættustjórnunar vegna þeirrar áhættu sem greind hefur verið. Gera má ráð fyrir að efnahætta og meðhöndlun búnaðar sem veldur sprengihættu þarfnist t.d. stöðugrar áhættu- og öryggisstjórnunar til að tryggja ásættanlega áhættu. Mynd 1 sýnir dæmigert ferli áhættustjórnunar [1], þar sem í upphafi eru umfang, samhengi og viðmið skilgreind. Því næst fer fram eiginlegt áhættumat þar sem borin eru kennsl á áhættur, þær greindar og lagðar mat á vægi þeirra. Ef áhætta er metin óásættanlega há eru mótvægisaðgerðir skilgreindar, þá er Hættumat framkvæmt aftur. Samhliða áhættumati fer fram vöktun og rýni á áhættumati ásamt samskiptum og samráði við viðeigandi aðila. Þegar áhættumati er lokið með ásættanlegri niðurstöðu eru niðurstöður þess skráðar og miðlað til viðkomandi aðila er málið varðar, til að mynda hönnuðir, slökkvilið, byggingarfulltrúi, framkvæmdaraðili, eigandi eða aðrir.

Mynd 2. Ferli áhættustjórnunar samkvæmt ISO 31000:2018.

Við mat á heildar áhættu skal einnig taka tillit til viðnámsþróttar (e. robustness) brunavarna og leitast við að tryggja að þær geti virkað til lengri tíma. Eigið eldvarnareftirlit er mikilvægt í öllum byggingum til að tryggja brunavarnir í starfseminni.

5 Aðferðarfræði

Til eru tvær leiðir til að framkvæma áhættumat en það er annarsvegar með samanburðargreiningu og hinsvegar með tölulegri greiningu/tölulegum viðmiðum. Aðferðirnar sem notaðar eru við áhættugreinigar er kallaðar megindlegar eigindlegar eða hálf megindlegar og eru útskýrðar hér að neðan.

Samanburðargreining

Samanburður á áhættu hannaðrar lausnar og áhættu lausnar sem byggingarreglugerðin hefur
skilgreint sem ásættanlegt. Nota skal megindlegar greiningar (sjá neðan) þegar hægt er að
koma slíku við og hægt er að nálgast töluleg gögn. Sérstaklega er vísað í INSTA 950 Fire Safety
Engineering – Comparative method to verify fire safety design in buildings [2].
Samanburðargreining getur einnig verið framkvæmd með eigindlegri greiningu, þegar lagt er
mat á mismunandi lausnir.

Töluleg greining/töluleg viðmið

Þegar áhætta er borin saman við viðurkennd viðmið áhættu t.d. um einstaklingsáhættu (t.d. líkur á að einstaklingur verði fyrir skaða) eða samfélagsáhættu (t.d. með notkun F-N línurita).
Sérstaklega er vísað í eftirfarandi heimildir við gerð áhættumats, en aðferðir takmarkast þó ekki við þær:

ISO 16732-1:2012 Fire safety engineering — Guidance on fire risk assessment [3],
INSTA 950 Fire Safety Engineering – Comparative method to verify fire safety design in buildings [2]
NFPA 551 Guide for the Evaluation of Fire Risk Assessments [4].

Gera skal grein fyrir tölfræði með vísun í heimildir og meta gögn með hliðsjón af verkefninu
og þeim aðstæðum sem þar eru uppi.

Megindleg (e. quantitative) áhættugreining

Megindlegar greiningar byggja á tölulegum gögnum. Hér er t.d. átt við líkurnar á að ákveðnar öryggisvarnir virki ekki, og hvaða áhrif það hafi á niðurstöðurnar. Dæmi er þegar meta skal áhrif vatnsúðakerfis á brunavarnir. Til eru gögn um virkni margskonar brunatæknilegra kerfa byggt á tölfræði, í ýmsum löndum.
Fyrir greiningu á virkni brunatæknilegra kerfa er almennt notuð bilanatré (e. fault tree) og atburðatré (e. event tree).

