3.7.5. Vanræksla og önnur sambærileg háttsemi

Leiðbeiningar

1 Almennt

3.7.5. gr. byggingarreglugerðar eru ákvæði um hvernig byggingarfulltrúi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) skulu bregðast við komi í ljós vanræksla byggingarstjóra og eða iðnmeistara eða háttsemi af þeirra hálfu sem fer í bága við ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerð.

HMS er heimilt að veita þessum aðilum áminningu en í alvarlegri tilvikum getur komið til sviptingar starfsleyfis eða löggildingar.

[Áminningar og sviptingar eru stjórnvaldsákvarðanir og því þarf að gæta sérstaklega að því að fylgja stjórnsýslulögum við töku þeirra.]

2 Ferill málsins og skráning málsatvika

Upplýsinga aflað um atvikið
Telji byggingarfulltrúi að upp sé komið atvik sem kann að vera tilefni til tilkynningar til HMS þarf fyrst að afla upplýsinga um atvikið eða atvikin. Svo hún sé uppfyllt þarf að afla upplýsinga um hvað hefur gerst, hvenær og í hverju atvikið eða atvikin felast. Með því að afla upplýsinga er byggingarfulltrúi að uppfylla 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarregluna).


Andmælaréttur
Þegar byggingarfulltrúi telur að atvikið eða atvikin hafi verið upplýst eftir bestu getu þá þarf hann að tilkynna byggingastjóranum eða iðnmeistaranum um meðferð málsins. Þetta er í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga (andmælareglan).

Til að byggingastjóri eða iðnmeistari geti notið andmælaréttar síns er algjört grundvallaratriði að honum sé gerð grein fyrir tilefni fyrirhugaðrar tilkynningar til HMS og á hverju sú tilkynning er byggð.


Gæta þarf þess að byggingastjóri eða iðnmeistari á almennt rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið varða falli þau ekki undir gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti skv. 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga. Gögn sem eru undanþegin upplýsinga rétti samkvæmt 16. gr. stjórnsýslulaga eru m.a. vinnuskjöl sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Undanþágan gildir þó ekki ef vinnuskjal hefur að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá. Í 17. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að upplýsingaréttur aðila máls er takmarkaður ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

Þegar andmælafresti byggingastjórans eða iðnmeistarans er lokið skal byggingarfulltrúi taka endanlega ákvörðun um hvort tilkynning skuli send til HMS.

3 Tilkynning til Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar

Að loknum fresti viðkomandi byggingarstjóra eða iðnmeistara til að andmæla tekur leyfisveitandi endanlega ákvörðun um hvort tilkynning skuli send til HMS.
Ákveði byggingarfulltrúi að senda tilkynningu til HMS skulu eftirfarandi upplýsingar liggja fyrir um viðkomandi byggingarstjóra eða iðnmeistara og studdar gögnum, ef við á:

 • Nafn
 • Kennitala
 • Netfang
 • Útgefið byggingarleyfi ef við á
 • Umsókn um byggingarleyfi og skráning hlutaðeigandi ef við á
 • Efni tilkynningar og upplýsingar um atvikið/atvikin
 • Mat leyfisveitanda á atviki/atvikum
 • Þau samskipti milli leyfisveitanda og hlutaðeigandi sem máli skipta

4 Frumkvæðisathugun Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar

HMS getur einnig að eigin frumkvæði tekið til athugunar hvort byggingastjóri eða iðnmeistari hafi vanrækt hlutverk sitt samkvæmt byggingarreglugerð en slík athugun gæti t.d. verið gerð á grundvelli ytri kvartana. HMS metur í hverju tilviki fyrir sig hvort að hún taki til athugunar störf byggingastjóra eða iðnmeistara og hvernig sú athugun fer fram.

Ákveði HMS að taka störf byggingarstjóra eða iðnmeistara til athugunar ber stofnuninni að tilkynna viðkomandi um meðferð málsins. Til að aðilar geti notið andmælaréttar síns er nauðsynlegt að þeim sé gerð grein fyrir tilefni og ástæðu þess að HMS er með mál þeirra til athugunar. Gæta þarf þess að sá aðili sem til athugunar er hjá HMS á almennt rétt á að kynna sér gögn málsins nema um sé að ræða gögn sem eru undanþegin upplýsingarétti skv. 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga.

5 Athugun Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar

Þegar byggingarfulltrúi hefur sent tilkynningu til HMS, eða HMS tekur mál til skoðunar að eigin frumkvæði, tilkynnir stofnunin byggingarstjóra eða iðnmeistara að tilkynning hafi borist og viðkomandi aðila er þá gefinn kostur á að kynna sér þau gögn sem liggja til grundvallar tilkynningunni og að koma með athugasemdir í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga. HMS fer síðan sjálfstætt yfir gögnin og athugar hvort að frekari gagnaöflunar sé þörf.

HMS lýkur máli, sem hefst með tilkynningu leyfisveitanda eða að eigin frumkvæði, með formlegum hætti. Sé niðurstaðan sú að ekki sé tilefni til viðbragða, m.a. þar sem ekki hafi verið um brot að ræða að mati stofnunarinnar, brot teljist ekki það alvarlegt að það varði áminningu eða sviptingu eða að meint brot teljist ekki nægjanlega leitt í ljós, skal viðkomandi leyfisveitandi upplýstur um þær málalyktir sem og viðkomandi byggingarstjóra eða iðnmeistara.

6 Áminning eða svipting löggildingar

Um veitingu áminningar og sviptingar starfsleyfa gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo sem um andmælarétt. Mikilvægt er að fullnægjandi gögn liggi fyrir og að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin samanber 10. gr. stjórnsýslulaga (rannsóknarreglan). Ákvörðun þarf að rökstyðja og veita viðtakanda ákvörðunar leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðunina.

7 Dæmi

Eftirfarandi aðstæður gætu leitt til þess að þvingunarúrræðum yrði beitt:

 • Byggingarstjóri skilar ekki inn lögbundnum áfangaúttektum á verki til byggingarfulltrúa og í gagnasafn HMS.
 • Skráir ekki iðnmeistara á verk eða upplýsir skráðan iðnmeistara ekki um áfangaúttektir á verkþáttum sem varða hann.
 • Byggingarstjóri/iðnmeistari er ekki með samþykktar teikningar á verkstað eða er ekki að fara eftir þeim.
 • Framkvæmdir komnar lengra en samþykktar/mótteknar teikningar til byggingarfulltrúa segja til um.

Við mat á alvarleika brota byggingarstjóra eða iðnmeistara getur byggingarfulltrúi tekið mið af tölusetningu í skoðunarhandbókum.

8 Skýringarmynd

Tilvísanir

Heimildir

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar hafa verið á leiðbeiningunni:

ÚtgáfaLýsing á breytingu:Dags.
1.0Á ekki við02.10.2023