Eigindleg (e. qualitative) áhættugreining

Eigindleg áhættugreining getur átt við þegar ekki eru til tölfræðileg gögn, t.d. þegar meta þarf áhættu í víðara samhengi stjórnunar og ytra umhverfis.
Heildar áhættumat getur verið sambland af megindlegri greiningu, fyrir þann hluta þar sem töluleg gögn eru til, og að hluta til eigindleg.

Hálf megindleg (e. semiquantitative) áhættugreining

Hálf megindleg áhættugreining getur nýtt tölulega greiningu á afleiðingum eða líkum. T.d. getur verið æskilegt að nota brunatæknilegar greiningar á afleiðingum í bilanatré, þó svo að líkur á tölfræði fyrir líkur á hverjum atburði liggi ekki fyrir.
Heildar áhættumat byggingar eða svæðis gefur sambland af megindlegri greiningu, fyrir þann hluta þar sem töluleg gögn eru til, og að hluta til eigindleg.

Gera skal grein fyrir tölfræði með vísun í heimildir og meta gögn með hliðsjón af verkefninu og þeim aðstæðum sem þar eru uppi.
Til grundvallar vali á vörnum getur legið kostnaðar-ábatagreining eða aðrar forsendur sem lúta t.d. að kostnaði, útliti og formi byggingar eða notkunar byggingar eða lóðar. Slíkt mat er almennt ekki krafa um að sýna fram á til samþykktar áhættugreiningar, en getur verið mikilvægur hluti varðandi val á stýringum áhættu.
Áhættugreiningin sjálf er tæknileg greining áhættunnar, þar sem beita þarf viðurkenndum aðferðum. Ein aðferðin við megindlegar og hálf megindlegar greiningar er að nota atburðatré (e. event tree) þar sem þeir atburðir sem hafa áhrif á t.d. þróun eldsvoða eru tengdir saman. Á mynd 3 hér fyrir neðan er dæmi um slíkt atburðartré úr SFPE handbókinni [X]. En hægt er að finna líkur á virkni búnaðar í handbókum, stöðlum og leiðbeiningum ýmiskonar.
Þegar bera á saman virkni kerfa, t.d. þegar verið er að meta áhrif þess að skipta út einu brunatæknilegu kerfi fyrir annað skal nota bilana og/eða atburðatré með megindlegri nálgun.
NFPA 75, Standard for the Fire Protection of Information Technology Equipment

Mynd 3. Dæmi um atburðatré, tekið úr SFPE handbókinni[5] kafla 37 Performance-Based Design.

Í kjölfar íkveikju (atburðar sem við gefum okkur að eigi sér stað sbr. kröfur byggingarreglugerðar) og rakinn er í atburðartréinu hér að ofan er byrjað á að skoða líkindi á að reykskynjari sem staðsettur í rýminu virkjast eða ekki. Á sama hátt er metið hvort íbúi/notandi rýmis takist að slökkva eldinn eða ekki. Ef íbúi slekkur ekki eldinn, er skoðað hvort vatnsúðakerfið sem er í rýminu geti annað hvort takmarkað eldinn eða ekki. Að lokum, ef vatnsúðakerfið virkar ekki sem skyldi þarf að meta brunahólfun herbergis, helst eldur og reykur innan brunahólfs eða breiðist eldur út fyrir brunahólfið. Þetta er dæmi um algenga notkun á atburðatré, sem síðan er sett upp fyrir mörg rými í viðkomandi byggingu þar sem mismunandi búnaður og varnir eru viðhafðar.
Hægt er að taka næsta skref með því að gera tölfræðilega greiningu á að meta líkur á dauðsföllum með hliðsjón af þeim vörum sem eru fyrir hendi og hvernig gera má ráð fyrir að þær virki. Líkurnar þarf svo að bera saman við þekktar áhættur.
Athuga að atburðatré þarf ávallt að vera aðlagað viðkomandi aðstæðum, kerfum og stýringum. Einnig er hægt að nýta bilanatré til að meta líkur á virkni þátta í atburðartré þar sem slíkt getur gefið betri upplýsingar um virkni og samtengingu stýringa.
Í öllu áhættumati er mikilvægt að taka tillit til samverkandi þátta í mati á áhættu. Þannig getur virkni brunaviðvörunarkerfis haft áhrif á boðun bruna og virkni ýmissa brunavarna s.s. lokunar hurða, reyklosunar og boðunar slökkviliðs.
Ávallt skal gera grein fyrir samhengi þeirra gagna sem notuð eru. Tölfræði um virkni ákveðinna brunatæknilegra kerfa getur t.d. átt við afmarkaða notkun s.s. virkni vatnsúðakerfis í íbúðarhúsnæði. Óvissa getur verið í tölfræði (bilunartíðni), sem mikilvægt er að hafa í huga. Gera þarf grein fyrir óvissu í gögnum og hvernig meðhöndlun hennar er háttað. Í mörgum tilvikum er nauðsynlegt að meta aðkomu slökkviliðs, sérstaklega þegar um er að ræða erfiðari aðstæður s.s. stórar byggingar, háhýsi, mikið brunaálag eða vegna hættulegra efna. Aðkoma slökkviliðs ræðst af mörgum þáttum, eins og sýnt hefur verið fram í rannsóknum, sjá m.a. „A probabilistic risk analysis methodology for high-rise buildings taking into account fire department intervention time„ [6] og „The influence of Fire Department Intervention to the FireSafety of a Building Assessed Using Fire Risk Analysis“ [7].
Áhættufylki eru oft notuð þegar unnið er með eigindlegar (e. qualitative) áhættugreiningar, þegar einfaldari greining dugar.
Áhættufylki eru notuð til að setja sjónrænt hugsanlegar áhættur t.d. ef eldur kemur upp í byggingu. Áhættufylki er byggt á tveimur þáttum sem skerast: líkum á að áhættuatburður eigi sér stað og hugsanlegum áhrifum sem áhættuatburður muni valda. Þetta er því tæki sem hjálpar okkur að sjá líkurnar í samhengi við alvarleika hugsanlegrar áhættu.
Það fer eftir líkum og alvarleika hvernig við flokkum áhættu, en hana má t.d. flokka sem litla, meðal, mikla, og mjög mikla. Áhættufylki eru notuð í áhættugreiningum til að hjálpa við að forgangsraða mismunandi áhættum og þróa viðeigandi mótvægisaðgerðir. Færslan í hverju staki getur því innihaldið lýsingu á hættum sem vitað er um eða er talið hafa þessa samsetningu af alvarleika afleiðinga og líkum. Það gæti líka verið notað til að skrá niðurstöðu um ásættanlega áhættu og/eða ráðleggingar um skref til að draga úr viðkomandi áhættu.
Gjarnan eru áhættufylki notuð í hönnun þar sem ítrun er beitt þar til ásættanleg áhætta er fundin. En ekki er hægt að ljúka brunahönnun án þess að tryggja að öllum meginmarkmiðun byggingarreglugerðar er náð.

Mynd 4. Dæmi um áhættufylki, internet.

Notkun áhættufylkja er líka oft notuð þegar um er að ræða hálf megindlega (e. semiquantitative) áhættugreiningu.
Atburðir eru settir fram og merktir eftir litaröð áhættufylkis. Skilgreiningar áhættufylkisins eru:

GildiLýsing
4Skelfilegar - Afleiðingar hörmulegar, dauðsföll
3Afgerandi - Afleiðingar miklar, alvarleg slys og mögulega eitt dauðsfall
2Stórar - Afleiðingar litlar, lítilsháttar slys á fólki
1Litlar - Afleiðingar örlitlar. Engin slys á fólki
Tafla 1: Afleiðingar, öryggi fólks

GildiLýsing
4Skelfilegar - Afleiðingar hörmulegar, altjón og húsið allt dæmt ónýtt eftir atburðinn. Skaðleg efni losna út í umhverfið
3Afgerandi - Afleiðingar miklar, mikið eignatjón, skaðleg efni losna líklega út í umhverfið.
2Stórar - Afleiðingar stórar. Lagfæringar utan íbúðar/utanhúss og mögulega í fleiri íbúðum vegna sóts reyks og vatns. Skaðleg efni geta losnað út í umhverfið.
1Litlar - Afleiðingar örlitlar, minniháttar skaði. Reykur í einni íbúð sem ekki veldur tjóni utan íbúðar. Engin hættuleg efni komast út í umhverfið.
Tafla 2: Afleiðingar, eignavernd

GildiLýsing
4Algengt – gerist alltaf ef eldur kviknar
3Líklegt – líklegt að þetta gerist ef eldur kviknar
2Mögulega – gæti gerst ef eldur kviknar
1Mjög ólíklegt – Mjög ólíklegt að gerist ef eldur kviknar
Tafla 3: Líkur, ef eldur kviknar

Skilgreining áhættuþáttar er: áhætta = [afleiðingar] * [líkur]

Mynd 5. Áhættufylki, önnur framsetning

Að lokum er vert að skoða almennar leiðbeiningar um markmiðshönnun og jafnframt þær leiðbeiningar sem gerðar hafa verið fyrir 9.2.3. gr. um greinargerð og sannprófun lausna. Í leiðbeiningum um markmiðshönnun frá SFPE (SFPE Engineering Guide to Performance-Based Fire Protection were identified)[5] eru sett fram eftirfarandi skref:

 • Skref 1 - Skilgreina umfang verkefnisins
 • Skref 2 - Að bera kennsl á markmið
 • Skref 3 - Að skilgreina markmið
 • Skref 4 - Þróa/skilgreina hönnunarforsendur (e. developing performance criteria)
 • Skref 5 - Þróa/skilgreina brunasviðsmyndir (e. developing fire scenarios)
 • Skref 6 - Þróun hönnunar, ítrun upphafstillaga endurmetin með hliðsjón af markmiðum (developing trial designs)
 • Skref 7 - Mæling/mat á hönnunarbruna/ brunakúrfa (e. quantifying design fire curves)
 • Skref 8 - Þróun hönnunarbruna, ítrun, upphafstillaga endurmetin með hliðsjón af markmiðum. Þetta tekur m.a. til líkana (e. Evaluating trial designs)
 • Skref 9 - Skjalfesta hönnunarferlis

Hvenær skal gera áhættumat

Eins og fram kemur í greininni skal ávallt vinna áhættumat fyrir mannvirki og starfsemi á lóðum sem talin eru sérlega varasöm m.t.t. eld- eða sprengihættu, eru samfélagslega mikilvæg, geta skapað almannahættu, geta haft mikil áhrif á mögulega landnotkun eða geta valdið alvarlegum umhverfisspjöllum við bruna.
Gera skal áhættugreiningu fyrir viðkomandi byggingar og starfsemi:

1 Eldhætta

 • Þar sem meðhöndluð eru hættuleg efni í iðnaði og geta haft áhrif út fyrir byggingu
 • Þar sem vænta má hraðrar eldsútbreiðslu
 • Starfsemi með mikið magn brennanlegra efna á lóð s.s. timbur, dekk, plast eða olíuefni og ekki er hægt að tryggja brunavanir með staðbundnum hætti (t.d. vatnsúðakerfi).

2 Sprengihætta

 • Þar sem sprengiefni eru geymd
 • Þar sem yfirþrýstingur getur skapað hættu, s.s. í ketilrýmum og spennarýmum eða þar sem efni er geymt undir þrýstingi
 • Þar sem efni eða búnaður geta valdið sprengihættu
 • Þar sem sprengifimt gas er til staðar eða þar sem unnið er með brennanlega vökva sem geta búið til sprengifimt andrúmsloft vegna uppgufunar
 • Þar sem unnið er með efni sem geta myndað brennanleg rykský

Við greiningu á afleiðingum sprengingar skal meta afleiðingar versta mögulega atburðar. Sjá einnig leiðbeiningar við grein 9.4.13. Búnaður til að draga úr sprengiþrýstingi.

3 Samfélagslega mikilvæg mannvirki

 • Þar sem um er að ræða samfélagslega mikilvæg mannvirki. Mannvirki sem varða almannahagsmuni sérstaklega, þ.e. geta haft áhrif á virkni samfélagsins, t.d. stærri flugstöðvar og meginsamgöngumiðstöðvar, mikilvæg mannvirki vegna orkuframleiðslu og dreifingar orku eða vatns, miðstöðvar löggæslu, almannavarna og slökkviliða, sjúkrahús og aðrar mikilvægar heilsustofnanir.

Megin áhersla: Fyrir samfélagslega mikilvæg mannvirki þarf fókus áhættumats að vera á áhættur vegna starfseminnar. Engu að síður getur verið nauðsynlegt að gera áhættumat vegna öryggis fólks einnig (t.d. á sjúkrahúsi eða vegna mikils fólksfjölda).

4 Mikil áhrif á landnotkun

Hér þarf að meta áhættu af því hvaða áhrif hættan hafi á svæði í kring. Notkun hættulegra efna í iðnaði getur skapað umtalsverða hættu, sem meta þarf. Nota skal mat á afleiðingum og líkindum til að meta áhrif á nálægar lóðir og svæði eða innviði eins og raflínur eða samgöngumannvirki. Æskilegt er að nota megindlegar áhættugreiningar til að meta líkur og afleiðingar.

Megin áhersla: Meta þarf áhættu og skilgreina takmarkanir varðandi nálæga landnotkun.
Mikilvægt er að skilgreina notkunarskilmála í áhættumati og brunahönnun.

5 Alvarleg umhverfisspjöll

Þar sem hætta er fyrir hendi á umhverfisspjöllum vegna bruna. Almennt valda eldsvoðar mengun og minniháttar umhverfisspjöllum sem hægt er að bæta fyrir. Alvarleg umhverfisspjöll geta átt við þegar hættuleg efni eru geymd í byggingum sem brenna eða á lóð þeirra en líka þar sem hætta er á að slökkvivatn fari niður í jarðveg og mengi t.d. grunnvatn.

Meta þarf áhættu vegna hættulegra efna og þörf á nauðsynlegum stýringum s.s. á vinnulagi og búnaði til að koma í veg fyrir og minnka afleiðingar af slysum. Mikilvægt er að skilgreina notkunarskilmála í áhættumati og brunahönnun.

6 Greinargerð um áhættumat

Greinagerð um áhættumat er mismunandi eftir umfangi áhættumats og umfangi verkefnis. En í greinargerð um áhættumat skal ávallt koma fram:

 • Forsendur og umfang greiningar, þ.e. til hvaða þátta hún nær
 • Kröfur byggingarreglugerðar
 • Notkunarskilmálar
 • Aðferðarfræði sem valin er og forsendur hennar
 • Greining og úrvinnsla
 • Óvissu í gögnum
 • Niðurstöður
 • Hvernig tryggja skal að áhættan haldist ásættanleg til lengri tíma
 • Heimildir

Sjá betur í leiðbeiningum 9.2.3. gr. um greinargerð og sannprófun lausna þar sem ítarlega er farið í uppsetningu og innihald greinargerða.

Heimildir

[1] ISO, „Risk management - Principles and guidelines (ISO Standard No. 31000:2018)“. 2018.
[2] SIS-TS 24833:2014/INSTA 950 Fire Safety Engineering – verification of fire safety design in buildings. 2014.
[3] ISO 16732-1:2012 Fire safety engineering — Fire risk assessment — Part 1: General. International Organization for Standardization, 2012.
[4] 2019, NFPA 551: Guide for the Evaluation of Fire Risk Assessments. NFPA. [Rafrænt]. Aðgengilegt á: https://www.nfpa.org/codes-and-standards/all codes-and-standards/list-of-codes-and-standards/detail?code=551
[5] Morgan J. Hurley, Morgan J. Hurley og Eric R. Rosenbaum, SFPE Handbook of Fire Protection Engineering, Fifth Edition, 5. útg. 2016.
[6] B. Tomasson, J. Bengtsson, D. Thorsteinsson, og B. Karlsson, „A probabilistic risk analysis methodology for high-rise buildings taking into account fire department intervention time“, Fire Saf. Sci., b. 9, bls. 957–968, jan. 2009, doi: 10.3801/IAFSS.FSS.9-957.
[7] K. Tillander og O. Keski-Rahkonen, The influence of Fire Department Intervention to the Fire Safety of a Building Assessed Using Fire Risk Analysis, Proceedings 3rd International Conference on Performance-Based Codes and Fire Safety Design Methods pp 247-256. Lund University, 2000.

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við